Tengdar fréttir
Nýr kjarasamningur við Norlandair samþykktur
Skrifað var undir nýjan kjarasamning Norlandair við FÍA í Flugsafninu á Akureyri, þriðjudaginn 16. mars. Í kjölfarið fór fram leynileg, rafræn atkvæðagreiðsla, sem lauk mánudaginn 22.mars, þar sem allir flugmenn Norlandair samþykktu nýja samninginn.
,,Fyrir hönd samninganefndar FÍA þá óska ég flugmönnum Norlandair til hamingju með nýjan kjarasamning og fulltrúum félagsins þakka ég fyrir árangursríkt samstarf. Nýr kjarasamningur markar nýtt upphaf og ég vona að á grunni hans megi efla uppbyggingu Norlandair og markaðssókn félagsins," sagði Högni Björn Ómarsson, formaður samninganefndar FÍA við Norlandair. ,,Vonandi fáum við brátt fréttir af endurráðningum þeirra flugmanna sem þurftu að láta af störfum vegna samdráttar á síðasta ári. Lítum björtum augum fram á veginn og dveljum ekki um of við allt það erfiði sem nú er að baki. Niðurstöðunni ber að fagna."
FÍA óskar flugmönnum Norlandair til hamingju með nýjan kjarasamninginn.

Ánægt samningafólk við undirritun hins nýja kjarasamnings.
Frá vinstri: Jón Karl Ólafsson, Arnar Friðriksson, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, Davíð Smári Jóhannsson, Halla Kristjánsdóttir og Högni B. Ómarsson. Á myndina vantar Örnólf Jónsson.
Myndband um Bláfugl og gerviverktöku
FÍA hefur útbúið stutt myndband um deilu félagsins við Bluebird Nordic (Bláfugl) sem félagið telur að beiti gerviverktöku og félagslegum undirboðum til að ná niður kostnaði.
Hægt er að sjá myndbandið á Facebook síðu FÍA eða á Youtube.
Mikilvægt dómafordæmi í Bretlandi
Í febrúar 2021 komst Hæstiréttur Bretlands að þeirri mikilvægu niðurstöðu að Uber bílstjórar ættu að vera flokkaðir sem launamenn og gætu ekki talist sjálfstæðir verktakar heldur yrðu að teljast starfsmenn fyrirtækisins Uber. Ætti það að leiða til þess að þeir fengju greidd lágmarkslaun samkvæmt breskum kjarasamningum auk þess að njóta þeirra réttinda sem þeim fylgja, s.s. veikindarétt og orlofsrétt (Sjá nánar um dóminn í frétt BBC hér).
Dómstóllinn taldi upp nokkra þætti í dæmaskyni sem leiddu til þess að bílstjórarnir gætu ekki talist verktakar, t.d. að Uber ákveður fargjaldið sem farþegar greiða og aðra samningsskilmála einhliða. Með tilliti til alls taldi Hæstirétturinn að bílstjórarnir væru undir boðvaldi Uber og að eina leið þeirra til að auka tekjur sínar væri að vinna lengri vaktir.
Að mati ECA (European Cockpit Association – Samtök evrópskra flugmanna) eiga sömu sjónarmið við varðandi flugmenn en báðir hóparnir hafa barist harðlega gegn gerviverktöku sem atvinnurekendur virðast reyna að nýta sér. Í grein frá ECA kemur fram að innlend vinnu- og flugmálayfirvöld eigi oft í erfiðleikum með að bera kennsl á „sjálfstætt starfandi starfsmenn“ eða gerviverktöku af þessu tagi. Hefur það afstöðuleysi eftirlitsyfirvalda einmitt leitt til þess að leiga á sjálfstætt starfandi flugmönnum hefur fengið að blómstra í friði þrátt fyrir að geta ekki talist annað en ólögmæt gerviverktaka.
Í greininni er kallað eftir því að yfirvöld taki almenna afstöðu til þess að flugmenn geti ekki talist sjálfstætt starfandi flugmenn í samræmi við það sem fram hefur komið í máli Uber bílstjóranna. FÍA tekur undir sjónarmið ECA og hvetur íslensk yfirvöld til að taka afstöðu í þessum efnum varðandi „sjálfstætt starfandi“ flugmenn á Íslandi.