Fréttir

18. mar 2021

Mikilvægt dómafordæmi í Bretlandi

Í febrúar 2021 komst Hæstiréttur Bretlands að þeirri mikilvægu niðurstöðu að Uber bílstjórar ættu að vera flokkaðir sem launamenn og gætu ekki talist sjálfstæðir verktakar heldur yrðu að teljast starfsmenn fyrirtækisins Uber. Ætti það að leiða til þess að þeir fengju greidd lágmarkslaun samkvæmt breskum kjarasamningum auk þess að njóta þeirra réttinda sem þeim fylgja, s.s. veikindarétt og orlofsrétt (Sjá nánar um dóminn í frétt BBC hér).

Dómstóllinn taldi upp nokkra þætti í dæmaskyni sem leiddu til þess að bílstjórarnir gætu ekki talist verktakar, t.d. að Uber ákveður fargjaldið sem farþegar greiða og aðra samningsskilmála einhliða. Með tilliti til alls taldi Hæstirétturinn að bílstjórarnir væru undir boðvaldi Uber og að eina leið þeirra til að auka tekjur sínar væri að vinna lengri vaktir.

Að mati ECA (European Cockpit Association – Samtök evrópskra flugmanna)  eiga sömu sjónarmið við varðandi flugmenn en báðir hóparnir hafa barist harðlega gegn gerviverktöku sem atvinnurekendur virðast reyna að nýta sér. Í grein frá ECA kemur fram að innlend vinnu- og flugmálayfirvöld eigi oft í erfiðleikum með að bera kennsl á „sjálfstætt starfandi starfsmenn“ eða gerviverktöku af þessu tagi. Hefur það afstöðuleysi eftirlitsyfirvalda einmitt leitt til þess að leiga á sjálfstætt starfandi flugmönnum hefur fengið að blómstra í friði þrátt fyrir að geta ekki talist annað en ólögmæt gerviverktaka.

Í greininni er kallað eftir því að yfirvöld taki almenna afstöðu til þess að flugmenn geti ekki talist sjálfstætt starfandi flugmenn í samræmi við það sem fram hefur komið í máli Uber bílstjóranna. FÍA tekur undir sjónarmið ECA og hvetur íslensk yfirvöld til að taka afstöðu í þessum efnum varðandi „sjálfstætt starfandi“ flugmenn á Íslandi.

Lesa meira
05. mar 2021

Sigur FÍA í héraði

Verkfallsaðgerðir löglegar


  • Héraðsdómur Reykjaness staðfesti í dag ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að verkfallsaðgerðir FÍA væru löglegar og að ekki yrði lagt lögbann á þær
  • Dómurinn telur jafnframt kominn fram vafa um lögmæti uppsagna á flugmönnum FÍA
  • Vísbendingar um að verktakaflugmenn séu í raun launþegar
  • Kjarasamningur FÍA við Bláfugl gildir enn að efni ti.

Í dag féll úrskurður í héraðsdómi í máli Bláfugls ehf. gegn Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), en Bláfugl hafði krafist þess að lögbann yrði lagt á verkfallsaðgerðir flugmanna félagsins sem starfa á kjarasamningi. Sýslumaður hafði áður synjað lögbannsbeiðni félagsins en Bláfugl ákvað að bera þá ákvörðun undir héraðsdóm.

Héraðsdómur staðfesti hins vegar ákvörðun Sýslumanns um lögmæti verkfallsaðgerðanna og tók fram að ekkert hafi komið annað fram en að til verkfalls hafi verið boðað með lögmætum hætti. Má af því leiða að FÍA hafði fullan rétt á því að standa vörð um boðað verkfall og gæta þess að ekki sé gengið í störf þeirra sem eru í verkfalli.

Vafi á lögmæti uppsagna


Niðurstaða héraðsdóms rennir styrkum stoðum undir rök FÍA í baráttu sinni gegn ólögmætum félagslegum undirboðum og gervirktöku Bláfugls en í síðustu viku höfðaði FÍA mál fyrir Félagsdómi varðandi ólögmætar uppsagnir flugmanna Bláfugls sem starfa á kjarasamningi.

Í úrskurðinum kemur skýrt fram að dómurinn telji kominn fram vafa um lögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnum félagsins sem starfa á kjarasamningi. Þannig segir í niðurstöðu dómsins að meðan á kjaraviðræðum deiluaðila stóð hafi Bláfugl ráðið til sín átta nýja flugstjóra og tvo flugmenn á verktakakjörum og rúmum mánuði síðar sagt upp átta fastráðunum flugstjórum og tveimur flugmönnum innan vébanda stéttarfélagsins. Í úrskurði segir m.a. að „Með hliðsjón af grein 01-3 fyrri kjarasamnings, sem gildir enn að efni til og kveður á um að ráðning eða leiga flugmanna til sóknaraðila skuli ekki hafa á neinn máta hafa áhrif á framgang fastráðinna flugmanna, sem eru félagsmenn varnaraðila, eða leiða til uppsagna þeirra telur dómurinn fram kominn vafa um lögmæti nefndra uppsagna.“ Að mati FÍA virðist ljóst að Bláfugl hafi ráðið inn gerviverktaka í þeim eina tilgangi að segja upp flugmönnum sem starfa á kjarasamningi og eru í stéttarfélagi.

Af dóminum má einnig leiða að vísbendingar séu um að flugmenn félagsins sem ráðnir eru inn sem verktakar séu í raun launþegar, og þar með gerviverktakar, en ekki var hægt að taka afstöðu til þess í dóminum þar sem Bláfugl lagði ekki fram gögn sem sýndu fram á að um verktaka væri að ræða.

Dómurinn taldi að Bláfugl hafi hvorki sannað né gert sennilegt að verkfallsaðgerðir FÍA hafi eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Einnig kvað úrskurðurinn á um að Bláfugl myndi greiða málskostnað, sem metið var á kr. 620.000.Lesa meira
26. feb 2021

SA og Bláfugli stefnt fyrir ólögmætar uppsagnir

Nú hefur Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) tekið næsta skref í baráttunni gegn félagslegum undirboðum og gerviverktöku með því að höfða mál fyrir Félagsdómi varðandi ólögmætar uppsagnir flugmanna Bláfugls sem starfa á kjarasamningi við FÍA. Málið er einnig til skoðunar hjá Vinnumálastofnun auk þess sem ábending hefur verið send til skattayfirvalda vegna gerviverktöku.

Niðurstaða Félagsdóms mun skapa mikilvægt fordæmi fyrir því hvort heimilt sé að segja upp launafólki sem starfar eftir kjarasamningi og ráða inn gerviverktaka í staðinn á meira en helmingi lægri launum. Einnig hvort heimilt sé að ráða inn gerviverktaka til að ganga inn í störf þeirra sem eru í löglega boðuðu verkfalli.

Undir lok síðasta árs var öllum flugmönnum Bláfugls sem eru í stéttarfélagi sagt upp störfum, í miðjum kjaraviðræðum, og í framhaldi af því tilkynnti flugfélagið um að framvegis muni það einungis ráða „sjálfstætt starfandi flugmenn“, með öðrum orðum gerviverktaka. Flugmaður sem starfar fyrir flugrekanda getur í eðli sínu ekki starfað sem verktaki þar sem hann uppfyllir ekki skilyrði um verktöku.

Mál Bláfugls, með fulltingi Samtaka atvinnulífsins, hefur vakið mikinn ugg víða og hafa bæði danskir og norskir fjölmiðlar fjallað um málið.

FÍA segir stöðuna grafalvarlega enda gróflega vegið að lögum og reglum íslensks vinnumarkaðar af hálfu Bláfugls og SA, sem fer með samningsumboðið fyrir hönd Bláfugls.

Sé þetta látið óátalið af yfirvöldum má af því leiða að heimilt sé að segja upp launafólki landsins sem starfa á grundvelli kjarasamninga og ráða inn gerviverktaka í þeirra stað til að lækka laun verulega og svipta launafólk áunnum réttindum á borð við veikindarétt og orlof.

Lesa meira
05. feb 2021

Sýslumaður hafnar beiðni Bláfugls um lögbann á verkfallsaðgerðir flugmanna félagsins

Eftir að hafa verið með flugmenn starfandi á kjarasamningi við FÍA frá stofun félagsins árið 1999, þar sem aldrei hefur komið til verkfallsátaka, ákvað Bláfugl nú um áramótin að segja upp öllum kjarasamningsbundum flugmönnum og ráða „sjálfstætt starfandi“ gerviverktaka í þeirra stað. Sagði félagið markmiðið vera að lækka kostnað en Bláfugl hefur farið fram á slíka kjaraskerðingu að hún teldist verulega gróft félagslegt undirboð íslenskra kjarasamninga. Þess má geta að Bláfugl sinnir eingöngu fraktflugi en mikil eftirspurn hefur verið eftir slíku flugi frá upphafi COVID faraldursins og fraktfélög um allan heim hafa aldrei haft meira að gera. FÍA ásamt stéttarfélögum flugmanna í Evrópu hefur í áraraðir barist gegn verktöku meðal flugmanna sem við teljum ekki falla að skilyrðum laga.

Í kjölfar uppsagna og árangurslausra viðræðna hjá Ríkissáttasemjara boðaði FÍA verkall samkvæmt lögbundnum leiðum sem hófst á miðnætti þann 1. febrúar. Stóðu félagsmenn FÍA verkfallsvörslu er „sjálfstætt starfandi“ gervi-verktakar á vegum Bláfugls mættu til að fljúga þau flug sem flugmönnum á kjarasamningi við FÍA voru ætluð. Hindruðu verkfallsverðir aðgengi verktaka Bláfugls að flugstöð Keflavíkurflugvallar og komu þannig í veg fyrir að gengið væri í störf flugmanna í verkfalli.

Í kjölfarið lagði Bláfugl þann 2. febrúar fram lögbannsbeiðni til Sýslumanns sem beindist gegn verkfallsaðgerðunum. Krafðist félagið staðfestingar á því að verkfallsvarslan væri ólögmæt og fullyrtu að FÍA flugmenn hefðu ekki vinnuskyldu þar sem þeim hefði verið sagt upp og þeir teknir af vinnuskrám. Því væri þeim heimilt að kalla til verka „sjálfstætt starfandi“ gerviverktaka.

Þessu hafnaði fulltrúi Sýslumanns er lögbannsbeiðnin var tekin fyrir þann 5. febrúar. Taldi Sýslumaður verkfallsaðgerðir FÍA ekki brjóta gegn lögvörðum hagsmunum Bláfugls og er því ljóst að Bláfugl brýtur nú gegn löglega boðuðu verkfalli með því að fá „sjálfstætt starfandi“ verktaka til að ganga í störf flugmanna á kjarasamningi við FÍA. Því er ljóst að fyrirtækjum á íslenskum vinnumarkaði er ekki fær sú leið að segja upp fólki ólöglega og losa það undan vinnuskyldu en ráða um leið gerviverktaka til að ganga í þeirra störf.

Auk þess að brjóta gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 með því að ráða inn verktaka til að sinna störfum flugmanna í verkfalli telur FÍA Bláfugl einnig hafa marg brotið lög um útsenda starfsmenn nr. 45/2007. Þar er í fyrsta lagi skýrt kveðið á um að skrá þurfi til Vinnumálastofnunar þær starfsmannaleigur sem senda starfsmenn til Íslands, sbr. 8. gr. laganna. Einnig kemur skýrt fram í 1. gr.a. það markmið laganna að tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna sem sendir eru tímabundið til landsins skuli vera í samræmi við öll ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði hér í landi. FÍA hefur óvéfengjanlegar heimildir fyrir því að starfskjör verktaka Bláfugls séu langt undir þeim kjörum sem samið er um í kjarasamningum hér á landi.

Þar að auki hefur Bláfugl nú gripið til þess ráðs að láta þessa flugmenn taka sína lögboðnu hvíld innan haftasvæðis flugvallarins við aðstæður sem brjóta gegn skýrum ákvæðum laga um hvíldaraðstæður flugáhafna. Tilgangur þessara aðgerða félagsins er að hindra það að verkfallsverðir geti hamlað verkfallsbrjótum, þ.e. verktakaflugmönnum, að ganga í störf stéttarfélagsflugmanna í verkfalli. FÍA hefur heimildir fyrir því að bæði Samgöngustofa og Vinnumálastofnun hafi starfsemi Bláfugls nú til skoðunar.

Lesa meira
04. feb 2021

Bluebird Nordic strike

Iceland‘s battle against social dumping

On February 1st 2021, union pilots of the cargo airline Bluebird Nordic (BBN) began their legally proposed strike action. A month earlier, on December 30th, the airline laid-off all pilots working under a Collective Labour Agreement, 11 in total, announcing that from now on Bluebird would only use self-employed pilots. 

Bluebird Nordic, owned by Cypress based Avia Solutions Group, has for some time contracted bogus self-employed pilots through a broker agency that is not registered in Iceland and therefore illegal. To be clear, pilots working for airlines do not meet any of the legal requirements for contracting and therefore can't be considered contractors. Hence, such precarious form of employment is atypical, and cannot be considered anything else than bogus self-employment.

Before the letters of dismissals were sent, Bluebird Nordic had actively participated in negotiations with the Icelandic Airline Pilots‘ Association (FÍA) so the lay-offs came as a great surprise to the pilots: Laying off all union members during negotiations on terms and conditions is in clear violation of Article 4 of the Icelandic legislation on Trade Unions and Industrial Disputes (No. 80/1938) as well as the basic constitutional right of freedom of association. 

The Collective Labour Agreement (CLA) between FÍA and Bluebird Nordic is still valid, and the pilots that were laid-off are still working in accordance to it. BBN has stated that the CLA is no longer valid, which FIA rejects referring to ongoing negotiations and scheduled meetings with the State Mediator. The current CLA states very specifically that hiring of pilots outside of the Icelandic Airline Pilots‘ Association may not lead to lay-offs of FÍA members within Bluebird. 

Global Compact „participant“ supports the resignations

To make matters even worse for the Icelandic labour market, Bluebird‘s actions were supported by the Confederation of Icelandic Enterprise– itself a vocal participant of UN‘s Global Compact: A compact that stresses the importance of freedom of association and the effective recognition of the right to collective bargaining. 

The Confederation‘s support of Bluebird runs counter to their official positions of supporting a healthy labour market, and sets a very negative precedent.

Strike began with violations

Bluebird Nordic‘s reactions to the strike were swift: They removed all FÍA pilots off their flights from the time that the strike was to begin, replacing them with contractors which is a clear strike violation. 

FÍA is thankful for the great show of support during this ongoing dispute and fight against social dumping – not only from fellow unions within aviation in Iceland and the The Icelandic Confederation of Labour (ASI), but also from abroad, such as the Nordic Transport Worker‘s Federation, the International Transport Worker‘s Federation, IFALPA, and the Danish Flight Personnel Union.

Lesa meira
01. feb 2021

Verkfall flugmanna Bláfugls er hafið

Þann 1. febrúar kl. 00:01 hófst verkfall flugmanna FÍA hjá Bluebird Nordic (BBN).

Ákvörðun um verkfallið var tekin með lögmætum hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Verkfallsaðgerðirnar fela í sér ótímabundið verkfall en nánar tiltekið er átt við að vinna samkvæmt ákvæðum kjarasamnings falli niður að öllu leyti á meðan verkfall stendur yfir.

Sem viðbrögð við verkfallinu hefur Bluebird Nordic nú tekið umrædda FÍA flugmenn af flugvöktum frá þeim tíma sem verkfallið hófst og mannað þær með gerviverktökum sem ganga í störf verkfallsmanna og er því um skýrt verkfallsbrot að ræða.

Ólöglegar uppsagnir

Þegar FÍA flugmönnum var sagt upp, þann 30. desember síðastliðinn, voru hefðbundnar samningsviðræður í gangi. Samningsaðilar höfðu fundað 5 sinnum og unnið var eftir viðræðuáætlun sem lögð var fram af SA og BBN. Deilan er nú hjá embætti ríkissáttasemjara.

FÍA telur að um ólögmætar uppsagnir sé að ræða og með þeim hafi verið brotið gegn 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur auk þess sem vegið er að stjórnskrárvörðum rétti til að vera í stéttarfélagi.

Flugfélagið hefur jafnframt lýst því yfir að hér eftir muni það einungis notast við „sjálfstætt starfandi flugmenn” eða gerviverktaka sem er ætlað að ganga í störf flugmanna á kjarasamningi. Gerviverktakarnir eru ráðnir í gegnum áhafnaleigu sem ekki er skráð á Íslandi eins og lög gera ráð fyrir og starfa á kjörum sem eru langt undir lágmarkskjörum kjarasamninga.

Kjarasamningur FÍA og BBN er enn í gildi og starfa flugmenn félagsins samkvæmt honum. BBN hefur haldið fram að umræddur samningur sé útrunninn en FÍA hafnar því og vísar til yfirstandandi kjarasamningsviðræðna. Í núgildandi kjarasamningi kemur skírt fram að ráðning eða leiga flugmanna til Bláfugls, sem ekki eru félagar í FÍA, skuli ekki á neinn máta tefja fyrir stöðuhækkunum og öðrum framgangi fastráðinna flugmanna Bláfugls, sem eru löglegir félagar í FÍA, né heldur leiða til uppsagna félagsmanna FÍA innan Bláfugls.

Alþjóðlegur stuðningur

FÍA er þakklátt þeim mikla stuðning sem félaginu hefur borist í deilunni en félagið hefur fengið stuðningsyfirlýsingar vegna málsins frá bæði innlendum og alþjóðlegum aðilum, t.d.: ASÍ, Flugfreyjufélagi Íslands, Félagi íslenskra flugumferðastjóra, Flugvirkjafélagi Íslands, Nordic Transport Worker‘s Federation, International Transport Worker‘s Federation, International Federation of Air Line Pilots‘ Association og Flight Personnel Union.

Lesa meira