None
15. okt 2021

Ætla SA og Bláfugl að sniðganga kjarasamninga og dóma?

Nýverið féll dómur í Félagsdómi þar sem uppsagnir Bláfugls á öllum flugmönnum sem voru félagsmenn í FÍA voru dæmdar ólöglegar. Þess ber að geta að rétt áður en til uppsagnanna kom hafði félagið ráðið til sín samsvarandi fjölda gerviverktaka í gegnum erlenda starfsmannaleigu á helmingi lægri launum.

FÍA skorar á Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að standa við gildandi kjarasamning og niðurstöðu Félagsdóms.

Í dóminum kom skýrt fram að þegar kjarasamningur rennur út gilda ákvæði hans þar til samið er að nýju en kjarasamningsviðræður voru einmitt í miðjum gangi þegar félagið greip til uppsagna. Samkvæmt ákvæði kjarasamnings eiga félagsmenn í FÍA forgang að 11 stöðugildum flugmanna félagsins. Þetta ákvæði var staðfest af Félagsdómi.

Þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms og gildandi kjarasamning virðast Samtök atvinnulífsins og Bláfugl líta svo á að þau þurfi ekki að fara eftir umræddum dómi og kjarasamningi.

Það hlýtur að vera krafa okkar í því réttarríki sem við búum í að íslensk fyrirtæki virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla. Það er með öllu óásættanlegt að svona viðhorf og framganga fái að viðgangast í okkar samfélagi. Hér er að eiga sér stað alvarleg atlaga að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi.

Samhliða þessu er skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða og tryggja að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla.

FÍA kallar eftir breiðri samstöðu stéttarfélaga landsins gegn alvarlegri aðför Samtaka atvinnulífsins að íslenskum vinnumarkaði.

SABláfugl.png