None
08. feb 2023

Áskorun FÍA á SA að fylgja lögum og niðurstöðum dómstóla

Í ljósi frétta undanfarna daga um niðurstöður dómstóla í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar og yfirlýsinga Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, um að aðilum beri að fylgja lögum og niðurstöðum dómstóla, vill Félag íslenskra atvinnuflugmanna skora á hann sjálfan f.h. SA og Bláfugls, að fylgja bæði lögum, gildandi kjarasamningi Bláfugls við FÍA og niðurstöðu Félagsdóms. Þykir FÍA það ansi hart af framkvæmdastjóranum að leggja fram þessar yfirlýsingar í ljósi þess að SA hafa ekki sjálf fylgt lögum og reglum vinnumarkaðarins og niðurstöðum dómstóla í deilu sinni við FÍA varðandi flugmenn Bláfugls.

Sjá yfirlýsingar Halldórs Benjamíns hér: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-02-07-thessari-deilu-mun-ljuka-miklu-fyrr-en-innan-tveggja-manada

Sú staða sem flugmenn flugfélagsins Bláfugls voru settir í af hálfu Samtaka atvinnulífsins var bæði fordæmalaus og óverjandi, svo að FÍA vitni aftur í orð framkvæmdastjóra SA. Að mati FÍA er hér verið að kasta grjóti úr glerhúsi.

„Að fólk geti valið hvort það fylgi lögum, það er algjörlega ólíðandi staða sem við getum aldrei búið við,“ sagði Halldór Benjamín. Tekur FÍA undir þau orð og beinir því til SA að eitt og hið sama verði yfir alla að ganga. Bendir framkvæmdastjórinn einnig á að sá sem brjóti gegn lögum eigi aldrei að hagnast á því en það er einmitt það sem Bláfugl hefur náð að gera með stuðningi og atbeina SA.

https://www.visir.is/g/20232374674d/segir-eflingu-brjota-log-og-hagnast-a-o-log-maetu-a-standi

Í september 2021 féll dómur í Félagsdómi þar sem uppsagnir Bláfugls á öllum flugmönnum sem voru félagsmenn í FÍA voru dæmdar ólöglegar. Þess ber að geta að rétt áður en til uppsagnanna kom hafði félagið ráðið til sín samsvarandi fjölda gerviverktaka í gegnum erlenda starfsmannaleigu á helmingi lægri launum. Að mati FÍA er hér jafnframt um augljós félagsleg undirboð að ræða.

Í dóminum kom skýrt fram að þegar kjarasamningur rennur út gilda ákvæði hans þar til samið er að nýju en kjarasamningsviðræður voru einmitt í miðjum gangi þegar félagið greip til uppsagna. Samkvæmt ákvæði kjarasamnings eiga félagsmenn í FÍA forgang að 11 stöðugildum flugmanna félagsins. Þetta ákvæði var staðfest af Félagsdómi.

Þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms og gildandi kjarasamning hafa Samtök atvinnulífsins og Bláfugl litið svo á að þau þurfi ekki að fara eftir umræddum dómi og kjarasamningi.

Það hlýtur að vera krafa okkar í því réttarríki sem við búum í að íslensk fyrirtæki virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla. Það er með öllu óásættanlegt að svona viðhorf og framganga fái að viðgangast í okkar samfélagi.

Samhliða þessu er skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig mál Bláfugls varða og tryggja að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla. FÍA tekur þannig undir orð Halldórs Benjamíns um að mikilvægt sé að ríkisvaldið beiti heimildum sínum til þess.

Þá vill FÍA jafnframt benda á að viðræður FÍA við SA og Bláfugl hafa verið hjá ríkissáttasemjara frá því árið 2020, en ekki hefur verið boðað til fundar frá því árið 2021, eða eftir að Sólveig Gunnarsdóttir, lögfræðingur SA og stjórnarmaður í stjórn Vinnumálastofnunar, lýsti því yfir á fundi þar að kjarasamningur FÍA og SA fyrir hönd Bláfugls væri ekki lengur í gildi þar sem enginn væri starfandi eftir honum.

Það hlýtur að teljast afar varhugavert að Samtök atvinnulífsins, hagsmunasamtök íslenskra atvinnurekenda og forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins, líti svo á að þegar kjarasamningar renni út þurfi ekki að starfa eftir þeim af þeim ástæðum að öllum var sagt upp með ólögmætum hætti. Sömu aðilar ætlast nú til þess að aðrir fylgi lögum og reglum vinnumarkaðarins og niðurstöðum dómstóla.

Ljóst er af fordæmum dómstóla að kjarasamningur heldur gildi sínu þar til samið hefur verið að nýju. Að mati FÍA hefði ríkissáttasemjari átt að grípa þarna inn í og halda viðræðum lifandi en það hefur hann ekki gert. Þá hefur engin miðlunartillaga verið lögð fram í þeim viðræðum og enginn fundur boðaður í á annað ár.

FÍA hefur áður birt áskorun sama efnis 15. október 2021:

https://www.fia.is/frettir-fundagerdir/frettir/aetla-sa-og-blafugl-ad-snidganga-kjarasamninga-og-doma/