Saga FÍA

Sjötíu ára saga Félags íslenskra atvinnuflugmanna er full af sviptingum og baráttu fyrir ólíkum málum. Það er athyglisvert hvernig sömu málefni koma upp með reglulegu millibili sem sýnir okkur að það er ekkert nýtt undir sólinni. Allt er í stöðugri hringrás.

Í dag er unnið fjölbreytt og viðamikið starf á vegum FÍA. Mörg og ólík málefni koma til kasta félagsins. Öryggismál, kjaramál, tengsl við erlend flugmannafélög, orlofshúsamál, lagasetningar, útgáfumál, fræðslumál og samningar ýmiskonar. Öll þessi málefni eru oft tímafrek og viðamikil og um leið mikilvæg fyrir félagið.

Við stofnun félagsins voru menn ekki á eitt sáttir um hvort það ætti að vera opið bæði einkaflugmönnum og atvinnuflugmönnum. Jóhannes Snorrason lagði áherslu á að hagsmunir þessara aðila færu ekki alltaf saman. Það varð ofan á að félagið myndi halda utan um málefni þeirra sem hefðu réttindi til atvinnuflugs. Félagið var stofnað sem fagfélag en ekki stéttarfélag, en snemma á árinu 1947 byrjuðu málin að þróast í þá átt að félagið varð bæði fag- og stéttarfélag.

Á vegum FÍA starfa fjölmargir við að gæta hagsmuna flugmanna. Öryggis- og stoðnefndir, stjórn, starfsfólk og trúnaðarmenn styðja með margvíslegum hætti við bakið á flugmönnum á ýmsum sviðum og tryggja flugmönnum þannig það bakland sem er þeim nauðsynlegt.

Tilgangur félagsins er samkvæmt lögum þess, að fara með samninga fyrir hönd félagsmanna um kaup og kjör, vinna að öryggismálum flugsins, vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna í atvinnumálum og veita félagsmönnum aðstoð í veikindum samkvæmt reglugerð sjúkrasjóðs.

Öryggismál

Öryggismál voru efst á dagskrá félagsfunda frá upphafi enda var brýnt verkefni fyrir félagsmenn að koma öryggismálum í viðunandi horf. FÍA hefur haldið uppi kröfum og framfylgt grundvallarreglum um öryggisþætti í flugi. Þetta var ekki létt verk í upphafi eins og áskorun sem send var til Flugráðs 30. mars 1948 sýnir vel. Þar komu meðal annars fram úrbótatillögur í 18 liðum til að stuðla að auknu flugöryggi. Þá vantaði t.d. almennileg flugleiðsögutæki og upplýsingar um nauðlendingastaði. Unnið var ötullega að því að þrýsta á stjórnvöld til að bætt yrði úr þessu. Annað dæmi sem sýnir hve þungt var í vöfum að koma á úrbótum er beiðni sem lá fyrir á félagsfundi í FÍA 13. júní 1949 um að velja hvort þeir vildu fá snjóplóg til að ryðja flugbrautirnar eða vildu kaupa radíóvita. Ekki var gefin kostur á hvoru tveggja. Vegna ónógs aðbúnaðar voru slys tíðari á þessum árum en nú er. Mikill tími og orka fór í að reyna að bæta lendingarskilyrði og þar með minnka hættu á slysum. Unnið var að því að reglur um hvíldar- og flugtíma flugmanna yrðu betur skilgreindar. Þetta var mjög þýðingarmikið atriði þar sem alveg skorti reglur um hámarks flugtíma og lágmarks hvíld. Á árunum 1967-1984 var gerð ítarleg úttekt á flugbrautum víða um land. Þá var meðal baráttumála að fá pollalausar flugbrautir og að hemja vargfugl á flugbrautum. Mikill tími fór í að ná góðu skipulagi á það hvernig staðið var að þjálfunar málum í flugi. Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur tekið virkan þátt í að koma flugsamgöngum með íslenskum flugvélum í gott horf. Í kring um 1970 kom hrina af árásum og flugránum á flugvélar. Þetta var álíka vandi þá og hefur ríkt eftir 11. september 2001. Í bréfi sem Björn Guðmundsson þáverandi formaður FÍA, ritaði til Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra á þessum tíma segir: “Vegna þess ógnarástands, sem ríkir um öryggi farþega og áhafna flugvéla í heiminum um þessar mundir, af völdum flugvélaræningja, hermdarverkamanna og leigumorðingja, skorar fundur í Félagi íslenzkra atvinnuflugmanna, haldinn þann 1. júní 1972, á ríkisstjórn, flugmálayfirvöld og flugfélögin að taka nú þegar til gagngerðrar athugunar á hvern hátt öryggi farþega og áhafna verði best tryggt á íslenskum flugvöllum og um borð í íslenskum flugvélum.”

Kjaramál

Kjaramálin hafa verið stór þáttur í öllu starfi FÍA frá árinu 1947. Fyrsti kjarasamningurinn var undirritaður 31. október 1949 og gilti frá 1. júlí 1948. Hann var gerður við Flugfélag Íslands og Loftleiðir sameiginlega. Síðar sameinuðust þessi félög í Flugleiðir, nú Icelandair. Í dag eru viðsemjendur orðnir 12 talsins, það er Air Atlanta, Air Iceland Connect, Bluebird, Flugfélagið Ernir, Flugfélagið Geirfugl, Flugskóli Akureyrar, Flugskóli Íslands, Icelandair, Keilir flugakademía, Landhelgisgæsla Íslands, Mýflug air og Norlandair. Það hafa skapast fastar venjur í kring um kjaramálin, bæði hvað varðar gerð kjarasamninga og ef brot verða á samningum. Menn leita mikið til félagsins í slíkum tilvikum og njóta vel þess sem forverar þeirra lögðu á sig í baráttu sinni við gerð kjarasamninga. Sveinbjörn Dagfinnsson fyrsti lögmaður FÍA segir átök vegna kjaradeilna hafa verið mjög hörð oft á tíðum. Hann telur að það hafi unnist tímamótasigur í gerð kjarasamninga þegar úrskurður gerðardóms um starfsaldurslista flugmanna var felldur 1965.

Atvinnuástand í flugi hefur í gegn um tíðina verið mjög ótryggt. Miklar sveiflur eru í greininni og það hafa komið upp tímabil þar sem mikið atvinnuleysi hefur ríkt meðal íslenskra flugmanna. Á einu slíku erfiðleikatímabili var farið að fljúga Pílagrímaflug. Þá varð mikið atvinnuleysi meðal flugmanna eftir að Arnarflug varð gjaldþrota. Leiguflugsverkefni og fragtflug eru fastir þættir í starfi flugmanna í dag og á það þátt í að halda uppi atvinnu og vexti í greininni.

Erlend og alþjóðleg flugmannasamtök

Það hefur einnig verið þýðingamikið fyrir flugmenn í þeirra kjarabaráttu að FÍA hefur haft tengsl við erlend flugmannafélög og samtök. Með inngöngu FÍA í alþjóðasamtök flugmanna, IFALPA, árið 1956 fékk félagið aukinn liðsstyrk og bakhjarl sem átti stóran þátt í að verja og bæta kjör flugmanna. FÍA gekk í Norræna flutningamannasambandið, NTF, árið 1992. FÍA er einnig aðili að ECA sem er félag evrópskra atvinnuflugmanna og var stofnað 1991 en FÍA varð aðili að þessum samtökum 2001. Áður en ECA varð til hétu samtök flugmanna í Evrópu Europilot og átti FÍA aðild að þeim samtökum frá 1972, þar til Europilot var lagt niður og ECA tók við. Þessi samtök eru mjög þýðingamikil fyrir FÍA ef harðar kjaradeilur verða, þar sem NTF getur stoppað alla flutninga á Norðurlöndum, og NTF er aðili að ITF sem eru flutningasamtök um heiminn. Þetta skiptir miklu vegna þess hve starfið er í eðli sínu alþjóðlegt.

Húsnæðismál

Í dag er félagið staðsett í glæsilegu húsnæði að Hlíðasmára 8, 3. hæð. Húsnæði FÍA og félagsaðstaða var mjög bágborin til að byrja með. Fundir voru haldnir á mismunandi stöðum. Árið 1949 var gengið í að stofna húsnæðisnefnd. Tíu árum síðar keypti félagið sitt fyrsta húsnæði að Laufásvegi 16. Félagið nýtti ekki húsnæðið fyrir sína starfsemi heldur leigði það út þar til það var selt árið1966. Félagið var með aðstöðu hjá Sveinbirni Dagfinnssyni, lögmanni FÍA, þar til samþykkt var á fundi 1968 að kaupa hluta í húsinu að Háaleitisbraut 68. Þar var FÍA til húsa þar til flutt var í núverandi húsnæði 2005. Félagið hafði fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið á Háaleitisbrautinni.

Fjöldi flugmanna í FÍA

Undanfarna tvo áratugi hefur verið mikil þensla í greininni í tengslum við ýmiskonar verkefni. Enda hefur atvinnuflugmönnum fjölgað verulega. Fjöldi félagsmanna á stofnfundi FÍA voru 23 og af þeim voru 22 sem gerðust stofnendur FÍA auk 8 annarra sem bættust við síðar. Jóhannes Snorrason var fyrsti formaður félagsins.

Á 50 ára afmæli FÍA voru félagarnir orðnir 223 talsins, 625 áratug síðar, og í dag eru þeir komnir vel yfir 800. Árið 1968 voru löggiltir félagsmenn í FÍA orðnir 110 en eru í dag orðnir 625 alls þegar taldir eru bæði aðal og aukameðlimir í félaginu.

Orlofshúsamál

Orlofshúsamál hafa verið fastur liður í starfsemi FÍA frá árinu 1982. Þann 13. mars 1982 var stofnaður orlofsheimilasjóður og var hann skírður Skýjaborgir. Þá réðist félagið í kaup á fjórum sumarhúsum, þremur í Brekkuskógi og einu í Aðaldal. Þau hús hafa nú verið seld og önnur keypt í staðinn en í dag á félagið eitt hús í Reykjaskógi í Biskupstungum, eitt í Kjarnaskógi og tvö á Akureyri. Húsin eru hin glæsilegustu og eru vel nýtt af félagsmönnum FÍA.

Jafnréttismál

Þegar FÍA átti 50 ára afmæli störfuðu 5 konur sem flugmenn og þar af fjórar hjá Flugleiðum. Áratug síðar var 31 kona félagi í FÍA, eða tæp 5% félagsmanna. Undanfarin ár hefur kvenkyns flugmönnum fjölgað nokkuð hratt og eru konur nú tæp 10% félagsmanna.

Klofningur og sameining FÍA

Erfitt atvinnuástand upp úr 1970 hafði meðal annars þau áhrif að bitist var um hverja stöðu sem losnaði. Þetta gerði sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands erfiða. Menn töldu ákveðnar stöður á þotum eyrnamerktar ákveðnu flugfélagi. Þetta leiddi til þess að klofningur varð í FÍA og gengu flugmenn Loftleiða út úr félaginu og stofnuðu sitt eigið félag. Eftir nokkurra ára fjarveru var farið að ræða sameiningu á ný og hófust þær viðræður 1979. Þær enduðu með sameiningu flugmanna á einn starfsaldurslista 1981. Árið 1994 varð óánægja meðal flugmanna til þess að aftur var stofnað nýtt stéttarfélag, Frjálsa flugmannafélagið eða FFF. Það félag starfaði og sá um samninga fyrir hönd flugmanna Air Atlanta til ársins 2005 þegar það sameinaðist FÍA aftur.

Lagasetningar

FÍA er umsagnaraðili um lög sem sett eru í sambandi við loftferðir, öryggismál í flugi og aðra þætti sem snúa að starfi flugmanna.

Útgáfumál

Frá stofnun félagsins hafa útgáfumál verið hluti af starfinu í FÍA. Fyrstu árin styrkti félagið útgáfu á tímaritinu Flug. Árið 1988 var gefið út Flugmannatal. Fréttabréf FÍA hefur verið gefið út með hléum frá árinu 1982 en í dag sjá heimasíða, farsímaapp og samfélagsmiðlar að miklu leyti um að miðla ferskum upplýsingum til félagsmanna sem varða þeirra hagsmuni og starf.

Fræðslumál

Fræðslumál hafa verið á döfinni frá fyrsta fundi sem haldinn var í FÍA. Áherslan var fyrst á þjálfunarmál og námskeið í hjálp í viðlögum. Einnig hafa verið haldin annars konar námskeið. Til dæmis voru á þessu ári námskeið í ræðumennsku til að styrkja menn í að koma fram með þau málefni sem þeim finnast brýn. Kannanir af ýmsu tagi hafa verið gerðar bæði varðandi aðbúnað og heilsu. Þar má nefna krabbameinsrannsóknir en talið er að aukin áhætta sé á krabbameini meðal flugmanna vegan geimgeislunar.

Heilbrigðismál

Miklar kröfur eru gerðar um að heilsufar flugmanna sé gott og er vel fylgst með því. Þess er m.a. krafist að þeir fari í læknisskoðun tvisvar á ári eftir fertugt. Hér hefur verið stiklað á ýmsum þáttum í 70 ára sögu FÍA en þetta er að sjálfsögðu engan veginn tæmandi úttekt. Það má sjá að grunnurinn var góður og á honum byggist starfið í FÍA enn.

Höfundur: Hildur Halldóra Karlsdóttir.
(Greinin hefur verið uppfærð frá því hún var skrifuð í tilefni af 60 ára afmæli félagsins.)