None
03. okt 2023

Nýr framkvæmdastjóri FÍA

Hermann Sigurðsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Félags íslenskra flugmanna (FÍA) af Láru Sif Christiansen sem hefur gegnt starfinu frá 2018. Hermann hóf störf 1. október og mun starfa við hlið Láru þar til hún lætur af störfum í lok desember.

Hermann starfaði sem framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í 5 ár og bar hann ábyrgð á allri daglegri starfsemi þess og tengdum sjóðum, s.s. Styrktarsjóð, Starfsmenntunarsjóð, Orlofssjóð og Tryggingasjóð. Hann sat í samninganefndum og samstarfsnefndum og bar ábyrgð á viðburðum og útgáfumálum félagsins. Undanfarna mánuði hefur Hermann unnið sem verkefnastjóri og ráðgjafi í rekstri fyrirtækja.

Hermann starfaði sem framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta á árunum 2009 - 2017 og sat í stjórn fjögurra dótturfélaga og sá um að samhæfa aðgerðir á milli þeirra. Þar má nefna Skátamót ehf, Skátabúðin ehf, Grænir skátar ehf og var síðast formaður stjórnar Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni.

Hermann kláraði BS í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst 2004 og MCM nám í áfallastjórnun frá Háskólanum Bifröst 2023. Hermann er 42 ára Garðbæingur, er kvæntur Ósk Auðunsdóttur aðstoðarskólastjóra og á þrjú börn á aldrinum 6-11 ára. Hann hefur verið skáti frá barnsaldri og var virkur í björgunarsveitum um tíma. Hans helstu áhugamál er að ferðast innanlands og utan, stunda ýmis konar hreyfingu hvort það sé líkamsrækt, hjólreiðar eða badminton.

Stjórn FÍA þakkar Láru fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, býður Hermann velkominn til starfa og hlakkar til samstarfsins.