Fréttir

18. mar 2014

Enn um ósannindi ríkislögreglustjóra

Það er með ólíkindum að opinbert stjórnvald, í þessu tilfelli embætti ríkislögreglustjóra skuli birta á heimasíðu sinni ósannindi og reyna með þeim hætti að verja gjörðir sínar um að koma í gegnum Alþingi lagabreytingu á fölskum forsendum. Í greinargerð með frumvarpinu þskj. 295, 221. mál sem m.a. er um breytingu á lögum um loftferðir nr. 60/1998. Um 11. gr. segir m.a. „Það er mat ríkislögreglustjóra að ekki sé unnt að framkvæma viðunandi bakgrunnsathuganir á þeim einstaklingum sem hér um ræðir, vegna starfa í þágu flugverndar, nema unnt sé að ganga úr skugga um framangreindar upplýsingar.“ Þar segir einnig í III. kafla greinargerðar frumvarpsins: „Að mati ríkislögreglustjóra kallar álit Persónuverndar á breytingar á gildandi lagaumhverfi svo að unnt sé að byggja undir heimildir lögreglu til að framkvæma fullnægjandi athuganir á grundvelli alþjóðlegra krafna um flugvernd. Krafan um bakgrunnsathuganir á fyrrgreindum einstaklingum byggist á alþjóðlegum kröfum í flugvernd, m.a. kröfum sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.“

Eftirfarandi frétt er tekin af vef ríkislögreglustjóra þann 15. mars. s.l. kl: 13:43, vefslóð: http://www.logreglan.is/displayer.asp?cat_id=81&module_id=220&element_id=21486

Fréttin er hér birt í heild sinni án allra breytinga nema að athugasemdir FÍA koma inn á milli málsgreina þar sem við á, með rauðum texta:  

Fréttir

12.3.2014

Athugasemdir vegna umfjöllunar um bakgrunnsathuganir

Vegna umfjöllunar framkvæmdastjóra FÍA í fjölmiðlum varðandi bakgrunnsathuganir vill ríkislögreglustjóri gera eftirfarandi athugasemdir.

Lögreglan hefur gert hátt í 7 þúsund bakgrunnsathuganir sl. ár vegna flugverndar og hafa fáir fengið neikvæða umsögn eða innan við 1%. Þar af aðeins tveir flugmenn.

Því hefur verið haldið fram að ríkislögreglustjóri hafi ekki brugðist við áliti Persónuverndar. Það er rangt. Staðreyndin er sú að framkvæmd bakgrunnsathugana var breytt að fengnu áliti hennar og  fullt tillit tekið til ábendinga hennar. Um var að ræða nýja löggjöf sem reyndi á og eðlilegt að leitað væri álits Persónuverndar um lagatúlkanir. Þegar fyrir lá að löggjöfin var ekki nógu skýr um heimildir lögreglu lagði ríkislögreglustjóri áherslu á að framkvæmd yrði breytt og fest í lög hverjar heimildir lögreglu væru, hverja og hvað væri heimilt að bakgrunnsathuga og hvað geti valdið neikvæðri umsögn. Það frumvarp er nú til meðferðar Alþingis.

Hér segir að eðlilegt hafi verið að leita til persónuverndar vegna lagatúlkana vegna þess að lögin hafi ekki verið skýr. Það var ekki ríkislögreglustjóri sem það gerði. Þeim er málinu skutu til persónuverndar þótti lögin ágætlega skýr. Ríkislögreglustjóri tók sér hins vegar vald og gekk of langt í öflun persónuupplýsinga og braut þar með lög. Það staðfestir úrskurður persónuverndar í máli nr. 2012/969. Það getur ekki talist eðlilegt að stjórnvöld túlki slíkar heimildir víðari en tilefni er til sbr. umrætt mál, eingöngu til að láta reyna á hvort stjórnvöld séu að brjóta á borgurunum. Slíkt gengur gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og gekk í þessu tilfelli gegn stjórnarskrárvörðum réttindum borgarana um friðhelgi einkalífs og atvinnufrelsis. 

Umfjöllun FÍA um að ríkislögreglustjóri kalli eftir auknum heimildum til bakgrunnsathugana og strangari reglum en annars staðar þekkjast og vísi um það til evrópskra reglna er rangt.

Ósatt. Ríkislögreglustjóri segir að heimildir til að kalla eftir auknum persónuupplýsingum sé vegna evrópskra reglna sem okkur beri að innleiða. Engar slíkar kröfur koma fram í Evrópureglum um flugvernd enda hefur ríkislögreglustjóri ekki getað bent á þær. Jafnframt hafa verið lögð gögn fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis t.d. frá Bretlandi þar sem hryðjuverkaógn er metin mun meiri en hérlendis. Þar er engar slíkar heimildir að finna í lögum. Sjá:  http://www.althingi.is/pdf/erindi/?lthing=143&dbnr=1248

Ríkislögreglustjóri hefur lagt áherslu á að löggjöfin sé þannig úr garði gerð að lítið geti reynt á matskennd álitamál og bent á að skýra verði hvaða viðurlögum það varði að veita lögreglu rangar upplýsingar.

Það skal áréttað að það er ekki ríkislögreglustjóri sem hefur tekið upp á því að bakgrunnsathuga flugáhafnir heldur löggjafinn. Það er eingöngu verkefni lögreglu að annast framkvæmdina eins og lög og reglugerð kveður á um. Embættið fer að lögum í þessu efni.

Ósatt aftur. Það liggja fyrir sannanir þess að ríkislögreglustjóri fór ekki að lögum. Það er staðfest í úrskurði persónuverndar nr. 2012/969 og í úrskurði innanríkisráðuneytisins nr.  IRR. 13100206 þar sem ríkislögreglustjóri sannarlega braut lög á flugmanni.  

Þá er rétt að geta þess að ályktun FÍA frá því í febrúar sl. um „aðför ríkislögreglustjóra að starfsöryggi flugmanna og afkomu félagsmanna með óvönduðum og ólögmætum vinnubrögðum við bakgrunnsathuganir á félagsmönnunum" á ekki við nokkur rök að styðjast enda fer ríkislögreglustjóri að þeim lögum sem Alþingi hefur sett og því ekki eðlilegt af hálfu FÍA að beina spjótum sínum að embætti ríkislögreglustjóra varðandi lagasetningu Alþingis og reglugerð sem sett er með stoð í loftferðarlögum.

Ósatt, eina ferðina enn. „.... á ekki við nokkur rök að styðjast enda fer ríkislögreglustjóri að þeim lögum sem Alþingi hefur sett ....“ Hér þarf ekki annað en að líta til næstu rauðlituðu málsgreinar hér fyrir ofan. FÍA eðlilega beinir spjótum sínum að embætti ríkislögreglustjóra vegna þeirra staðreyndafölsunar sem komin er frá ríkislögreglustjóra, ef marka má greinargerð frumvarpsins og er endurtekin enn og aftur í umræddri frétt.

Bakgrunnsathugun er ekki eiginlegt löggæsluverkefni heldur í raun og veru flugöryggismál sem er á forræði flugmálayfirvalda og hlutverk ríkislögreglustjóra því einungis fólgið í aðstoð við flugmálayfirvöld og hefur lögreglan ekki sérstaklega sóst eftir þessu verkefni.

„.... og hefur lögreglan ekki sérstaklega sóst eftir þessu verkefni.“ Hvað kemur það málinu við hvort ríkislögreglustjóri hafi sóst eftir einhverju verkefni eða ekki? Ríkislögreglustjóri er í engri stöðu til að velja sér eða hafna verkefnum. Hann einfaldlega framfylgir þeim lögum og verkefnum sem löggjafinn setur honum með lögum.

Það dæmi sem FÍA hefur nefnt um ætlaðar ástæður fyrir því að félagsmanni þess hafi verið veitt neikvæð umsögn er ekki alls kostar rétt en eins og áður hefur komið fram hafa einungis tveir flugmenn fengið neikvæða umsögn lögreglu.

Hvernig getur það ekki verið rétt ef tveir félagsmanna hafa fengið neikvæða umsögn? Önnur þeirra var úrskurðuð ólögmæt af innanríkisráðuneytinu og hin sætir nú stjórnsýslukæru til sama ráðuneytis.

Ríkislögreglustóri áréttar að bakgrunnsathuganir eru til þess ætlaðar að efla öryggi í flugi og á flugvöllum og eru samkvæmt alþjóðakröfum um flugvernd en mismunandi reglur gilda í einstökum löndum um framkvæmd bakgrunnsathugana.

Þegar um rík öryggismál er að ræða og varða almenning kann að vegast á persónulegir hagsmunir einstaklinga og hagsmunir fjöldans. Það er að sjálfsögðu Alþingis að ákveða löggjöf í þessu efni.

FÍA ítrekar afstöðu sína til bakgrunnskoðana sem eins af hornsteinum flugöryggis. Hins vegar verður ekki setið undir rangfærslum og ósannindum sem þessum, sérstaklega þegar slíkur málatilbúnaður virðist vera notaður til að slá ryki í augum þingheims, til þessa að knýja fram valdheimildir sem ganga gegn mannréttindum og stjórnarskrá.

Lesa meira