None
01. feb 2021

Verkfall flugmanna Bláfugls er hafið

Þann 1. febrúar kl. 00:01 hófst verkfall flugmanna FÍA hjá Bluebird Nordic (BBN).

Ákvörðun um verkfallið var tekin með lögmætum hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Verkfallsaðgerðirnar fela í sér ótímabundið verkfall en nánar tiltekið er átt við að vinna samkvæmt ákvæðum kjarasamnings falli niður að öllu leyti á meðan verkfall stendur yfir.

Sem viðbrögð við verkfallinu hefur Bluebird Nordic nú tekið umrædda FÍA flugmenn af flugvöktum frá þeim tíma sem verkfallið hófst og mannað þær með gerviverktökum sem ganga í störf verkfallsmanna og er því um skýrt verkfallsbrot að ræða.

Ólöglegar uppsagnir

Þegar FÍA flugmönnum var sagt upp, þann 30. desember síðastliðinn, voru hefðbundnar samningsviðræður í gangi. Samningsaðilar höfðu fundað 5 sinnum og unnið var eftir viðræðuáætlun sem lögð var fram af SA og BBN. Deilan er nú hjá embætti ríkissáttasemjara.

FÍA telur að um ólögmætar uppsagnir sé að ræða og með þeim hafi verið brotið gegn 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur auk þess sem vegið er að stjórnskrárvörðum rétti til að vera í stéttarfélagi.

Flugfélagið hefur jafnframt lýst því yfir að hér eftir muni það einungis notast við „sjálfstætt starfandi flugmenn” eða gerviverktaka sem er ætlað að ganga í störf flugmanna á kjarasamningi. Gerviverktakarnir eru ráðnir í gegnum áhafnaleigu sem ekki er skráð á Íslandi eins og lög gera ráð fyrir og starfa á kjörum sem eru langt undir lágmarkskjörum kjarasamninga.

Kjarasamningur FÍA og BBN er enn í gildi og starfa flugmenn félagsins samkvæmt honum. BBN hefur haldið fram að umræddur samningur sé útrunninn en FÍA hafnar því og vísar til yfirstandandi kjarasamningsviðræðna. Í núgildandi kjarasamningi kemur skírt fram að ráðning eða leiga flugmanna til Bláfugls, sem ekki eru félagar í FÍA, skuli ekki á neinn máta tefja fyrir stöðuhækkunum og öðrum framgangi fastráðinna flugmanna Bláfugls, sem eru löglegir félagar í FÍA, né heldur leiða til uppsagna félagsmanna FÍA innan Bláfugls.

Alþjóðlegur stuðningur

FÍA er þakklátt þeim mikla stuðning sem félaginu hefur borist í deilunni en félagið hefur fengið stuðningsyfirlýsingar vegna málsins frá bæði innlendum og alþjóðlegum aðilum, t.d.: ASÍ, Flugfreyjufélagi Íslands, Félagi íslenskra flugumferðastjóra, Flugvirkjafélagi Íslands, Nordic Transport Worker‘s Federation, International Transport Worker‘s Federation, International Federation of Air Line Pilots‘ Association og Flight Personnel Union.