Fréttir

04. maí 2023

Ályktun Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna vegna málefna Reykjavíkurflugvallar

Öryggisnefnd FÍA harmar þá ákvörðun Innanríkisráðherra að fara gegn samkomulagi sem var undirritað í nóvember 2019 en þar stendur í 5.gr:

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.“

Starfshópur Innviðaráðherra sem skipaður var vegna hugsanlegrar byggðar í Nýja Skerjafirði segir í sinni skýrslu að allar framkvæmdir í Nýja Skerjafirði muni hafa áhrif á rekstraröryggi flugvallarins.

Rétt er að benda á að til eru hjá ISAVIA gögn yfir vindmælingar á Reykjavíkurflugvelli, sem ná rúm 10 ár aftur í tímann. Þessi gögn geta meðal annars sýnt hvort og hvaða áhrif uppbygging í nálægð vallarins hefur haft á vindafar á vellinum á þessu tímabili. Mikilvægt er að rýna þessi gögn til hlítar til að meta áhrif byggðar á vindafar.

Sömuleiðis þarf að rannsaka áhrif viðbótarbyggðar á brautarskilyrði, svo sem bleytu og ísingarmyndun. Í lokaorðum skýrslunnar eru talin upp fleiri atriði sem ekki hafa verið rannsökuð sem geta haft áhrif á rekstraröryggi flugvallarins.

Umtalaðar mótvægisaðgerðir hafa ekki verið skilgreindar til hlítar eða útfærðar og óvíst að þær beri tilætlaðan árangur en þó er víst að rekstraröryggi vallarins mun skerðast.

Öryggisnefnd FÍA leggur til að fullnægjandi rannsóknir á fyrirliggjandi gögnum m.a. vindagögnum verði fullunnar og öllum framkvæmdum frestað þar til niðurstöður liggja fyrir.

F.h. Öryggisnefndar FÍA

Jón Hörður Jónsson - Formaður ÖFÍA

Lesa meira
08. feb 2023

Áskorun FÍA á SA að fylgja lögum og niðurstöðum dómstóla

Í ljósi frétta undanfarna daga um niðurstöður dómstóla í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar og yfirlýsinga Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, um að aðilum beri að fylgja lögum og niðurstöðum dómstóla, vill Félag íslenskra atvinnuflugmanna skora á hann sjálfan f.h. SA og Bláfugls, að fylgja bæði lögum, gildandi kjarasamningi Bláfugls við FÍA og niðurstöðu Félagsdóms. Þykir FÍA það ansi hart af framkvæmdastjóranum að leggja fram þessar yfirlýsingar í ljósi þess að SA hafa ekki sjálf fylgt lögum og reglum vinnumarkaðarins og niðurstöðum dómstóla í deilu sinni við FÍA varðandi flugmenn Bláfugls.

Sjá yfirlýsingar Halldórs Benjamíns hér: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-02-07-thessari-deilu-mun-ljuka-miklu-fyrr-en-innan-tveggja-manada

Sú staða sem flugmenn flugfélagsins Bláfugls voru settir í af hálfu Samtaka atvinnulífsins var bæði fordæmalaus og óverjandi, svo að FÍA vitni aftur í orð framkvæmdastjóra SA. Að mati FÍA er hér verið að kasta grjóti úr glerhúsi.

„Að fólk geti valið hvort það fylgi lögum, það er algjörlega ólíðandi staða sem við getum aldrei búið við,“ sagði Halldór Benjamín. Tekur FÍA undir þau orð og beinir því til SA að eitt og hið sama verði yfir alla að ganga. Bendir framkvæmdastjórinn einnig á að sá sem brjóti gegn lögum eigi aldrei að hagnast á því en það er einmitt það sem Bláfugl hefur náð að gera með stuðningi og atbeina SA.

https://www.visir.is/g/20232374674d/segir-eflingu-brjota-log-og-hagnast-a-o-log-maetu-a-standi

Í september 2021 féll dómur í Félagsdómi þar sem uppsagnir Bláfugls á öllum flugmönnum sem voru félagsmenn í FÍA voru dæmdar ólöglegar. Þess ber að geta að rétt áður en til uppsagnanna kom hafði félagið ráðið til sín samsvarandi fjölda gerviverktaka í gegnum erlenda starfsmannaleigu á helmingi lægri launum. Að mati FÍA er hér jafnframt um augljós félagsleg undirboð að ræða.

Í dóminum kom skýrt fram að þegar kjarasamningur rennur út gilda ákvæði hans þar til samið er að nýju en kjarasamningsviðræður voru einmitt í miðjum gangi þegar félagið greip til uppsagna. Samkvæmt ákvæði kjarasamnings eiga félagsmenn í FÍA forgang að 11 stöðugildum flugmanna félagsins. Þetta ákvæði var staðfest af Félagsdómi.

Þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms og gildandi kjarasamning hafa Samtök atvinnulífsins og Bláfugl litið svo á að þau þurfi ekki að fara eftir umræddum dómi og kjarasamningi.

Það hlýtur að vera krafa okkar í því réttarríki sem við búum í að íslensk fyrirtæki virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla. Það er með öllu óásættanlegt að svona viðhorf og framganga fái að viðgangast í okkar samfélagi.

Samhliða þessu er skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig mál Bláfugls varða og tryggja að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla. FÍA tekur þannig undir orð Halldórs Benjamíns um að mikilvægt sé að ríkisvaldið beiti heimildum sínum til þess.

Þá vill FÍA jafnframt benda á að viðræður FÍA við SA og Bláfugl hafa verið hjá ríkissáttasemjara frá því árið 2020, en ekki hefur verið boðað til fundar frá því árið 2021, eða eftir að Sólveig Gunnarsdóttir, lögfræðingur SA og stjórnarmaður í stjórn Vinnumálastofnunar, lýsti því yfir á fundi þar að kjarasamningur FÍA og SA fyrir hönd Bláfugls væri ekki lengur í gildi þar sem enginn væri starfandi eftir honum.

Það hlýtur að teljast afar varhugavert að Samtök atvinnulífsins, hagsmunasamtök íslenskra atvinnurekenda og forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins, líti svo á að þegar kjarasamningar renni út þurfi ekki að starfa eftir þeim af þeim ástæðum að öllum var sagt upp með ólögmætum hætti. Sömu aðilar ætlast nú til þess að aðrir fylgi lögum og reglum vinnumarkaðarins og niðurstöðum dómstóla.

Ljóst er af fordæmum dómstóla að kjarasamningur heldur gildi sínu þar til samið hefur verið að nýju. Að mati FÍA hefði ríkissáttasemjari átt að grípa þarna inn í og halda viðræðum lifandi en það hefur hann ekki gert. Þá hefur engin miðlunartillaga verið lögð fram í þeim viðræðum og enginn fundur boðaður í á annað ár.

FÍA hefur áður birt áskorun sama efnis 15. október 2021:

https://www.fia.is/frettir-fundagerdir/frettir/aetla-sa-og-blafugl-ad-snidganga-kjarasamninga-og-doma/

Lesa meira
02. feb 2023

Ályktun FÍA vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að selja flugvél Landhelgisgæslu Íslands

Ályktun Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að selja flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF sem er sérútbúin til leitar og björgunar

Þann 1. febrúar sl. bárust fréttir af ákvörðun dómsmálaráðherra um að hætta rekstri sérútbúinnar flugvélar Landhelgisgæslu Íslands (LHG) TF-SIF. Ákvörðuninni fylgir sú niðurstaða að undirbúa eigi söluferli flugvélarinnar og að tafarlaust skuli segja upp flugmönnum vélarinnar.

Ákvörðun ráðherra er að mati FÍA óforsvaranleg og ólögleg af mörgum ástæðum. Ákvörðunin er einnig óverjanleg með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og samstarfs íslenska ríkisins við önnur ríki og stenst ekki skoðun að þjóðarrétti. Ákvörðunin vegur að þjóðaröryggisstefnu lýðveldisins Íslands og ljóst að ekki hefur verið haft samráð við Alþingi. Í ljósi þess má vænta að ráðherra hafi heldur ekki upplýst þjóðaröryggisráð um áform sín áður en hann réðist til verka og þannig brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð.

Hvergi kemur fram hvernig ráðherra ætli að uppfylla skyldur ríkisins varðandi öryggisgæslu og björgun á hafi úti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði íslenskra laga. Landhelgisgæslan getur ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna og alþjóðlegum skuldbindingum án sérútbúinnar flugvélar enda erum við eyþjóð með leitar- og björgunarsvæði sem telur 1,9 milljónir ferkílómetra og u.þ.b. 700 sjómílur eru frá Reykjavíkurflugvelli í NA & SV hornin sem marka ytri mörk svæðisins sitthvoru megin. Ísland ber ábyrgð á öryggisgæslu og löggæslu, leit og björgun á þessu svæði. Það að hafa ekki tiltæka sérútbúna flugvél líkt og TF-SIF til leitar á svona stóru svæði, þar sem umferð bæði flugvéla og skipa er mikil, og heldur áfram að aukast t.d. með aukinni umferð bæði skemmtiferðaskipta og fraktflutningaskipa, er með öllu óásættanlegt og vegur augljóslega gegn þjóðaröryggi og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins.

Hvorki í lögum um Landhelgisgæsluna né í lögum um loftferðir er að finna heimildir til að framselja skyldur stofnunarinnar um öryggisgæslu og löggæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.

Ástæður ráðherra fyrir þeirri ákvörðun sinni að selja flugvél Landhelgisgæslunnar virðast fyrst og fremst vera hagræðingar í fjármálum ríkisins en eins og komið hefur fram hjá stjórnarandstöðunni á þingi liggur ekki fyrir heimild fyrir sölu TF-SIF í nýsamþykktum fjárlögum. Þá hafa ekki verið lagðir fram útreikningar frá ráðherra sem sýna fram á í hverju hagræðingin felst og hvort hægt sé að ná fram hagstæðari rekstri flugvélar á vegum Landhelgisgæslunnar. Varðandi dýran rekstur flugvélarinnar er ljóst að engin löggæsla er rekin með hagnaði og ástæða þess að flugvélin hefur verið leigð suður um höf er að ekki hefur fengist fjármagn í fjárlögum til að hafa flugvélina alla mánuði ársins á landinu þrátt fyrir skyldur ríkisins til að hafa hana tiltæka.

Varðandi heimildarleysi til sölunnar bendir FÍA á að samkvæmt stjórnarskrá má ekki greiða gjald og selja eignir úr ríkissjóði nema heimild til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Komið hefur í ljós að engin heimild var í lögum fyrir sölu TF SIF og engin umræða hefur farið fram á Alþingi varðandi söluna. Er af því ljóst að ráðherra hefur ekki heimild til að taka þessa ákvörðun einn og án heimildar frá Alþingi. Uppsagnir flugmanna vélarinnar án slíkrar heimildir er ekki hægt að túlka öðruvísi en grimma atlögu að þeim starfsmönnum Landhelgisgæslunnar. Uppsagnir á störfum þessara flugmanna fela jafnframt í sér brot á kjarasamningi FÍA við Landhelgisgæsluna og starfsaldursreglum sem eru hluti af þeim kjarasamningi. Mun FÍA að sjálfsögðu standa vörð um störf þeirra og leita atbeina Félagsdóms gerist þess þörf.

Lesa meira
31. okt 2022

Ályktun og áskorun trúnaðarráðs FÍA um félagafrelsisfrumvarp Sjálfstæðisflokksins

Ályktun og áskorun trúnaðarráðs Félags íslenskra atvinnuflugmanna um félagafrelsisfrumvarp Sjálfstæðisflokksins

Á fundi stjórnar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Trúnaðarráðs FÍA þann 27. október 2022 var samhljóða samþykkt að fordæma frumvarp til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði, sbr. þskj. 24, á 153. löggjafarþingi. Um leið er skorað á alla þingmenn, sem lögum samkvæmt sækja umboð sitt til launafólks, að hafna frumvarpinu og verja þannig sjálfsagða hagsmuni launþega.

Að mati FÍA felur frumvarpið í sér alvarlega aðför að stéttarfélögum og um leið gegn réttindum launþega og réttindabaráttu verkalýðsfélaga til fjölda ára. Frumvarpið felur einnig í sér árás á norræna vinnumarkaðsmódelið sem samfélagsleg sátt hefur verið um hér á landi og leitt hefur til þess velferðarsamfélags sem við búum í.

Félagafrelsi er nú þegar afar vel tryggt í stjórnarskrá Íslands. Á íslenskum vinnumarkaði hefur miklu frekar skort á eftirliti með því að farið sé eftir þeim reglum sem þar hafa verið settar auk þess sem skortur er á því að vinnuveitendur fylgi settum reglum og kjarasamningum. Bæði er skortur á vilja vinnuveitenda til að fylgja regluverkinu auk þess sem eftirliti er verulega ábótavant með því að þeir fylgi regluverkinu. Á meðan það ástand ríkir eiga launþegar undir högg að sækja og mikilvægt að staða þeirra verði styrkt en ekki brotin niður líkt og ætlunin er með umræddu frumvarpi. Telur FÍA raunar brýna þörf á að styrkja stoðir stéttarfélaga og efla eftirlitsstofnanir þannig að þær geti betur sinnt hlutverki sínu og bæði fylgst með og hindrað brot á vinnumarkaðslöggjöf. Of mörg dæmi eru um að launþegar hafi átt undir högg að sækja gagnvart bæði atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Sú afstaða sem birtist með frumvarpinu er að veikja stéttarfélög og er það með öllu óásættanlegt fyrir íslenska launþega. Með frumvarpinu er staða vinnuveitanda styrkt á kostnað launþega en einnig er verið að styðja við félagsleg undirboð og gerviverktöku, sem leiðir svo til gífurlegs taps á tekjum hjá ríkissjóði. Verði frumvarpið samþykkt mun það því leiða til gjörbreytts veruleika á íslenskum vinnumarkaði og þeirri samfélagslegu mynd sem við breið sátt hefur verið um. Þrátt fyrir að frumvarpið sé sett fram undir þeim formerkjum að tryggja mannréttindi einstaklinga felur það í raun ekki í sér réttarbót fyrir launþega þegar til lengri tíma er litið heldur er til þess fallið að veikja stöðu og réttindi launafólks.

FÍA gerir einnig alvarlegar athugasemdir við það að með frumvarpinu sé vinnuveitendum heimilt að stofna stéttarfélög. Slík stéttarfélög ganga beinlínis gegn tilgangi stéttarfélaga sem málsvara launamanna gagnvart vinnuveitanda og hafa verið kölluð „gul stéttarfélög“ þar sem þau ganga erinda atvinnurekenda en ekki launamanna. Fer slíkt alfarið gegn leikreglum íslensks vinnumarkaðar og brýtur gegn ákvæðum stjórnarskrár, laga og fjölda alþjóðasamþykkta. Með slíkri breytingu er sett fram lagaheimild til félagslegra undirboða sem getur grafið með öllu undan íslenskum vinnumarkaði.

Kópavogi 31. október 2022,

f.h. Trúnaðarráðs FÍA

Jón Þór Þorvaldsson, formaður

Lesa meira