Fréttir

02. feb 2023

Ályktun FÍA vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að selja flugvél Landhelgisgæslu Íslands

Ályktun Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að selja flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF sem er sérútbúin til leitar og björgunar

Þann 1. febrúar sl. bárust fréttir af ákvörðun dómsmálaráðherra um að hætta rekstri sérútbúinnar flugvélar Landhelgisgæslu Íslands (LHG) TF-SIF. Ákvörðuninni fylgir sú niðurstaða að undirbúa eigi söluferli flugvélarinnar og að tafarlaust skuli segja upp flugmönnum vélarinnar.

Ákvörðun ráðherra er að mati FÍA óforsvaranleg og ólögleg af mörgum ástæðum. Ákvörðunin er einnig óverjanleg með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og samstarfs íslenska ríkisins við önnur ríki og stenst ekki skoðun að þjóðarrétti. Ákvörðunin vegur að þjóðaröryggisstefnu lýðveldisins Íslands og ljóst að ekki hefur verið haft samráð við Alþingi. Í ljósi þess má vænta að ráðherra hafi heldur ekki upplýst þjóðaröryggisráð um áform sín áður en hann réðist til verka og þannig brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð.

Hvergi kemur fram hvernig ráðherra ætli að uppfylla skyldur ríkisins varðandi öryggisgæslu og björgun á hafi úti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði íslenskra laga. Landhelgisgæslan getur ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna og alþjóðlegum skuldbindingum án sérútbúinnar flugvélar enda erum við eyþjóð með leitar- og björgunarsvæði sem telur 1,9 milljónir ferkílómetra og u.þ.b. 700 sjómílur eru frá Reykjavíkurflugvelli í NA & SV hornin sem marka ytri mörk svæðisins sitthvoru megin. Ísland ber ábyrgð á öryggisgæslu og löggæslu, leit og björgun á þessu svæði. Það að hafa ekki tiltæka sérútbúna flugvél líkt og TF-SIF til leitar á svona stóru svæði, þar sem umferð bæði flugvéla og skipa er mikil, og heldur áfram að aukast t.d. með aukinni umferð bæði skemmtiferðaskipta og fraktflutningaskipa, er með öllu óásættanlegt og vegur augljóslega gegn þjóðaröryggi og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins.

Hvorki í lögum um Landhelgisgæsluna né í lögum um loftferðir er að finna heimildir til að framselja skyldur stofnunarinnar um öryggisgæslu og löggæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.

Ástæður ráðherra fyrir þeirri ákvörðun sinni að selja flugvél Landhelgisgæslunnar virðast fyrst og fremst vera hagræðingar í fjármálum ríkisins en eins og komið hefur fram hjá stjórnarandstöðunni á þingi liggur ekki fyrir heimild fyrir sölu TF-SIF í nýsamþykktum fjárlögum. Þá hafa ekki verið lagðir fram útreikningar frá ráðherra sem sýna fram á í hverju hagræðingin felst og hvort hægt sé að ná fram hagstæðari rekstri flugvélar á vegum Landhelgisgæslunnar. Varðandi dýran rekstur flugvélarinnar er ljóst að engin löggæsla er rekin með hagnaði og ástæða þess að flugvélin hefur verið leigð suður um höf er að ekki hefur fengist fjármagn í fjárlögum til að hafa flugvélina alla mánuði ársins á landinu þrátt fyrir skyldur ríkisins til að hafa hana tiltæka.

Varðandi heimildarleysi til sölunnar bendir FÍA á að samkvæmt stjórnarskrá má ekki greiða gjald og selja eignir úr ríkissjóði nema heimild til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Komið hefur í ljós að engin heimild var í lögum fyrir sölu TF SIF og engin umræða hefur farið fram á Alþingi varðandi söluna. Er af því ljóst að ráðherra hefur ekki heimild til að taka þessa ákvörðun einn og án heimildar frá Alþingi. Uppsagnir flugmanna vélarinnar án slíkrar heimildir er ekki hægt að túlka öðruvísi en grimma atlögu að þeim starfsmönnum Landhelgisgæslunnar. Uppsagnir á störfum þessara flugmanna fela jafnframt í sér brot á kjarasamningi FÍA við Landhelgisgæsluna og starfsaldursreglum sem eru hluti af þeim kjarasamningi. Mun FÍA að sjálfsögðu standa vörð um störf þeirra og leita atbeina Félagsdóms gerist þess þörf.

Lesa meira
31. okt 2022

Ályktun og áskorun trúnaðarráðs FÍA um félagafrelsisfrumvarp Sjálfstæðisflokksins

Ályktun og áskorun trúnaðarráðs Félags íslenskra atvinnuflugmanna um félagafrelsisfrumvarp Sjálfstæðisflokksins

Á fundi stjórnar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Trúnaðarráðs FÍA þann 27. október 2022 var samhljóða samþykkt að fordæma frumvarp til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði, sbr. þskj. 24, á 153. löggjafarþingi. Um leið er skorað á alla þingmenn, sem lögum samkvæmt sækja umboð sitt til launafólks, að hafna frumvarpinu og verja þannig sjálfsagða hagsmuni launþega.

Að mati FÍA felur frumvarpið í sér alvarlega aðför að stéttarfélögum og um leið gegn réttindum launþega og réttindabaráttu verkalýðsfélaga til fjölda ára. Frumvarpið felur einnig í sér árás á norræna vinnumarkaðsmódelið sem samfélagsleg sátt hefur verið um hér á landi og leitt hefur til þess velferðarsamfélags sem við búum í.

Félagafrelsi er nú þegar afar vel tryggt í stjórnarskrá Íslands. Á íslenskum vinnumarkaði hefur miklu frekar skort á eftirliti með því að farið sé eftir þeim reglum sem þar hafa verið settar auk þess sem skortur er á því að vinnuveitendur fylgi settum reglum og kjarasamningum. Bæði er skortur á vilja vinnuveitenda til að fylgja regluverkinu auk þess sem eftirliti er verulega ábótavant með því að þeir fylgi regluverkinu. Á meðan það ástand ríkir eiga launþegar undir högg að sækja og mikilvægt að staða þeirra verði styrkt en ekki brotin niður líkt og ætlunin er með umræddu frumvarpi. Telur FÍA raunar brýna þörf á að styrkja stoðir stéttarfélaga og efla eftirlitsstofnanir þannig að þær geti betur sinnt hlutverki sínu og bæði fylgst með og hindrað brot á vinnumarkaðslöggjöf. Of mörg dæmi eru um að launþegar hafi átt undir högg að sækja gagnvart bæði atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Sú afstaða sem birtist með frumvarpinu er að veikja stéttarfélög og er það með öllu óásættanlegt fyrir íslenska launþega. Með frumvarpinu er staða vinnuveitanda styrkt á kostnað launþega en einnig er verið að styðja við félagsleg undirboð og gerviverktöku, sem leiðir svo til gífurlegs taps á tekjum hjá ríkissjóði. Verði frumvarpið samþykkt mun það því leiða til gjörbreytts veruleika á íslenskum vinnumarkaði og þeirri samfélagslegu mynd sem við breið sátt hefur verið um. Þrátt fyrir að frumvarpið sé sett fram undir þeim formerkjum að tryggja mannréttindi einstaklinga felur það í raun ekki í sér réttarbót fyrir launþega þegar til lengri tíma er litið heldur er til þess fallið að veikja stöðu og réttindi launafólks.

FÍA gerir einnig alvarlegar athugasemdir við það að með frumvarpinu sé vinnuveitendum heimilt að stofna stéttarfélög. Slík stéttarfélög ganga beinlínis gegn tilgangi stéttarfélaga sem málsvara launamanna gagnvart vinnuveitanda og hafa verið kölluð „gul stéttarfélög“ þar sem þau ganga erinda atvinnurekenda en ekki launamanna. Fer slíkt alfarið gegn leikreglum íslensks vinnumarkaðar og brýtur gegn ákvæðum stjórnarskrár, laga og fjölda alþjóðasamþykkta. Með slíkri breytingu er sett fram lagaheimild til félagslegra undirboða sem getur grafið með öllu undan íslenskum vinnumarkaði.

Kópavogi 31. október 2022,

f.h. Trúnaðarráðs FÍA

Jón Þór Þorvaldsson, formaður

Lesa meira
07. sep 2022

Vetrarúthlutun orlofshúsa

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á ákveðnum tímabilum í húsum okkar og eru þessi tímabil úthlutuð eftir punktastöðu. Opið verður til 12 sept. kl1200utc.

Tímabilin sem um ræða eru:

  • 10.-15. febrúar
  • 15.-19. febrúar
  • 22.-26. febrúar
  • 31.-5. apríl
  • 5.-10. apríl

Opnað verður fyrir restina af vetrinum, þriðjudaginn 13 sept. kl 1200. Fyrstur kemur fyrstur fær.
Allar nánari upplýsingar eru á
orlof.is/fia.
Kv. Skýjaborgir


*ENGLISH*

Dear FÍA members,

You can now send in an application to book a holiday cottage for specific time periods.

The window for applying for these periods closes on 12. September, at 1200utc.

Applications for holiday cottages for the rest of the winter will open on 13. September at 12:00utc.

All further information can be found on orlof.is/fia.

Best regards, Skýjaborgir

Lesa meira
28. apr 2022

Í tilefni af svörum samninganefndar ríkisins um ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar

Frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna – í tilefni af svörum samninganefndar ríkisins um ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar

Í tilefni af svörum samninganefndar ríkisins (SNR) um ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar vill Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Í málflutningi sínum lítur samninganefndin með öllu framhjá því að eðli starfa flugmanna Landhelgisgæslunnar er ekki hægt að líkja saman við önnur störf opinberra starfsmanna.

Sérstaða flugmanna LHG er að mati FÍA augljós og verður að taka tillit til þess við gerð kjarasamnings en þeir standa í framlínu í björgunaraðgerðum þar sem mannslíf eru oft í húfi, fljúga loftförum við afar krefjandi aðstæður, með veikt og slasað fólk og starfa þannig undir miklu álagi.

Mikilvægt er að bæði staða þeirra í starfi og flugöryggi sé vel tryggt.

SNR leggur mikla áherslu á að afnema beintengingu kjarasamnings flugmanna hjá LHG við kjarasamning FÍA við Icelandair. Því til grundvallar hefur nefndin vísað til úrskurðar gerðardóms í máli ríkisins og Flugvirkjafélags Íslands og fullyrðir að tenging við kjarasamninga á almennum markaði sé ólögmæt.

  • Þetta er ekki rétt þar sem skylda til beintengingar var afnumin með lagabreytingu á lögum um Landhelgisgæsluna árið 2006. Aftur á móti er enn heimild til að semja áfram á þann veg sem hafði verið samið, líkt og gert var til fjölda ára eftir breytinguna. Það er því ekki í andstöðu við lög að gera það áfram.
  • Starfsaldurslistar flugmanna geti haldið gildi sínu án þess að fara gegn lögum og reglum sem gilda á opinberum vinnumarkaði, enda er þeim ætlað að tryggja lágmarksréttindi og vernd fyrir opinbert starfsfólk. Krefjist starfsumhverfi frekari réttinda til að tryggja flugöryggi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu.
  • Beintengingin tryggir að afar eftirsóttir starfskraftar sem þjálfaðir eru við mikinn tilkostnað af ríkinu leiti ekki strax í önnur störf sem felur þannig í sér hagræði en ekki óhagræði.
  • FÍA furðar sig einnig á ummælum SNR um að FÍA hafi hafnað samtali um þau starfskjör sem er að finna í kjarasamningi FÍA við Icelandair enda á það ekki við rök að styðjast.

Samninganefnd ríkisins hefur einnig lagt höfuðáherslu á að afnema ákvæði kjarasamnings um starfsaldurslista. Sú niðurstaða SNR að flugöryggi sé nægilega tryggt með því að afnema starfsaldurslista endurspeglar skilningsleysi á starfsumhverfi flugmanna LHG og mikilvægi þess að heilbrigð öryggismenning sé í raun tryggð.

  • Starfsaldurslistar eru ein af burðarsúlum heilbrigðrar sanngirnismenningar (e. Just culture) sem innleidd hefur verið í loftferðalög í gegnum alþjóðlegar skuldbindingar. Lög og alþjóðlegar skuldbindingar um flugöryggi og sanngirnismenningu hljóta að gilda framar starfsmannalögum.
  • Hingað til hefur ekkert komið fram af hálfu SNR sem tryggir flugöryggi með sama hætti og starfsaldurslistar og hefur ríkissáttasemjari tekið undir það með FÍA. Tilvísanir SNR í lög sem eigi að tryggja flugöryggi, s.s. starfsmannalög og loftferðalög, duga ekki til og koma ekki í stað þess mikilvæga flugöryggistækis sem starfsaldurslistar eru.
  • Án starfsaldurslista hafa stjórnendur óheft frelsi til að ráðskast með flugmenn og handvelja hvaða flugmenn verða flugstjórar og hverjir ekki. Slíkt ástand hefur skaðleg áhrif á öryggismenningu. Starfsaldurslistar tryggja faglegan framgang í starfi. Athuga skal að starfsaldurslistar eru ekki jafngildir æviráðningu enda þurfa flugmenn að standast hæfnipróf á hálfs árs fresti til að haldast á listum, starfsævina á enda.
  • Tilvísun SNR í framangreindan gerðardóm í máli flugvirkja getur ekki átt við um störf og kjarasamning flugmanna í ljósi ólíks eðlis starfanna. Allt önnur sjónarmið eiga við um störf flugmanna heldur en flugvirkja varðandi mikilvægi starfsaldurslista, því í tilfelli flugmannanna snýst hann fremur um flugöryggi en starfsöryggi.
  • Þá hefur FÍA bent á leiðir og heimildir til þess að starfsaldurslisti haldi gildi sínu þrátt fyrir það sem fram kemur í gerðardómi vegna flugvirkja LHG.

Kostnaðarsamar hugmyndir samninganefndar

Sem fyrr segir telur samninganefnd FÍA að samninganefnd ríkisins hafi ekki kynnt sér starfsumhverfi og -aðstæður flugmanna nægilega vel. Sem dæmi um hversu illa nefndin virðist hafa sett sig inn í málin má benda á að samningatillögur hennar munu að öllum líkindum kosta almenning hundruðir milljóna króna meira í aukakostnað en núverandi fyrirkomulag:

  • Annars vegar vegna þess að ef hinn nýi samningur tryggir ekki sambærileg kjör og finnast á almennum vinnumarkaði er hætt við að hinir mjög svo eftirsóttu starfskraftar, þrautþjálfaðir björgunarflugmenn, myndu leita annað í leit að betri kjörum þegar þeir hafa verið þjálfaðir, með tilheyrandi tapi á þeirri tugmilljónafjárfestingu sem felst í þjálfun hvers flugmanns.
  • Hins vegar mundi aukin starfsmannavelta flugmanna leiða til “speki leka” þ.e. að dýrmæt reynsla og sérhæfð þekking flugmanna LHG mundi tapast sem mundi rýra flugöryggi og björgunargetu LHG.

Samninganefnd ríkisins lýsir því yfir að hún hafi eindreginn vilja til að ná sanngjörnum samningi sem sé í samræmi við lög og reglur sem um störf flugmanna Landhelgisgæslunnar gilda. Skýtur það skökku við þar sem samningaviðræður við SNR hafa verið mjög einhliða viðræður af hálfu ríkisins þar sem eingöngu virðist koma til greina að samþykkja það sem kemur þeim megin frá að borðinu en ekki litið til sjónarmiða flugmanna og núgildandi kjarasamnings.

FÍA hefur fundið fyrir miklum stuðningi varðandi sjónarhorn flugmanna Landhelgisgæslunnar við samningagerð frá bæði dómsmálaráðherra og yfirmönnum Landhelgisgæslunnar en ljóst er að fjármálaráðuneytið virðist ekki hafa sama skilning á málinu og hefur nefndin reynst treg til að kynna sér séraðstæður flugmanna.

Lesa meira
19. apr 2022

Ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar

Kjarasamningar flugmanna Landhelgisgæslunnar hafa verið lausir frá 31. desember 2019 og hafa samningaviðræður gengið hægt og illa. Allan þann tíma höfum við lagt allt okkar undir til að halda uppi háu þjónustustigi þrátt fyrir undirmönnun og engan samningsvilja af hálfu ríkisins.

Sem handhafar lögregluvalds hafa flugmenn ekki verkfallsrétt. Því hafa kjarasamningar þeirra verið tengdir kjarasamningum sambærilegra starfsstétta, lengst af með lögbundinni tengingu, eða til 2006.

Fjármálaráðuneytið ræðst nú af kappi gegn þessu fyrirkomulagi, með skýrri kröfu um nýjan, frumsaminn kjarasamning án tengingar við sambærilegar starfsstéttir. Slíkt mun ekki bara hafa áhrif á kjör flugmanna heldur er það til þess fallið að stórauka starfsmannaveltu meðal flugmanna Landhelgisgæslunnar.

Að viðhalda stöðlum um leit og björgun í öllu veðri er kostnaðarsamt og ver Landhelgisgæslan hundruðum milljóna króna í þjálfun á hverjum flugmanni. Aukin starfsmannavelta er því fljót að vega upp aftengingu kjara við sambærilegar stéttir og gott betur.

Fjármálaráðuneytið vegur einnig hressilega að flugöryggi með kröfu um að afnema starfsaldurslista flugmanna sem er ein af grunnstoðum í öryggismenningu í flugi um allan heim. Það fyrirkomulag hefur reynst farsælt, enda tryggja slíkir listar gagnsæi, faglegan framgang í starfi og að flugmenn geti tilkynnt um atvik án ótta við refsingu. Engin málefnaleg rök fást frá ráðuneytinu sem styðja afstöðu þess og raunar hefur samninganefnd flugmannanna skynjað skort á fagþekkingu og skilning á sérstöðu starfs-greinarinnar í samningaviðræðum.

Fjármálaráðuneytið ræðst á verkfallsréttalausa starfsstétt og því erum við í nánast vonlausri stöðu.

Við stöndum frammi fyrir kjarasetningu fremur en kjarasamningi.

Enn alvarlega er að flugöryggi Landhelgisgæslunnar er stefnt í hættu með grafalvarlegum afleiðingum fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á þeirri þjónustu að halda. Ríkissjóður má búast við hundruða milljóna aukakostnaði vegna stóraukinnar starfsmannaveltu flugmanna og tilheyrandi tapi á reynslu og þekkingu.

Við, flugmenn Landhelgisgæslu Íslands, lýsum hér með yfir miklum áhyggjum af framtíðarrekstri björgunarloftfara landsmanna allra, bæði til sjávar og sveita.

Við krefjumst sanngjarnrar og málefnalegrar kjarasamningagerðar.

Virðingarfyllst,

Flugmenn Landhelgisgæslu Íslands

Lesa meira
06. apr 2022

FÍA fordæmir viðskipti ríkisstjórnarinnar við Bláfugl

Lesa meira
15. feb 2022

Mikilvægt að tryggja sterka vinnulöggjöf á íslenskum flugmarkaði

FÍA tekur undir kröfur ASÍ varðandi breytingar á stjórnarfrumvarpi til laga um loftferðir þess efnis að flugliðum verði veitt fullnægjandi vernd gegn félagslegum undirboðum. Mikilvægt er að allur vafi verði tekinn af varðandi það m.a. um að flugrekendur sem starfi á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis starfi samkvæmt íslenskum lögum og fylgi íslenskum kjarasamningum.

FÍA skilaði einnig inn umsögn um lagafrumvarpið þar sem lögð var áhersla á að tryggja flugöryggi en einnig að vernda íslensk störf í flugi og vinna gegn því að flugstarfsemi verði útvistað eða hún færð til ríkja þar sem launa- og um leið framfærslukostnaður er mun lægri og félagsleg réttindi ekki tryggð.

Við höfum séð að flugrekendum sem stunda félagsleg undirboð hefur gengið afar illa að festa sig í sessi í Danmörku og hefur ítrekað verið bolað burtu þaðan. Er það vegna sterkrar vinnulöggjafar í Danmörku. Þetta segir okkur að við getum spyrnt á móti á sama tíma og við virðum fjórfrelsi EES samningsins.

Efst í huga FÍA við yfirferð frumvarpsins var að tryggja þurfi betur ráðningarfyrirkomulag flugmanna enda hefur það bein tengsl við flugöryggi. FÍA telur nú enn mikilvægara en áður að lagst verði með skýrum hætti gegn því að ráðningar flugmanna fari fram með óhefðbundnum hætti, þ.e. í gegnum starfsmannaleigur og með gerviverktakasamningum sem leitt geta til félagslegra undirboða. Telur FÍA mikilvægt að mörkuð verði skýr stefna í þessum efnum og að tækifæri sé til þess með nýjum lögum um loftferðir.

Fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu að framlag flugs og flugtengdrar starfsemi til vergrar landsframleiðslu á Íslandi er 13.4% á meðan sama hlutfall á heimsvísu er um 3.6%. Það er því ljóst að Íslendingar eiga mikið undir því að halda uppi öflugum flugrekstri hér á landi.

Í frétt ASÍ kemur fram krafa um að breytingar verði gerðar á frumvarpinu til að koma í veg fyrir enn frekari félagsleg undirboð í flugrekstri hér á landi og að stjórnarfrumvarpið í óbreyttri mynd opnar fyrir möguleika flugrekstraraðila til að sniðganga íslenska kjarasamninga. ASÍ telur mikilvægt að koma í veg fyrir að flugrekstraraðilar geti hundsað reglur á íslenskum vinnumarkaði með því að skrá sig erlendis. FÍA tekur undir þetta heilshugar.

Sjá frétt á vef ASÍ: https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/asi-krefst-breytinga-a-frumvarpi-um-loftferdir/

Lesa meira