Ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar
Kjarasamningar flugmanna Landhelgisgæslunnar hafa verið lausir frá 31. desember 2019 og hafa samningaviðræður gengið hægt og illa. Allan þann tíma höfum við lagt allt okkar undir til að halda uppi háu þjónustustigi þrátt fyrir undirmönnun og engan samningsvilja af hálfu ríkisins.
Sem handhafar lögregluvalds hafa flugmenn ekki verkfallsrétt. Því hafa kjarasamningar þeirra verið tengdir kjarasamningum sambærilegra starfsstétta, lengst af með lögbundinni tengingu, eða til 2006.
Fjármálaráðuneytið ræðst nú af kappi gegn þessu fyrirkomulagi, með skýrri kröfu um nýjan, frumsaminn kjarasamning án tengingar við sambærilegar starfsstéttir. Slíkt mun ekki bara hafa áhrif á kjör flugmanna heldur er það til þess fallið að stórauka starfsmannaveltu meðal flugmanna Landhelgisgæslunnar.
Að viðhalda stöðlum um leit og björgun í öllu veðri er kostnaðarsamt og ver Landhelgisgæslan hundruðum milljóna króna í þjálfun á hverjum flugmanni. Aukin starfsmannavelta er því fljót að vega upp aftengingu kjara við sambærilegar stéttir og gott betur.
Fjármálaráðuneytið vegur einnig hressilega að flugöryggi með kröfu um að afnema starfsaldurslista flugmanna sem er ein af grunnstoðum í öryggismenningu í flugi um allan heim. Það fyrirkomulag hefur reynst farsælt, enda tryggja slíkir listar gagnsæi, faglegan framgang í starfi og að flugmenn geti tilkynnt um atvik án ótta við refsingu. Engin málefnaleg rök fást frá ráðuneytinu sem styðja afstöðu þess og raunar hefur samninganefnd flugmannanna skynjað skort á fagþekkingu og skilning á sérstöðu starfs-greinarinnar í samningaviðræðum.
Fjármálaráðuneytið ræðst á verkfallsréttalausa starfsstétt og því erum við í nánast vonlausri stöðu.
Við stöndum frammi fyrir kjarasetningu fremur en kjarasamningi.
Enn alvarlega er að flugöryggi Landhelgisgæslunnar er stefnt í hættu með grafalvarlegum afleiðingum fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á þeirri þjónustu að halda. Ríkissjóður má búast við hundruða milljóna aukakostnaði vegna stóraukinnar starfsmannaveltu flugmanna og tilheyrandi tapi á reynslu og þekkingu.
Við, flugmenn Landhelgisgæslu Íslands, lýsum hér með yfir miklum áhyggjum af framtíðarrekstri björgunarloftfara landsmanna allra, bæði til sjávar og sveita.
Við krefjumst sanngjarnrar og málefnalegrar kjarasamningagerðar.
Virðingarfyllst,
Flugmenn Landhelgisgæslu Íslands
FÍA fordæmir viðskipti ríkisstjórnarinnar við Bláfugl
Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) fordæmir að íslenska utanríkisráðuneytið hafi ráðið flugfélagið Bláfugl, Bluebird Nordic, til þess að annast flutning á varningi, þ.á.m. hergögnum, vegna stríðsins í Úkraínu.
FÍA hefur ítrekað bent á það hvernig Bláfugl, sem starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og lýtur þannig íslenskum lögum, hefur brotið gegn íslenskri vinnulöggjöf með félagslegum undirboðum og gerviverktöku, og sniðgengið kjarasamning sinn við FÍA.
Bláfugl hefur auk þess alfarið hundsað niðurstöðu Félagsdóms sem féll þann 16. september síðastliðinn og með því gert alvarlega atlögu að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi.
Það hlýtur að vera krafa okkar allra að íslensk fyrirtæki virði gildandi lög, kjarasamninga og niðurstöður dómstóla.
Það er því með öllu óásættanlegt að það fái að viðgangast að íslenska ríkið, í umboði skattgreiðenda, eigi viðskipti við félag á borð við Bláfugl.
FÍA hefur áður skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða og tryggja að Bláfugl fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla.
Mikilvægt að tryggja sterka vinnulöggjöf á íslenskum flugmarkaði
FÍA tekur undir kröfur ASÍ varðandi breytingar á stjórnarfrumvarpi til laga um loftferðir þess efnis að flugliðum verði veitt fullnægjandi vernd gegn félagslegum undirboðum. Mikilvægt er að allur vafi verði tekinn af varðandi það m.a. um að flugrekendur sem starfi á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis starfi samkvæmt íslenskum lögum og fylgi íslenskum kjarasamningum.
FÍA skilaði einnig inn umsögn um lagafrumvarpið þar sem lögð var áhersla á að tryggja flugöryggi en einnig að vernda íslensk störf í flugi og vinna gegn því að flugstarfsemi verði útvistað eða hún færð til ríkja þar sem launa- og um leið framfærslukostnaður er mun lægri og félagsleg réttindi ekki tryggð.
Við höfum séð að flugrekendum sem stunda félagsleg undirboð hefur gengið afar illa að festa sig í sessi í Danmörku og hefur ítrekað verið bolað burtu þaðan. Er það vegna sterkrar vinnulöggjafar í Danmörku. Þetta segir okkur að við getum spyrnt á móti á sama tíma og við virðum fjórfrelsi EES samningsins.
Efst í huga FÍA við yfirferð frumvarpsins var að tryggja þurfi betur ráðningarfyrirkomulag flugmanna enda hefur það bein tengsl við flugöryggi. FÍA telur nú enn mikilvægara en áður að lagst verði með skýrum hætti gegn því að ráðningar flugmanna fari fram með óhefðbundnum hætti, þ.e. í gegnum starfsmannaleigur og með gerviverktakasamningum sem leitt geta til félagslegra undirboða. Telur FÍA mikilvægt að mörkuð verði skýr stefna í þessum efnum og að tækifæri sé til þess með nýjum lögum um loftferðir.
Fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu að framlag flugs og flugtengdrar starfsemi til vergrar landsframleiðslu á Íslandi er 13.4% á meðan sama hlutfall á heimsvísu er um 3.6%. Það er því ljóst að Íslendingar eiga mikið undir því að halda uppi öflugum flugrekstri hér á landi.
Í frétt ASÍ kemur fram krafa um að breytingar verði gerðar á frumvarpinu til að koma í veg fyrir enn frekari félagsleg undirboð í flugrekstri hér á landi og að stjórnarfrumvarpið í óbreyttri mynd opnar fyrir möguleika flugrekstraraðila til að sniðganga íslenska kjarasamninga. ASÍ telur mikilvægt að koma í veg fyrir að flugrekstraraðilar geti hundsað reglur á íslenskum vinnumarkaði með því að skrá sig erlendis. FÍA tekur undir þetta heilshugar.
Sjá frétt á vef ASÍ: https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/asi-krefst-breytinga-a-frumvarpi-um-loftferdir/
Sjálfkjörið í Stjórn FÍA
Aðalfundur FÍA fór fram í gær á Grand Hótel. Sjálfkjörið var í Stjórn FÍA og mun Stjórn því vera óbreytt.
Stjórn FÍA 2022-2023
Formaður
Jón Þór Þorvaldsson Icelandair (2022)
Varaformaður
Guðmundur Már Þorvarðarson Icelandair (2021)
Meðstjórnendur
G. Birnir Ásgeirsson Air Atlanta (2021)
Gunnar Björn Bjarnason Flugfélag Íslands (2022)
Haraldur Helgi Óskarsson Air Atlanta (2021)
Hólmar Logi Sigmundsson Landhelgisgæslan (2021)
Högni B. Ómarsson Icelandair (2022)
Steindór Ingi Hall Icelandair (2022)
Sara Hlín Sigurðardóttir Icelandair (2022)
Fréttabréf FÍA
Nýtt fréttabréf er nú komið út. Meðal efnis má nefna:
- Framboð til stjórnar
- Evrópsk flug fá einkunnir
- Starfsánægja flugmanna á tímum Covid-19
- Fréttir frá EFÍA
- Breytt fyrirkomulag á flugskoðunum
- Hugleiðingar frá ritara FÍA
Fréttabréf desembermánaðar
Jólafréttabréf FÍA er nú komið út. Meðal efnis eru fréttir af vetrarþjónustu á Keflavíkurflugvelli, kjarasamningi við Erni og stöðu mála hjá flugmönnum Landhelgisgæslunnar sem hafa verið án samnings í tvö ár um þessar mundir. Gleðileg jól!
Starfsaldurslistar ein af burðarsúlum heilbrigðrar öryggismenningar
Sonja Bjarnadottir Backman, lögfræðingur FÍA, gerir grein fyrir alvarlegri stöðu samningamála milli Landhelgisgæslunnar og ríkisins.
FÍA hefur lýst yfir áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar sem hafa verið án samnings í tvö ár eða frá áramótum 2019-2020.
Að sögn Sonju, lögfræðings FÍA, stranda samningar ekki á kaupum og kjörum heldur á flugöryggi; að samninganefnd ríkisins vilji afnema starfsaldurslista – „sem er eitt rótgrónasta úrræði flugrekenda og flugmanna til að tryggja flugöryggi og er ein af burðarsúlum heilbrigðrar öryggismenningar,“ segir Sonja í samtali við Morgunblaðið.
Það má lesa fréttina í heild hér.

Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu starfsfólks Bláfugls
Stéttarfélagið Framsýn hefur bæst í hóp þeirra sem lýsa yfir stuðningi við FÍA. Nú höfum við fengið yfirlýsingar frá fjölda stéttarfélaga og samtaka og má þar nefna: Flugfreyjufélag Íslands, Félag íslenskra flugumferðastjóra, Eflingu, ASÍ, BHM og Framsýn. Við erum afar þakklát fyrir stuðninginn. Ef íslensk fyrirtæki komast upp með háttsemi sem þessa er spurning hvaða stétt verður næst.
„Framsýn stéttarfélag gagnrýnir harðlega framgöngu Bláfugls og Samtaka atvinnulífsins vegna ólögmætra uppsagna félagsmanna FÍA. Um er að ræða algjört virðingarleysi gangvart starfsmönnum fyrirtækisins og grófa atlögu að grundvallarréttindum launafólks á Íslandi.
Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu starfsfólks Bláfugls og krefst þess að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins standi við gildandi kjarasamning og niðurstöðu Félagsdóms sem dæmt hefur uppsagnir starfsfólks í kjaraviðræðum ólögmætar.
Samtökum atvinnulífsins ber að sjálfsögðu að fara eftir lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði í stað þess að verja gjörning sem þennan hjá fyrirtæki sem ekki virðir settar leikreglur.
Framsýn krefst þess að Samtök atvinnulífsins hætti þessu uppistandi þegar í stað og virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla með því að koma vitinu fyrir stjórnendur Bláfugls. Svona gera menn einfaldlega ekki í siðmenntuðu þjóðfélagi.“
Sjá yfirlýsingu hér: https://www.framsyn.is/2021/11/01/framsyn-fordaemir-vinnubrogd-sa-og-blafugls-med-yfirlysingu/
Áskorun til Bláfugls og SA frá Félagi íslenskra flugumferðastjóra
Félag íslenskra flugumferðastjóra (FÍF) hefur gefið út flotta áskorun til Bláfugls og SA.
"Þann 16. september sl. var kveðinn upp dómur Félagsdóms í máli Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn Samtökum atvinnulífsins (SA) f.h. Bláfugls ehf. þar sem uppsagnir 11 flugmanna Bláfugls ehf. voru dæmdar ólögmætar.
Fyrir liggur að flugmennirnir störfuðu allir samkvæmt gildandi kjarasamningi FÍA og Bláfugls ehf. Hópuppsögnin fór fram í miðri kjarabaráttu og leitaði Bláfugl ehf. til erlendrar starfsmannaleigu í því skyni að ráða samsvarandi fjölda flugmanna á talsvert verri kjörum, undir því yfirskini að um verktaka væri að ræða.
Kjarasamningur FÍA við Bláfugl ehf. er enn í gildi. Ráðning verktaka í störf flugmanna er til þess fallin að grafa undan meginreglum íslensks vinnuréttar sem gilda um ráðningar í störf að nýju á grundvelli starfsaldurs. FÍF skorar á Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að fara að gildandi kjarasamningi, virða niðurstöðu Félagsdóms og taka til skoðunar að ráða flugmenn sem vikið var úr störfum sínum með ólögmætum hætti að nýju."
FÍA þakkar fyrir veittan stuðning.
Sjá áskorun hér.
Flugfreyjufélag Íslands sýnir stuðning
FÍA þakkar kærlega fyrir stuðninginn frá Flugfreyjufélag Íslands!
Flugfreyjufélag Íslands skorar á Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að standa við gildandi kjarasamning og virða niðurstöðu Félagsdóms.
Flugfreyjufélag Íslands telur að með framgöngu Bláfugls og Samtaka atvinnulífsins vegna uppsagna félagsmanna FÍA, sem nú hafa verið dæmdar ólögmætar, séu aðilar að gera alvarlega atlögu að grundvallarréttindum launþega og samstarfi aðila vinnumarkaðarins.
FFÍ áréttar enn og aftur sameiginlega yfirlýsingu frá 17. september 2020 sem SA voru aðilar að, þar sem kemur fram að aðilar séu sammála um að fara eftir leikreglum og lögum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
FÍA 75 ára - Takið daginn frá!
Kæru félagar, fimmtudaginn þann 9. desember n.k. fagnar FÍA 75 ára stórafmæli í veislusal Gamla Bíó á Ingólfsstræti.
Rafræn boðskort verða send út síðar. Takið daginn frá!

Ætla SA og Bláfugl að sniðganga kjarasamninga og dóma?
Nýverið féll dómur í Félagsdómi þar sem uppsagnir Bláfugls á öllum flugmönnum sem voru félagsmenn í FÍA voru dæmdar ólöglegar. Þess ber að geta að rétt áður en til uppsagnanna kom hafði félagið ráðið til sín samsvarandi fjölda gerviverktaka í gegnum erlenda starfsmannaleigu á helmingi lægri launum.
FÍA skorar á Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að standa við gildandi kjarasamning og niðurstöðu Félagsdóms.
Í dóminum kom skýrt fram að þegar kjarasamningur rennur út gilda ákvæði hans þar til samið er að nýju en kjarasamningsviðræður voru einmitt í miðjum gangi þegar félagið greip til uppsagna. Samkvæmt ákvæði kjarasamnings eiga félagsmenn í FÍA forgang að 11 stöðugildum flugmanna félagsins. Þetta ákvæði var staðfest af Félagsdómi.
Þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms og gildandi kjarasamning virðast Samtök atvinnulífsins og Bláfugl líta svo á að þau þurfi ekki að fara eftir umræddum dómi og kjarasamningi.
Það hlýtur að vera krafa okkar í því réttarríki sem við búum í að íslensk fyrirtæki virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla. Það er með öllu óásættanlegt að svona viðhorf og framganga fái að viðgangast í okkar samfélagi. Hér er að eiga sér stað alvarleg atlaga að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi.
Samhliða þessu er skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða og tryggja að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla.
FÍA kallar eftir breiðri samstöðu stéttarfélaga landsins gegn alvarlegri aðför Samtaka atvinnulífsins að íslenskum vinnumarkaði.
