Fréttir

10. maí 2021

Landsréttur staðfestir lögmæti aðgerða FÍA

Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn Bláfugli ehf., sem hófust í febrúar 2021, voru úrskurðaðar lögmætar af Landsrétti nú fyrir helgi. Upphaflega hafði Bláfugl óskað eftir lögbanni á verkfallsaðgerðir FÍA en sýslumaður hafnaði því. Bláfugl skaut málinu til héraðsdóm sem staðfesti ákvörðun sýslumanns. Enn áfrýjaði Bláfugl málinu og staðfesti Landsréttur að ekki yrði lagt lögbann á lögmætar aðgerðir stéttarfélagsins.

Dómur Landsréttar staðfesti jafnframt enn og aftur þá meginreglu í íslenskum vinnumarkaðsrétti að þegar kjarasamningur rennur út eða honum er sagt upp fari réttindi og skyldur samningsaðila í meginatriðum áfram eftir eldri samningi meðan enn er ósamið og verkfall er ekki skollið á. Því hafi forgangsréttarákvæði félagsmanna FÍA ekki fallið úr gildi í lögskiptum þeirra við Bláfugl, en eins og flugmenn þekkja þá réði Bláfugl til sín 10 flugmenn sem gerviverktaka í byrjun nóvember og ráku samsvarandi fjölda félagsmanna FÍA í kjölfarið.

Að sama skapi gildir að löglegt verkfall, sem boðað er af stéttarfélagi, bindur alla launþega í viðkomandi starfsgrein og jafnframt þá sem standa utan stéttarfélagsins. Með öðrum orðum voru þeir flugmenn sem flugu fyrir Bláfugl í verkfallinu verkfallsbrjótar og aðgerðir FÍA til að verja verkfallið voru fullkomlega löglegar.

Þá taldi Landsréttur að Bláfugl yrði að bera hallan af því að upplýsa ekki um ráðningar- og starfskjör þeirra flugmanna sem hann kveður starfa í sína þágu sem „sjálfstætt starfandi verktakar“. Veitir það enn og aftur augljósar vísbendingar um að Bláfugl stundar gerviverktöku sem þeir reyna að halda fyrir utan dagsins ljós.

Landsréttur staðfesti úrskurði sýslumanns og síðar héraðsdóms og dæmdi Bláfugli ehf. jafnframt að greiða FÍA 440.000 krónur í kærumálskostnað. 

Þess má einnig geta að aðalmeðferð í Félagsdómsmáli er varðar lögmæti uppsagna fór fram í apríl og er úrskurðar að vænta innan skamms.

Lesa meira
18. mar 2021

Mikilvægt dómafordæmi í Bretlandi

Í febrúar 2021 komst Hæstiréttur Bretlands að þeirri mikilvægu niðurstöðu að Uber bílstjórar ættu að vera flokkaðir sem launamenn og gætu ekki talist sjálfstæðir verktakar heldur yrðu að teljast starfsmenn fyrirtækisins Uber. Ætti það að leiða til þess að þeir fengju greidd lágmarkslaun samkvæmt breskum kjarasamningum auk þess að njóta þeirra réttinda sem þeim fylgja, s.s. veikindarétt og orlofsrétt (Sjá nánar um dóminn í frétt BBC hér).

Dómstóllinn taldi upp nokkra þætti í dæmaskyni sem leiddu til þess að bílstjórarnir gætu ekki talist verktakar, t.d. að Uber ákveður fargjaldið sem farþegar greiða og aðra samningsskilmála einhliða. Með tilliti til alls taldi Hæstirétturinn að bílstjórarnir væru undir boðvaldi Uber og að eina leið þeirra til að auka tekjur sínar væri að vinna lengri vaktir.

Að mati ECA (European Cockpit Association – Samtök evrópskra flugmanna)  eiga sömu sjónarmið við varðandi flugmenn en báðir hóparnir hafa barist harðlega gegn gerviverktöku sem atvinnurekendur virðast reyna að nýta sér. Í grein frá ECA kemur fram að innlend vinnu- og flugmálayfirvöld eigi oft í erfiðleikum með að bera kennsl á „sjálfstætt starfandi starfsmenn“ eða gerviverktöku af þessu tagi. Hefur það afstöðuleysi eftirlitsyfirvalda einmitt leitt til þess að leiga á sjálfstætt starfandi flugmönnum hefur fengið að blómstra í friði þrátt fyrir að geta ekki talist annað en ólögmæt gerviverktaka.

Í greininni er kallað eftir því að yfirvöld taki almenna afstöðu til þess að flugmenn geti ekki talist sjálfstætt starfandi flugmenn í samræmi við það sem fram hefur komið í máli Uber bílstjóranna. FÍA tekur undir sjónarmið ECA og hvetur íslensk yfirvöld til að taka afstöðu í þessum efnum varðandi „sjálfstætt starfandi“ flugmenn á Íslandi.

Lesa meira