Fréttir

21. jan 2021

ASÍ: Bláfugl vegur að grundvallarréttindum stéttarfélaga

Málefni flugmanna Bláfugls hafa vakið talsverða athygli að undanförnu og hafa FÍA borist stuðningsyfirlýsingar víðs vegar að vegna málsins, til að mynda frá Flugfreyjufélagi Íslands og Flugvirkjafélagi Íslands.

Nú hefur miðstjórn ASÍ einnig tekið skýra afstöðu og fordæmir aðgerðir Bláfugls sem enn eina tilraunina til félagslegra undirboða í flugrekstri hér á landi.

Í yfirlýsingu ASÍ kemur fram að með framgöngu sinni vegi Bláfugl að grundvallarréttindum stéttarfélaga og þar með öllu launafólki á Íslandi enda sé atvinnurekendum óheimilt að reyna að hafa áhrif á vinnudeilur eða stéttarfélagsaðild með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíkt. Þá sé Bláfugli ekki heimilt að eiga viðskipti við starfsmannaleigur sem ekki sinna lögbundnum skyldum sínum.

Í yfirlýsingunni skorar ASÍ á Vinnumálastofnun að rísa undir hlutverki sínu og nota allar þær heimildir sem hún hefur til þess að tryggja að ekki séu stunduð félagsleg undirboð og lögbrot á íslenskum vinnumarkaði.

Vinnumálastofnun fái vald til að beita sektum
Í viðtali í útvarpsþættinum Í bítinu á Bylgjunni, fimmtudaginn 21. janúar, ræddi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, um stöðu mála á vinnumarkaði en hann sagði að vinnuveitendur sem greiði ekki laun samkvæmt kjarasamningi væru mikið mein á íslenskum vinnumarkaði, þótt vissulega væri um minnihluta fyrirtækja sem brytu af sér: „Refsingin er engin og því er fólk að leika þennan leik.“

Ásmundur Einar sagði að nú væri stefnt að því að taka harðar á slíkum málum í samræmi lífskjarasamningnn en þar er m.a. tekið fram að treysta skuli í sessi heilbrigðan vinnumarkað þar sem brot á launafólki líðist ekki með því að lögfestar verði aðgerðir gegn félagslegum undirboðum. Nú hefur frumvarp, unnið af félagsmálaráðuneyti með aðkomu SA og ASÍ, verið samþykkt af ríkisstjórninni og verður lagt fyrir Alþingi þegar kynningu innan ríkisstjórnarflokkanna líkur. Ráðherrann sagði að verði frumvarpið samþykkt fái Vinnumálastofnun vald til að setja á sektir og jafnvel gera fyrirtækjum að greiða sérstakar skaðabætur til launamanna sé um alvarleg brot að læra. Hann sagði jafnframt að engin pólitísk andstaða væri fyrir því að fylgja þessu eftir.

Lesa meira
07. jan 2021

Boðar Bláfugl endalok stéttarfélaga?

„Bláfugl ræðst gegn launþegum og kjarasamningum.” Þannig hljómar fyrirsögn fréttar sem birtist á mbl.is þann 30. desember s.l. Þann dag fengu 11 flugmenn Bláfugls uppsagnarbréf frá fyrirtækinu. Þessir flugmenn eiga það sameiginlegt að vera í stéttarfélagi. Aðrir flugmenn félagsins eru gerviverktakar og halda óbreyttu fyrirkomulagi.

Aðild að stéttarfélagi er ekki liðin hjá fyrirtækinu Bláfugli sem þó er aðili að Samtökum atvinnulífsins (SA). Samtökin eiga sæti í samninganefnd Bláfugls við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). Með þessum aðgerðum hefur Bláfugl með þegjandi samþykki Samtaka atvinnulífsins farið í grímulausa og ólögmæta aðför gegn starfsmönnum sínum og um leið öllum launþegum á Íslandi sem starfa á grundvelli kjarasamninga.

Styðja SA uppsagnir vegna stéttafélagsaðildar?

Það mun óneitanlega vekja athygli ef Samtök atvinnulífsins, rjúfa ekki þögnina og hafna slíkum vinnubrögðum. Ekki síst fyrir þær sakir að framkvæmdastjóri samtakanna skrifaði undir sameiginlega yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands (ASÍ), Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ), SA, og Icelandair þann 17. september s.l. eftir erfiðar kjaraviðræður.

Í þeirri yfirlýsingu eru viðbrögð Icelandair og stuðningur SA við þau viðbrögð hörmuð. Aðilar eru sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í kjaradeilum séu að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðar og sem koma fram í lögum nr. 80/1938.

Samtök atvinnulífsins segjast vera í forystu um samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði og óskar FÍA svara við því hvort þau vinnubrögð fyrirtækja að segja upp fólki vegna stéttarfélagsaðildar sé virkilega liðin af samtökunum?

Samtök atvinnulífsins eru jafnframt tengiliður Íslands við hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja (UN Global Contract), öflugasta framtak í heiminum á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja. Sáttmálinn kveður m.a. á um 10 grundvallarmarkmið sem eru tíunduð á heimasíðu Festu:

Hin tíu grundvallarviðmið;

Með þátttöku í Global Compact geta fyrirtæki tekið þátt í því að þróa markaðshagkerfi sem stuðlar að velferð samfélags og umhverfis með því að samtvinna hin tíu grundvallarviðmið við heildarstefnu fyrirtækisins. Grunvallarviðmiðin eru á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála umhverfismála og baráttu gegn hvers kyns spillingu.

Mannréttindi

  1. Fyrirtæki styðja og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda
  2. Fyrirtæki fullvissa sig um að þau gerist ekki meðsek um mannréttindabrot.

Vinnumarkaður

  1. Fyrirtæki styðja við félagafrelsi og viðurkenna í raun rétt til kjarasamninga.
  2. Fyrirtæki tryggja afnám allrar nauðungar- og þrælkunarvinnu.
  3. Virkt afnám allrar barnavinnu er tryggt.
  4. Fyrirtæki styðja afnám misréttis til vinnu og starfsvals.

Umhverfi

  1. Fyrirtæki styðja beitingu varúðarreglu í umhverfismálum.
  2. Fyrirtæki hafi frumkvæði að því að hvetja til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfinu.
  3. Fyrirtæki hvetji til þróunar og nýtingar á umhverfisvænni tækni.

Gegn spillingu

  1. Fyrirtæki vinni gegn hvers kyns spillingu, þar með talið kúgun og mútum.

Við krefjumst þess að Samtök atvinnulífsins standi undir merkjum sem tengiliður Íslands í þessu samhengi.

Saga Bláfugls og samskiptin við FÍA

Bláfugl er flugfélag sem stofnað var um síðustu aldamót og hefur verið með kjarasamning við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) frá stofnun félagsins. Aldrei í sögu fyrirtækisins hafa flugmenn stofnað til aðgerða gegn Bláfugli vegna kjaraviðræðna, ávallt hefur verið samið í sátt hingað til.

Eigendaskipti fyrirtækisins hafa átt sér stað á þeim ríflega 20 árum,sem fyrirtækið hefur starfað. Nú síðast í apríl 2020 þegar erlent móðurfyrirtæki Avia Solutions Group með höfuðstöðvar á Kýpur eignuðust Bláfugl. Strax eftir eigendaskiptin óskuðu nýjir eigendur eftir því að flugmenn FÍA færu í hlutastörf og nýttu sér hlutabótaleið stjórnvalda ellegar tækju á sig 20% launalækkun í 100% starfi þrátt fyrir að vera með ólöglega gerviverktaka í vinnu í gegnum óskráða starfsmannaleigu. Því var hafnað af hálfu FÍA.

Nýir eigendur endurnýjuðu þó kjarasamning við FÍA frá árinu 2018 fram til 30 júní 2020. Aðilar voru sammála um að gera stuttan fleytisamning vegna Covid-19 heimsfaraldurs. Sá samningur var svokallaður núll samningur. Engar breytingar voru gerðar á kjarasamningi og engar launahækkanir fólust í samningnum. FÍA bauð Bláfugli 12 mánaða samning á þeim forsendum vegna óvissuástandsins. Bláfugl vildi einungis 3 mánuði.

Nú í haust hófust kjaraviðræður að nýju. Þar hefur verið unnið eftir viðræðuáætlun sem lögð var fram af SA og Bláfugli . Í viðræðuáætluninni er gert ráð fyrir að hvor aðili eða báðir geti vísað viðræðunum til ríkissáttasemjara eftir 2. janúar 2021. Bláfugl hafði ítrekað lýst yfir að góður gangur væri í viðræðunum en eftir einungis 5 fundi var öllum flugmönnum sem eru aðilar að stéttarfélaginu FÍA sagt upp störfum.

Gerviverktaka í flugi

Að því tilefni sendi framkvæmdastjóri fyrirtækisins tilkynningu á fjölmiðla þar sem meðal annars kom fram að hér eftir yrðu einungis „sjálfstætt starfandi flugmenn” hjá Bláfugli og er þar átt við að flugmenn starfi á grundvelli verktakasamninga. „Sjálfstætt starfandi flugmenn” er nýyrði yfir gerviverktöku og félagsleg undirboð. Flugmaður sem starfar fyrir flugrekanda getur í eðli sínu ekki starfað sem verktaki þar sem hann uppfyllir ekki skilyrði verktöku. Flugmaðurinn ræður ekki vinnutíma sínum sjálfur, hann getur ekki ráðið aðra sér til aðstoðar og útvegar ekki tæki og tól til verksins. Ennfremur er flugmönnum óheimilt að starfa fyrir fleiri en einn flugrekanda á sama tíma.

Nánari upplýsingar um muninn á launþega, verktaka og gerviverktaka er að finna á heimasíðu RSK ásamt úrskurðum.

Tilkynningunni fylgdu fullvissuorð um að „aðgerðirnar muni ekki koma niður á starfsemi fyrirtækisins”… það mun tíminn leiða í ljós.

Gerviverktaka er ógn við flugöryggi

Gerviverktaka og félagsleg undirboð eru bein ógn við flugöryggi. Ýmsar rannsóknir og kannanir hafa verið gerðar á fylgni starfskjara og flugöryggis. Niðurstöður þeirra eru að hjá fyrirtækjum sem notast við gerviverktaka er öryggismenning verri og flugmenn fljúga útúrþreyttir af ótta við atvinnumissi og eða refsingar af hálfu yfirmanna og eigenda slíkra fyrirtækja. Verktaki sem býr við lítið sem ekkert starfsöryggi og nýtur engra félagslegra réttinda starfar undir ægivaldi verkkaupa. Stígi verktakaflugmaður rangt spor í dansi sínum við flugrekanda er honum umsvifalaust vísað frá. Hann á hvorki orlofs- né veikindarétt og stendur því uppi án greiðslna tilkynni hann sig veikan eða óhæfan til vinnu sökum af öðrum sökum.

Dæmin eru mýmörg og hægt væri að skrifa langt mál um efnið. En látum þetta nægja að sinni.

Ekki á skrá hjá Vinnumálastofnun

Bláfugl hefur notast við starfsmannaleigu sem heitir Confair Consultancy BV. Starfsmannaleiga sem er ekki, og hefur aldrei verið skráð hjá Vinnumálastofnun eins og lög gera ráð fyrir, þrátt fyrir fullyrðingar Bláfugls um annað. Slíkt er gert til að komast hjá því að greiða skatta og launatengd gjöld, en einnig til að eiga auðveldara um vik með félagsleg undirboð sem vitaskuld eru ólögleg í flestum samfélögum.

Brot gegn lögum um stéttarfélög

Hlutverk stéttarfélaga er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og launafólks almennt gagnvart atvinnurekendum og samtökum þeirra m.a. með gerð kjarasamninga. Stéttarfélög njóta verndar í stjórnarskrá lýðveldisins, íslenskum lögum og fjölda alþjóðasamþykkta sem Ísland á aðild að. Stéttarfélög eru frjáls félagasamtök launafólks sem kýs sér fulltrúa í þeim tilgangi að semja við atvinnurekendur um kaup og kjör í kjarasamningum. Kemur þetta skýrt fram í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Uppsögn flugmannanna 11 felur í sér brot gegn 4. gr. laganna sem mælir m.a. fyrir um að atvinnurekendum sé óheimilt að hafa áhrif á afstöðu eða afskipti starfsmanna af stéttarfélögum með uppsögn úr vinnu.

Einnig er með þessum gjörningi brotið gróflega gegn ákvæðum kjarasamnings sem er í gildi og er undirritaður af báðum aðilum. Bláfugl, með Samtök atvinnulífsins sér við hlið, hefur hafnað skriflegri áskorun FÍA um að draga uppsagnir flugmannanna til baka og koma að samningaborðinu að siðaðra manna hætti. FÍA hefur af þeim sökum vísað kjaraviðræðunum til embættis ríkissáttasemjara. Reynist viðræður árangurslausar blasa því miður við aðgerðir gegn Bláfugli bæði hérlendis og erlendis.

Ef slík framkoma gegn launafólki og löglegum stéttarfélögum, eins og er að eiga sér stað gagnvart flugmönnum Bláfugls er látin viðgangast, er ljóst að dagar baráttu launafólks hér á landi eru taldir. Fróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum þeirra sem gæta eiga hagsmuna fólksins við þessum ráðstöfunum.

F.h. Stjórnar FÍA

Jón Þór Þorvaldsson

Formaður FÍA

Lesa meira
10. des 2020

Yfirlýsing 8 samgönguráðherra um samfélagslega ábyrgar samgöngur

Þriðjudaginn 8. desember skrifuðu átta evrópskir samgönguráðherrar undir sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir kalla eftir samfélagslega ábyrgum flugsamgöngum.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna fagnar yfirlýsingunni sem sýnir bæði metnað og ásetning ráðherranna. Ljóst er að aðgerða er þörf til að tryggja öryggi, félagsleg réttindi starfsfólks og heilbrigða samkeppni í flugsamgöngum.

Ráðherrarnir koma frá Danmörku, Belgíu, Austurríki, Frakklandi, Ítalíu, Lúxemborg, Hollandi og Portúgal en með yfirlýsingunni vilja þeir þrýsta á framkvæmdastjórn ESB og önnur aðildarríki til að tryggja að við enduruppbyggingu flugsamgangna eftir COVID-19 verði lögð áhersla á öryggi, sanngjarna og óbrenglaða samkeppni og félagsleg réttindi fyrir starfsfólk.

Í yfirlýsingunni er bent á að COVID-19 krísan hafi afhjúpað miklar breytingar sem hafi átt sér stað og stóra galla á flugiðnaðinu, sem hafa náð að byggjast upp vegna slælegs regluyfirlits: Mikil lagaleg óvissa vegna skatta- og vinnulöggjafar, óvissa um félagsleg réttindi starfsfólks, brengluð samkeppni milli flugfélaga og ójöfn réttindastaða starfsfólks auk þess sem löggjöf ríkja sem og framkvæmd og eftirfylgni reglna er víða ábátavant.

Öll þessi atriði, sem ráðherrarnir telja að þurfi forgangsathygli, geta verulega hindrað enduruppbyggingu flugsamgangna eftir að COVID-19 krísunni líkur.

Hér má lesa þýðingu á sameiginlegu yfirlýsingunni á íslensku.

Hér má lesa fréttatilkynningu ECA um sameiginlegu yfirlýsinguna.

Lesa meira
24. sep 2020

Ákall frá starfsfólki í flugrekstri

Á þeim tímapunkti, þegar hálft ár er liðið frá því að COVID heimsfaraldurinn hófst, vill starfsfólk í flugrekstri – flugmenn, flugfreyjur- og þjónar, flugvirkjar og flugumferðastjórar - senda samgönguráðherrum Evrópu mikilvæg skilaboð fyrir sameiginlegan fund þeirra þann 28. september næstkomandi.

Þegar Evrópuríki lokuðu landamærum sínum stöðvaðist nær allt farþegaflug, þótt vöruflutningar með lækningabúnað og aðrar nauðsynjar hafi haldið áfram. Þessir erfiðu mánuðir aðgerðarleysis minntu okkur á tilgang flugrekstursins; að tengja saman fólk og menningarheima, flytja vörur, halda hagkerfum gangandi og þjóna almannahagsmunum.

Ástandið hefur einnig afhjúpað stóra kerfisbundna bresti í flugrekstri. Bresti sem hafa myndast vegna áralangs niðurskurðar og stjórnenda sem hafa verið í sífelldu kapphlaupi að botninum. Ef ekkert verður að gert nú í kjölfar kórónuveirufaraldursins varðandi þessa bresti mun fólkið sem starfar við flugrekstur í Evrópu eiga erfitt með að sinna sínu meginhlutverki: Að þjóna almannahagsmunum.

Að snúa aftur til óbreytts ástands eftir COVID er ekki valkostur.

Sjá sameiginlega ákallið í heild sinni hér: COVID-19 & AVIATION - Time to rethink!

Lesa meira