None
28. apr 2022

Í tilefni af svörum samninganefndar ríkisins um ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar

Frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna – í tilefni af svörum samninganefndar ríkisins um ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar

Í tilefni af svörum samninganefndar ríkisins (SNR) um ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar vill Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Í málflutningi sínum lítur samninganefndin með öllu framhjá því að eðli starfa flugmanna Landhelgisgæslunnar er ekki hægt að líkja saman við önnur störf opinberra starfsmanna.

Sérstaða flugmanna LHG er að mati FÍA augljós og verður að taka tillit til þess við gerð kjarasamnings en þeir standa í framlínu í björgunaraðgerðum þar sem mannslíf eru oft í húfi, fljúga loftförum við afar krefjandi aðstæður, með veikt og slasað fólk og starfa þannig undir miklu álagi.

Mikilvægt er að bæði staða þeirra í starfi og flugöryggi sé vel tryggt.

SNR leggur mikla áherslu á að afnema beintengingu kjarasamnings flugmanna hjá LHG við kjarasamning FÍA við Icelandair. Því til grundvallar hefur nefndin vísað til úrskurðar gerðardóms í máli ríkisins og Flugvirkjafélags Íslands og fullyrðir að tenging við kjarasamninga á almennum markaði sé ólögmæt.

  • Þetta er ekki rétt þar sem skylda til beintengingar var afnumin með lagabreytingu á lögum um Landhelgisgæsluna árið 2006. Aftur á móti er enn heimild til að semja áfram á þann veg sem hafði verið samið, líkt og gert var til fjölda ára eftir breytinguna. Það er því ekki í andstöðu við lög að gera það áfram.
  • Starfsaldurslistar flugmanna geti haldið gildi sínu án þess að fara gegn lögum og reglum sem gilda á opinberum vinnumarkaði, enda er þeim ætlað að tryggja lágmarksréttindi og vernd fyrir opinbert starfsfólk. Krefjist starfsumhverfi frekari réttinda til að tryggja flugöryggi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu.
  • Beintengingin tryggir að afar eftirsóttir starfskraftar sem þjálfaðir eru við mikinn tilkostnað af ríkinu leiti ekki strax í önnur störf sem felur þannig í sér hagræði en ekki óhagræði.
  • FÍA furðar sig einnig á ummælum SNR um að FÍA hafi hafnað samtali um þau starfskjör sem er að finna í kjarasamningi FÍA við Icelandair enda á það ekki við rök að styðjast.

Samninganefnd ríkisins hefur einnig lagt höfuðáherslu á að afnema ákvæði kjarasamnings um starfsaldurslista. Sú niðurstaða SNR að flugöryggi sé nægilega tryggt með því að afnema starfsaldurslista endurspeglar skilningsleysi á starfsumhverfi flugmanna LHG og mikilvægi þess að heilbrigð öryggismenning sé í raun tryggð.

  • Starfsaldurslistar eru ein af burðarsúlum heilbrigðrar sanngirnismenningar (e. Just culture) sem innleidd hefur verið í loftferðalög í gegnum alþjóðlegar skuldbindingar. Lög og alþjóðlegar skuldbindingar um flugöryggi og sanngirnismenningu hljóta að gilda framar starfsmannalögum.
  • Hingað til hefur ekkert komið fram af hálfu SNR sem tryggir flugöryggi með sama hætti og starfsaldurslistar og hefur ríkissáttasemjari tekið undir það með FÍA. Tilvísanir SNR í lög sem eigi að tryggja flugöryggi, s.s. starfsmannalög og loftferðalög, duga ekki til og koma ekki í stað þess mikilvæga flugöryggistækis sem starfsaldurslistar eru.
  • Án starfsaldurslista hafa stjórnendur óheft frelsi til að ráðskast með flugmenn og handvelja hvaða flugmenn verða flugstjórar og hverjir ekki. Slíkt ástand hefur skaðleg áhrif á öryggismenningu. Starfsaldurslistar tryggja faglegan framgang í starfi. Athuga skal að starfsaldurslistar eru ekki jafngildir æviráðningu enda þurfa flugmenn að standast hæfnipróf á hálfs árs fresti til að haldast á listum, starfsævina á enda.
  • Tilvísun SNR í framangreindan gerðardóm í máli flugvirkja getur ekki átt við um störf og kjarasamning flugmanna í ljósi ólíks eðlis starfanna. Allt önnur sjónarmið eiga við um störf flugmanna heldur en flugvirkja varðandi mikilvægi starfsaldurslista, því í tilfelli flugmannanna snýst hann fremur um flugöryggi en starfsöryggi.
  • Þá hefur FÍA bent á leiðir og heimildir til þess að starfsaldurslisti haldi gildi sínu þrátt fyrir það sem fram kemur í gerðardómi vegna flugvirkja LHG.

Kostnaðarsamar hugmyndir samninganefndar

Sem fyrr segir telur samninganefnd FÍA að samninganefnd ríkisins hafi ekki kynnt sér starfsumhverfi og -aðstæður flugmanna nægilega vel. Sem dæmi um hversu illa nefndin virðist hafa sett sig inn í málin má benda á að samningatillögur hennar munu að öllum líkindum kosta almenning hundruðir milljóna króna meira í aukakostnað en núverandi fyrirkomulag:

  • Annars vegar vegna þess að ef hinn nýi samningur tryggir ekki sambærileg kjör og finnast á almennum vinnumarkaði er hætt við að hinir mjög svo eftirsóttu starfskraftar, þrautþjálfaðir björgunarflugmenn, myndu leita annað í leit að betri kjörum þegar þeir hafa verið þjálfaðir, með tilheyrandi tapi á þeirri tugmilljónafjárfestingu sem felst í þjálfun hvers flugmanns.
  • Hins vegar mundi aukin starfsmannavelta flugmanna leiða til “speki leka” þ.e. að dýrmæt reynsla og sérhæfð þekking flugmanna LHG mundi tapast sem mundi rýra flugöryggi og björgunargetu LHG.

Samninganefnd ríkisins lýsir því yfir að hún hafi eindreginn vilja til að ná sanngjörnum samningi sem sé í samræmi við lög og reglur sem um störf flugmanna Landhelgisgæslunnar gilda. Skýtur það skökku við þar sem samningaviðræður við SNR hafa verið mjög einhliða viðræður af hálfu ríkisins þar sem eingöngu virðist koma til greina að samþykkja það sem kemur þeim megin frá að borðinu en ekki litið til sjónarmiða flugmanna og núgildandi kjarasamnings.

FÍA hefur fundið fyrir miklum stuðningi varðandi sjónarhorn flugmanna Landhelgisgæslunnar við samningagerð frá bæði dómsmálaráðherra og yfirmönnum Landhelgisgæslunnar en ljóst er að fjármálaráðuneytið virðist ekki hafa sama skilning á málinu og hefur nefndin reynst treg til að kynna sér séraðstæður flugmanna.