1. grein: Nafn og heimili
1.1 Sjóðurinn heitir Starfsmenntasjóður Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna skammstafað SFÍA.
1.2 Sjóðurinn er stofnaður á grundvelli kjarasamninga FÍA.
1.3 Heimili og varnarþing skal vera í því sveitarfélagi sem starfsstöð félagsins er hverju sinni. Sjóðurinn starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í reglum þessum.
2. grein: Markmið sjóðsins og verkefni
2.1 Markmið hans er að styrkja og hvetja flugmenn til að afla sér sí-, endur- og starfsmenntunar í þeim tilgangi að styrkja hæfni sína í starfi.
2.2 Að standa straum af kostnaði við námskeiðahald og námsgagnagerð sem stjórn sjóðsins ákveður á hverjum tíma að bjóða sjóðsfélögum.
2.3 Að greiða laun stjórnar sjóðsins.
3. grein: Réttur til aðildar að sjóðnum
3.1 Rétt til aðildar að sjóðnum eiga allir þeir flugmenn sem starfa hjá vinnuveitendum sem gert hafa kjarasamning við Félag Íslenskra Atvinnuflugmanna um framlag í starfsmenntasjóð FÍA.
4. grein: Stjórn sjóðsins
4.1 Stjórn FÍA skal skipa 3 menn í sjóðsstjórn til tveggja ára í senn, sem skulu vera félagar í FÍA.
4.2 Stjórnin skiptir með sér verkum og heldur gerðabók og ritar í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnar sjóðsins að greiða henni atkvæði.
4.3 Stjórn sjóðsins setur nánari starfsreglur um greiðslu styrkja, fjárhæð styrkja, ávinnslu réttinda og aðra starfstilhögun. Hún fer yfir umsóknir og afgreiðslur og sker úr um vafaatriði, t.d. um sjóðsaðild eða styrkhæfi umsókna og tekur afstöðu í öðrum málum sem upp kunna að koma.
4.4 Stjórn sjóðsins sér um úthlutun fjármuna sjóðsins.
4.5 Stjórn FÍA ákveður laun fyrir setu í stjórn SFÍA og koma þau úr starfsmenntasjóði.
4.6 Sjóðurinn greiðir 4% af brúttótekjum í félagssjóð FÍA fyrir húsaleigu og rekstrarkostnað skrifstofu.
5. grein: Tekjur sjóðsins
5.1 Tekjur sjóðsins eru starfsmenntasjóðsgjöld sem greidd eru skv. kjarasamningum Félags íslenskra atvinnuflugmanna við vinnuveitendur, svo og vextir.
6. grein: Skyldur vinnuveitenda
6.1. Vinnuveitendur greiða iðgjald til sjóðsins, sbr. ákvæði kjarasamninga um framlag í starfsmenntunarsjóð.
7. grein: Réttur sjóðsfélaga
7.1. Sérhver sjóðsfélagi sem hefur verið a.m.k. eitt ár samfellt í sjóðnum er styrkhæfur samkvæmt nánari ákvæðum þessara starfsreglna enda sæki hann um styrkhæft verkefni. Tímabil sjóðsfélaga í fæðingarorlofi reiknast eins og greiðslutímabil.
7.2. Sjóðsfélagi sem er í launalausu leyfi getur verið styrkhæfur samkvæmt nánari ákvæðum þessara starfsreglna ef minna en 4 mánuði vantar upp á að sjóðsaðili nái einu samfelldu ári vegna launalauss leyfis.
7.3. Þeir sjóðsfélagar sem eru í hlutastarfi fá greitt hlutfallslega af hámarksstyrk. T.d. sé sjóðsfélagi í 50% starfshlutfalli mun hámarksstyrkur vera 25.000 í stað 50.000.
7.4. Sjóðsfélagar sem orðið hafa atvinnulausir geta sótt um og fengið styrk úr sjóðnum samkvæmt eftirfarandi reglum:
a) Umsækjandi hefur átt aðild að sjóðnum einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum og verið sjóðsfélagi í a.m.k. 6 mánuði, þ.e. í vinnu hjá launagreiðanda með sjóðsaðild.
b) Sótt er um styrk til endurmenntunar eða símenntunar samkvæmt því sem metið er styrkhæft fyrir aðra sjóðsaðila eða styrk til námsskeiðs sem tengist atvinnuleysi sjóðsfélaga.
c) Um form og afgreiðslu umsókna atvinnulausra gilda að öðru jöfnu sömu starfsreglur og fyrir aðra sjóðsfélaga, sem greitt er fyrir í sjóðinn.
7.5. Sjóðsfélagar sem misst hafa starf sitt vegna heilsubrests eða hafa lokið starfi sínu sökum aldurs skulu halda fullum réttindum sínum í sjóðnum í 36 mánuði.
7.6. Réttur sjóðsfélaga miðast þó ávallt við fjárhag sjóðsins hverju sinni. Ef staða sjóðsins leyfir ekki að orðið sé við öllum styrkhæfum umsóknum ber stjórn sjóðsins að veita þeim umsóknum forgang sem hafa mest faglegt gildi fyrir starfshæfni starfsmanns.
8. grein: Aðrir styrkir
8.1. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og skóla s.s. vegna útgáfu námsefnis, kennslu, eða annars sem að mati stjórnar sjóðsins leiðir til aukinnar menntunar innan stéttarinnar.
8.2. Stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni upphæð styrks sem veita á til þeirra aðila sem fram koma í grein 8.1.
9. grein: Hámarksstyrkfjárhæð
9.1. Stjórn sjóðsins skal ákveða hámarksstyrkfjárhæð hverju sinni og skal sú upphæð endurskoðuð árlega samkvæmt gr. 9.3. Hámarksstyrkfjárhæð hvers árs skal birt félagsmönnum á vefsíðu SFÍA.
9.2. Hámarks styrkveiting miðast við 36 mánaða tímbil. Miðast skal við eldri úthlutunarmánuð/i. Sé sjóðsfélagi sendur á vegum FÍA skerðist ekki hámarks styrkveiting..
9.3. Hámarksupphæð styrkjar skal endurskoðuð árlega og ákveðin á síðasta fundi hvers árs.
9.4. Ekki eru greiddir hærri styrkir en sem nemur 85% af framlögðum reikningum eða sem nemur hámarksupphæð styrkjar hverju sinni.
10. grein: Ferill umsókna hjá sjóðnum
10.1. Skilafrestur: Umsóknum skal skila inn til sjóðsins fyrir 1. þess mánaðar þegar stjórn sjóðsins kemur saman (febrúar og október). Annars eiga sjóðsfélagar ekki rétt á að umsókn þeirra verði afgreidd á þeim fundi. Stefnt skal að því að hafa upplýsingar og umsóknareyðublað sjóðsins aðgengilegt sem víðast fyrir sjóðsfélaga, s.s. á skrifstofu FÍA og á vef félagsins. Upplýsingar um starfssemi sjóðsins birtast í Fréttabréfi FÍA og öðrum miðlum eftir því sem þurfa þykir.
10.2. Sjóðsfélagar skulu vanda frágang umsókna og tilgreina nákvæmlega til hvers þeir ætla að verja styrkfénu auk annarra atriða sem spurt er um á eyðublaðinu. Ef þessu er ekki fylgt eftir geta sjóðsfélagar átt það á hættu að ekki verði fjallað um umsókn þeirra fyrr en bætt hefur verið úr. Þegar afgreiðsla stjórnar sjóðsins liggur fyrir er sjóðsfélögum kynnt niðurstaðan. Hægt er að sækja um styrk allt að 9 mánuðum aftur í tímann miðað við umsóknarfrest um styrkveitingu. Afgreiðsla umsóknar hjá sjóðnum verður því að vera innan 9 mánaða frá útlögðum kostnaði.
10.3. Félagi sem fengið hefur vilyrði fyrir styrk er ekki skuldbundinn sjóðnum til þess að ljúka verkefni sem styrkt var. Ef umsókn er dregin til baka áður en styrkur er greiddur út fellur styrkloforð niður og mun umsóknin ekki hafa áhrif á réttindi umsækjanda hjá sjóðnum.
11. grein: Afgreiðsla á styrkveitingu úr sjóðnum
11.1 Sjóðsfélagi ber ábyrgð á því að skila inn tilskildum gögnum til sjóðsins. Réttur til greiðslu samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins fyrnist ef umsækjandi hefur ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum (reikningum og umsókn) innan 9 mánaða frá dagssetningu umsóknarfrests um styrkveitingu.
11.2. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram gegn framvísun reikninga í frumriti. Á reikningnum þarf að koma fram fyrir hvað er greitt. Ef ekki er unnt að framvísa frumriti vegna greiðslu getur sjóðurinn greitt gegn staðfestu afriti reiknings. Sé reikningur glataður að fullu verður stjórn sjóðsins að taka ákvörðun um afgreiðslu styrksins.
11.3. Styrkir úr sjóðnum eru að jafnaði greiddir út 25. þess mánaðar sem umsóknir eru teknar fyrir, eða næsta virka dag á eftir. Ekki er send tilkynning um greiðslu styrks.
11.4. Greiðsla styrks er alltaf endurgreiðsla útlagðs kostnaðar. Styrkur mun ekki vera greiddur út fyrirfram.
11.5. Sjóðurinn áskilur sér rétt til sveigjanleika í greiðslu styrksins. Sumarleyfi, almennir frídagar og óvænt atvik geta komið í veg fyrir að unnt sé að greiða út styrkinn 25.þess mánaðar sem umsóknir eru teknar fyrir (gr.11.3). Leitast verður við að greiða styrki úr sjóðnum eins fljótt og aðstæður leyfa hverju sinni.
11.6. Ef mistök verða í afgreiðslu styrkumsóknar eða greiðslu styrks munu starfsmenn sjóðsins leitast við að leiðrétta mistök eins fljótt og hægt er. Ef sjóðsfélagi hefur fengið tvígreiddan styrk eða ofgreidda styrkupphæð ber honum að tilkynna sjóðnum mistökin og endurgreiða þegar í stað þá upphæð sem um munar til sjóðsins. Sá sem reynir að afla sér styrkja með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar og/eða leynir upplýsingum missir rétt til styrks. Heimilt er að endurkrefja félagsmenn um allan styrkinn auk dráttarvaxta.
11.7. Í byrjun hvers árs eru sendar upplýsingar til skattayfirvalda þar sem gerð er grein fyrir styrkþegum og styrkupphæðum síðastliðins árs. Styrkir úr Starfsmenntunarsjóði FÍA eru framtalskyldir en ekki staðgreiðsluskyldir þar sem um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði er að ræða. Því er áríðandi að geyma allar kvittanir í frumriti sem og önnur gögn sem hægt er að nálgast á skrifstofu sjóðsins eftir að styrkur hefur verið greiddur. Styrki úr Starfsmenntunarsjóði skal telja sem tekjur á skattframtali og útlagðan kostnað til frádráttar. Í athugasemdum framteljenda í skattaframtali skal vísa í sérstakt rekstraruppgjör þar sem tilgreindur er kostnaður vegna þess sem styrkt hefur verið.
12. grein: Hvað er endurgreitt
12.1. Námskeið og ráðstefnur sem miða að því að auka almenna starfshæfni umsækjenda á sviði fjármála, tölvutækni, tungumála, fjarvinnslu og samskipta (framkomu og tjáningu), eða félagsstarfa eru styrkhæf.
12.2. Tómstundarnámskeið eru styrkhæf að hámarksupphæð ákveðinni af stjórn sjóðsins í lok hvers árs.
Einungis er greitt sem nemur 85% af framlögðum reikningum eða sem nemur hámarks upphæð tómstundarstyrks hvers árs. Styrkur til tómstunda telst hluti af hámarksstyrkfjárhæð sem getið er um í gr. 9. Undir tómstundastyrki falla námskeið sem hafa skilgreint upphafi, endi og kennara.
12.3. Verkefni sem tengjast ekki beint námi eða fagsviði þarf að taka sérstaklega fyrir á fundi stjórnar sjóðsins.
12.4. Launatap er ekki bætt úr sjóðnum.
12.5. Ferða-, hótel- , síma- og uppihaldskostnaður er ekki styrkhæfur.
12.6. Undanþágu má gera frá grein 12.5. að undanskildum símakostnaði sé fulltrúi sendur á námskeið eða ráðstefnu á vegum FÍA.
13. grein: Styrkur til sjóðsfélaga
13.1. Sjóðurinn skal hafa til ráðstöfunar greiðslu styrkveitinga sbr. grein 12. upphæð sem nemur kr. 60.000 vegna hvers sjóðfélaga og breytist sú upphæð skv. vísitölu neysluverðs sem var 356,2 stig 1. janúar 2010.
13.2. Reikna skal út árlega ráðstöfunarfé umfram skuldbindingu skv. grein 13.1 og grein 2.
13.3. Stjórn sjóðsins hefur heimild til að greiða styrk til sjóðfélaga af “ráðstöfunarfé” skv. grein 13.2. í hlutfali við inngreiðslu
14. grein: Skráning og meðferð umsókna
14.1 Samþykktar umsóknir ásamt frumriti reikninga eru geymdar í 3 ár.
14.2. Umsóknum sem hefur verið hafnað eða vísað frá eru ekki geymdar lengur en í eitt ár.
14.3. Skráning styrkja, upphæð, dagsetning umsóknar og greiðsla styrkja er skráð í félagatal sjóðsins.
15. grein: Málskotsréttur
15.1 Ef sjóðsfélagi er ósáttur við afgreiðslu stjórnar sjóðsins á styrkumsókn sinni og fylgigögnum á hann ávallt rétt á að vísa erindi sínu til stjórnar FÍA sem hefur endanlegt úrskurðarvald. Úrskurður stjórnar FÍA er tekin til afgreiðslu á næsta fundi.
16. grein: Breytingar á reglugerðinni
16.1. Breytingar á reglugerð þessari má SFÍA eingöngu gera með samþykki félagsfundar.
16.2. Þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breytingartillaga hljóti samþykki.
16.3. Breytingar á reglum þessum verða kynntar á viðeigandi vettvangi og uppfærðar á heimasíðu.
17. grein: Gildistaka
16.1. Reglur þessar eru samþykktar á Aðalfundi FÍA 21.02.2008 og taka gildi þegar í stað. Við gildistökuna falla úr gildi eldri starfsreglur og aðrar ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við reglur þessar.
16.2. Reglurnar skulu aðgengilegar félagsmönnum á vef FÍA og á skrifstofu félagsins.
Gert í Kópavogi, 17. desember 2007.
Breytingar frá aðalfundi 2017 hafa verið færðar inn.