Tengdar fréttir
Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar
Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar
Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar (LHG). Flugmenn LHG bíða enn eftir að samið verði um nýjan kjarasamning en unnið hefur verið að slíkum samningi nú í fimm ár. Á sama tíma hafa flugmenn LHG lagt allt sitt undir til að halda uppi háu þjónustustigi þrátt fyrir undirmönnun og hægan samningsvilja af hálfu ríkisins.
Þá liggur fyrir að Landhelgisgæslan þrýstir á flugmenn að standa vaktina þrátt fyrir að vera búnir með hámarks vakttíma og í orlofi og veikindum sem FÍA telur verulega alvarlegt og ganga gegn öllum reglum varðandi flugöryggi og réttindum flugmanna. Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni enda blasir við að fjöldi útkalla er í hámarki yfir sumartímann sem nú stendur yfir. Áhyggjur félagsins varðar almannahagsmuni í landinu og flugöryggi.
Að mati FÍA hafa viðræður fyrst og fremst tafist að tilstuðlan samninganefndar ríkisins (SNR). Unnið hefur verið að nýjum heildstæðum samningi í hartnær tvö ár þar sem unnið hefur verið að lausn á þeim deilumálum sem út af stóðu og boðað hafi verið til vöfflukaffis hjá ríkissáttasemjara í lok júní. Á þeim tímapunkti hafi SNR þó skyndilega dregið alla vinnuna til baka og ekki hefur verið boðað til fundar af hálfu ríkissáttasemjara síðan þá.
Fjármálaráðuneytið ræðst með þessu á verkfallsréttalausa starfsstétt en enn alvarlegra er að flugöryggi Landhelgisgæslunnar er stefnt í hættu með grafalvarlegum afleiðingum fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á þeirri þjónustu að halda. Virðingarleysi stjórnvalda gagnvart þessari mikilvægu framvarðasveit landsins er með öllu óásættanlegt að mati FÍA.

YFIRLÝSING STÉTTARFÉLAGA FLUGMANNA Á NORÐURLÖNDUNUM OG LETTLANDI
Stéttarfélög flugmanna á Norðurlöndunum og í Lettlandi leggja í dag fram neðangreinda yfirlýsingu og vilja með henni benda á þá vankanta sem nú eru á reglugerðum í Evrópu. Neytendur hafa hagnast töluvert af þeirri stöðu sem er nú er í gildi en á kostnað flugliða og hefur þetta leitt til útbreiddar misnotkunar á félagslegum réttindum þeirra.
Með yfirlýsingunni er skorað á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að setja skýrari reglur varðandi starfsumhverfi flugmanna í Evrópu. Vankantar á reglugerðum Evrópu skekkja mjög samkeppnishæfni sumra flugfélaga í Evrópu og beinlínis knýja flugfélög til þess að horfa hýru auga á lægsta samnefnara innan álfunnar þegar kemur að viðskipta og stjórnunarháttum.
Fyrirliggjandi endurskoðun á reglugerð 1008/2008 er kjörið tækifæri til þess að knýja fram heilbrigðari atvinnuskilyrði og binda enda á félagsleg undirboð, skattalagabrot og brenglaða vinnulöggjöf.
Með yfirlýsingunni er einnig lagt fram stöðuskjal sem fer nánar yfir efnið, sjá tengla hér:
Yfirlýsingin: https://flyger.no/images/dokumenter/NPS-Statement-1008.pdf
Position Paper: https://flyger.no/images/dokumenter/NPS-Position-1008.pdf
