None
05. feb 2021

Sýslumaður hafnar beiðni Bláfugls um lögbann á verkfallsaðgerðir flugmanna félagsins

Eftir að hafa verið með flugmenn starfandi á kjarasamningi við FÍA frá stofun félagsins árið 1999, þar sem aldrei hefur komið til verkfallsátaka, ákvað Bláfugl nú um áramótin að segja upp öllum kjarasamningsbundum flugmönnum og ráða „sjálfstætt starfandi“ gerviverktaka í þeirra stað. Sagði félagið markmiðið vera að lækka kostnað en Bláfugl hefur farið fram á slíka kjaraskerðingu að hún teldist verulega gróft félagslegt undirboð íslenskra kjarasamninga. Þess má geta að Bláfugl sinnir eingöngu fraktflugi en mikil eftirspurn hefur verið eftir slíku flugi frá upphafi COVID faraldursins og fraktfélög um allan heim hafa aldrei haft meira að gera. FÍA ásamt stéttarfélögum flugmanna í Evrópu hefur í áraraðir barist gegn verktöku meðal flugmanna sem við teljum ekki falla að skilyrðum laga.

Í kjölfar uppsagna og árangurslausra viðræðna hjá Ríkissáttasemjara boðaði FÍA verkall samkvæmt lögbundnum leiðum sem hófst á miðnætti þann 1. febrúar. Stóðu félagsmenn FÍA verkfallsvörslu er „sjálfstætt starfandi“ gervi-verktakar á vegum Bláfugls mættu til að fljúga þau flug sem flugmönnum á kjarasamningi við FÍA voru ætluð. Hindruðu verkfallsverðir aðgengi verktaka Bláfugls að flugstöð Keflavíkurflugvallar og komu þannig í veg fyrir að gengið væri í störf flugmanna í verkfalli.

Í kjölfarið lagði Bláfugl þann 2. febrúar fram lögbannsbeiðni til Sýslumanns sem beindist gegn verkfallsaðgerðunum. Krafðist félagið staðfestingar á því að verkfallsvarslan væri ólögmæt og fullyrtu að FÍA flugmenn hefðu ekki vinnuskyldu þar sem þeim hefði verið sagt upp og þeir teknir af vinnuskrám. Því væri þeim heimilt að kalla til verka „sjálfstætt starfandi“ gerviverktaka.

Þessu hafnaði fulltrúi Sýslumanns er lögbannsbeiðnin var tekin fyrir þann 5. febrúar. Taldi Sýslumaður verkfallsaðgerðir FÍA ekki brjóta gegn lögvörðum hagsmunum Bláfugls og er því ljóst að Bláfugl brýtur nú gegn löglega boðuðu verkfalli með því að fá „sjálfstætt starfandi“ verktaka til að ganga í störf flugmanna á kjarasamningi við FÍA. Því er ljóst að fyrirtækjum á íslenskum vinnumarkaði er ekki fær sú leið að segja upp fólki ólöglega og losa það undan vinnuskyldu en ráða um leið gerviverktaka til að ganga í þeirra störf.

Auk þess að brjóta gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 með því að ráða inn verktaka til að sinna störfum flugmanna í verkfalli telur FÍA Bláfugl einnig hafa marg brotið lög um útsenda starfsmenn nr. 45/2007. Þar er í fyrsta lagi skýrt kveðið á um að skrá þurfi til Vinnumálastofnunar þær starfsmannaleigur sem senda starfsmenn til Íslands, sbr. 8. gr. laganna. Einnig kemur skýrt fram í 1. gr.a. það markmið laganna að tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna sem sendir eru tímabundið til landsins skuli vera í samræmi við öll ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði hér í landi. FÍA hefur óvéfengjanlegar heimildir fyrir því að starfskjör verktaka Bláfugls séu langt undir þeim kjörum sem samið er um í kjarasamningum hér á landi.

Þar að auki hefur Bláfugl nú gripið til þess ráðs að láta þessa flugmenn taka sína lögboðnu hvíld innan haftasvæðis flugvallarins við aðstæður sem brjóta gegn skýrum ákvæðum laga um hvíldaraðstæður flugáhafna. Tilgangur þessara aðgerða félagsins er að hindra það að verkfallsverðir geti hamlað verkfallsbrjótum, þ.e. verktakaflugmönnum, að ganga í störf stéttarfélagsflugmanna í verkfalli. FÍA hefur heimildir fyrir því að bæði Samgöngustofa og Vinnumálastofnun hafi starfsemi Bláfugls nú til skoðunar.