None
05. okt 2014

Flugmenn Icelandair sakaðir um verkfallsaðgerðir í ágúst

Af gefnu tilefni vill stjórn FÍA koma því á framfæri að þeir farþegar Icelandair sem urðu fyrir óþægindum vegna niðurfellingar flugs FI540 þann 2. ágúst s.l. og fengu þær skýringar frá deildarstjóra þjónustueftirlits Icelandair, að ástæða niðurfellingarinnar væri verkfallsaðgerðir flugmanna, hafa þar fengið alrangar upplýsingar.

Flugmenn voru í verkfalli í maí og hafa ekki verið í verkfallsaðgerðum síðan kjarasamningur var undirritaður þann 21. maí s.l. Ofangreind ástæða sem starfmaður þjónustueftirlits Icelandair gefur farþegum félagsins er því með öllu óskiljanleg og aðför að heilum hópi samstarfsmanna hans.

Það er leitt að menn skuli leiðast út á þessa braut og stjórn stéttarfélagsins telur óhjákvæmilegt að opinbera framkomu þjónustueftirlits Icelandair, í ljósi þess að óvíst er hve margir aðrir en þeir sem leituðu til FÍA hafi fengið þessa skýringu á niðurfellingunni.

Varðandi raunverulega ástæðu þess að flug FI540 var fellt niður, þá er það ekki hlutverk stéttarfélagsins að útskýra það að öðru leiti og vísum við á Icelandair í þeirri von að flugmönnum verði ekki blandað í það mál eftirleiðis.

Stjórn FÍA