21. jan 2021

ASÍ: Bláfugl vegur að grundvallarréttindum stéttarfélaga

Málefni flugmanna Bláfugls hafa vakið talsverða athygli að undanförnu og hafa FÍA borist stuðningsyfirlýsingar víðs vegar að vegna málsins, til að mynda frá Flugfreyjufélagi Íslands og Flugvirkjafélagi Íslands.

Nú hefur miðstjórn ASÍ einnig tekið skýra afstöðu og fordæmir aðgerðir Bláfugls sem enn eina tilraunina til félagslegra undirboða í flugrekstri hér á landi.

Í yfirlýsingu ASÍ kemur fram að með framgöngu sinni vegi Bláfugl að grundvallarréttindum stéttarfélaga og þar með öllu launafólki á Íslandi enda sé atvinnurekendum óheimilt að reyna að hafa áhrif á vinnudeilur eða stéttarfélagsaðild með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíkt. Þá sé Bláfugli ekki heimilt að eiga viðskipti við starfsmannaleigur sem ekki sinna lögbundnum skyldum sínum.

Í yfirlýsingunni skorar ASÍ á Vinnumálastofnun að rísa undir hlutverki sínu og nota allar þær heimildir sem hún hefur til þess að tryggja að ekki séu stunduð félagsleg undirboð og lögbrot á íslenskum vinnumarkaði.

Vinnumálastofnun fái vald til að beita sektum
Í viðtali í útvarpsþættinum Í bítinu á Bylgjunni, fimmtudaginn 21. janúar, ræddi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, um stöðu mála á vinnumarkaði en hann sagði að vinnuveitendur sem greiði ekki laun samkvæmt kjarasamningi væru mikið mein á íslenskum vinnumarkaði, þótt vissulega væri um minnihluta fyrirtækja sem brytu af sér: „Refsingin er engin og því er fólk að leika þennan leik.“

Ásmundur Einar sagði að nú væri stefnt að því að taka harðar á slíkum málum í samræmi lífskjarasamningnn en þar er m.a. tekið fram að treysta skuli í sessi heilbrigðan vinnumarkað þar sem brot á launafólki líðist ekki með því að lögfestar verði aðgerðir gegn félagslegum undirboðum. Nú hefur frumvarp, unnið af félagsmálaráðuneyti með aðkomu SA og ASÍ, verið samþykkt af ríkisstjórninni og verður lagt fyrir Alþingi þegar kynningu innan ríkisstjórnarflokkanna líkur. Ráðherrann sagði að verði frumvarpið samþykkt fái Vinnumálastofnun vald til að setja á sektir og jafnvel gera fyrirtækjum að greiða sérstakar skaðabætur til launamanna sé um alvarleg brot að læra. Hann sagði jafnframt að engin pólitísk andstaða væri fyrir því að fylgja þessu eftir.