Fréttir

04. okt 2023

ECA gagnrýnir íslensk stjórnvöld

Samtök atvinnuflugmanna í Evrópu (European Cockpit Association eða ECA) hafa gefið frá sér ályktun þar sem vinnubrögð íslenskra stjórnvald er varðar gerviverktöku í flugi eru gagnrýnd harðlega. Ályktunin var send á bæði Vinnumálastofnun og félags – og vinnumarkaðsráðuneytið.

Kveikjan er uppsögn flugmanna Bláfugls (Bluebird Nordic) í lok árs 2020 og ráðning gerviverktaka í þeirra stað. Uppsagnirnar voru í kjölfarið dæmdar ólögmætar af Félagsdómi en þrátt fyrir það hefur Bláfugl í engu breytt atferli sínu né heldur hafa íslensk stjórnvöld brugðist við ítrekuðum umleitunum FÍA um að bregðast við áframhaldandi lögbrotum Bláfugls.

„Atferli Bláfugls, með dyggum stuðningi Samtaka atvinnulífsins og íslenskra stjórnvalda, setur vitaskuld skelfilegt fordæmi fyrir íslenskan vinnumarkað: Fyrirtæki geta nú refsilaust rekið allt kjarasamningsbundið starfsfólk á einu bretti og ráðið gerviverktaka í staðinn,“ segir Sonja Bjarnadóttir Backman, lögfræðingur FÍA, og bætir við að um þessar mundir sé skaðabótmál fyrrum flugmanna Bláfugls fyrir dómstólum.

Flugmenn uppfylla ekki skilyrði verktöku

ECA gætir sameiginlegra hagsmuna atvinnuflugmanna á evrópskum vettvangi. Lagahópur samtakanna hittist reglulega og nú síðast þann 26.-27. september á Íslandi. Áhersla fundarins að þessu sinni var gerviverktaka meðal flugmanna með áherslu á íslenskt lagaumhverfi. „Ástæðan fyrir staðsetningu fundarins er aðgerðar- og áhugaleysi Vinnumálastofnunar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Samgöngustofu og annarra eftirlitsaðila hér á landi varðandi málefnið. Opinberum aðilum var boðið að taka þátt í fundinum en þáðu það ekki,“ segir Sonja.

„Íslenskir lögfræðingar með sérhæfingu í skatta- og vinnurétti fóru yfir lagaumhverfið hér á landi og það var samdóma álit hópsins að íslensk löggjöf næði vel utan um málið og heimildir og skyldur stjórnvalda væru bæði skýrar og nægar. Farið var yfir skilyrði fyrir verktöku og var það samdóma álit allra bæði af dómafordæmum og löggjöf að flugmenn geta í eðli sínu ekki starfað sem verktakar þar sem þeir uppfylla ekki skilyrði verktöku.“

Dulbúnir launþegasamningar við óskráðar starfsmannaleigur

Þá kom einnig skýrt fram að skrá beri starfsmannaleigur hjá Vinnumálastofnun sem veiti þjónustu til íslenskra fyrirtækja. Bláfugl starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og leigir flugmenn í gegnum erlendar starfsmannaleigur. „Þrátt fyrir að samningar við umrædda flugmenn séu titlaðir sem verktakasamingar eru þeir í raun launþega- samningar og verður því að horfa á þá sem slíka og skrá umrædda leigu sem starfsmannaleigu samkvæmt íslenskum lögum og greiða þeim laun samkvæmt kjarasamningum,“ segir Sonja og segir að ECA muni fylgjast grannt með framvindu mála hér á landi og ræða í framhaldinu næstu mögulegu skref.

Lesa meira
03. okt 2023

Nýr framkvæmdastjóri FÍA

Hermann Sigurðsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Félags íslenskra flugmanna (FÍA) af Láru Sif Christiansen sem hefur gegnt starfinu frá 2018. Hermann hóf störf 1. október og mun starfa við hlið Láru þar til hún lætur af störfum í lok desember.

Hermann starfaði sem framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í 5 ár og bar hann ábyrgð á allri daglegri starfsemi þess og tengdum sjóðum, s.s. Styrktarsjóð, Starfsmenntunarsjóð, Orlofssjóð og Tryggingasjóð. Hann sat í samninganefndum og samstarfsnefndum og bar ábyrgð á viðburðum og útgáfumálum félagsins. Undanfarna mánuði hefur Hermann unnið sem verkefnastjóri og ráðgjafi í rekstri fyrirtækja.

Hermann starfaði sem framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta á árunum 2009 - 2017 og sat í stjórn fjögurra dótturfélaga og sá um að samhæfa aðgerðir á milli þeirra. Þar má nefna Skátamót ehf, Skátabúðin ehf, Grænir skátar ehf og var síðast formaður stjórnar Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni.

Hermann kláraði BS í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst 2004 og MCM nám í áfallastjórnun frá Háskólanum Bifröst 2023. Hermann er 42 ára Garðbæingur, er kvæntur Ósk Auðunsdóttur aðstoðarskólastjóra og á þrjú börn á aldrinum 6-11 ára. Hann hefur verið skáti frá barnsaldri og var virkur í björgunarsveitum um tíma. Hans helstu áhugamál er að ferðast innanlands og utan, stunda ýmis konar hreyfingu hvort það sé líkamsrækt, hjólreiðar eða badminton.

Stjórn FÍA þakkar Láru fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, býður Hermann velkominn til starfa og hlakkar til samstarfsins.

Lesa meira
04. maí 2023

Ályktun Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna vegna málefna Reykjavíkurflugvallar

Öryggisnefnd FÍA harmar þá ákvörðun Innanríkisráðherra að fara gegn samkomulagi sem var undirritað í nóvember 2019 en þar stendur í 5.gr:

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.“

Starfshópur Innviðaráðherra sem skipaður var vegna hugsanlegrar byggðar í Nýja Skerjafirði segir í sinni skýrslu að allar framkvæmdir í Nýja Skerjafirði muni hafa áhrif á rekstraröryggi flugvallarins.

Rétt er að benda á að til eru hjá ISAVIA gögn yfir vindmælingar á Reykjavíkurflugvelli, sem ná rúm 10 ár aftur í tímann. Þessi gögn geta meðal annars sýnt hvort og hvaða áhrif uppbygging í nálægð vallarins hefur haft á vindafar á vellinum á þessu tímabili. Mikilvægt er að rýna þessi gögn til hlítar til að meta áhrif byggðar á vindafar.

Sömuleiðis þarf að rannsaka áhrif viðbótarbyggðar á brautarskilyrði, svo sem bleytu og ísingarmyndun. Í lokaorðum skýrslunnar eru talin upp fleiri atriði sem ekki hafa verið rannsökuð sem geta haft áhrif á rekstraröryggi flugvallarins.

Umtalaðar mótvægisaðgerðir hafa ekki verið skilgreindar til hlítar eða útfærðar og óvíst að þær beri tilætlaðan árangur en þó er víst að rekstraröryggi vallarins mun skerðast.

Öryggisnefnd FÍA leggur til að fullnægjandi rannsóknir á fyrirliggjandi gögnum m.a. vindagögnum verði fullunnar og öllum framkvæmdum frestað þar til niðurstöður liggja fyrir.

F.h. Öryggisnefndar FÍA

Jón Hörður Jónsson - Formaður ÖFÍA

Lesa meira