None
04. maí 2023

Ályktun Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna vegna málefna Reykjavíkurflugvallar

Öryggisnefnd FÍA harmar þá ákvörðun Innanríkisráðherra að fara gegn samkomulagi sem var undirritað í nóvember 2019 en þar stendur í 5.gr:

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.“

Starfshópur Innviðaráðherra sem skipaður var vegna hugsanlegrar byggðar í Nýja Skerjafirði segir í sinni skýrslu að allar framkvæmdir í Nýja Skerjafirði muni hafa áhrif á rekstraröryggi flugvallarins.

Rétt er að benda á að til eru hjá ISAVIA gögn yfir vindmælingar á Reykjavíkurflugvelli, sem ná rúm 10 ár aftur í tímann. Þessi gögn geta meðal annars sýnt hvort og hvaða áhrif uppbygging í nálægð vallarins hefur haft á vindafar á vellinum á þessu tímabili. Mikilvægt er að rýna þessi gögn til hlítar til að meta áhrif byggðar á vindafar.

Sömuleiðis þarf að rannsaka áhrif viðbótarbyggðar á brautarskilyrði, svo sem bleytu og ísingarmyndun. Í lokaorðum skýrslunnar eru talin upp fleiri atriði sem ekki hafa verið rannsökuð sem geta haft áhrif á rekstraröryggi flugvallarins.

Umtalaðar mótvægisaðgerðir hafa ekki verið skilgreindar til hlítar eða útfærðar og óvíst að þær beri tilætlaðan árangur en þó er víst að rekstraröryggi vallarins mun skerðast.

Öryggisnefnd FÍA leggur til að fullnægjandi rannsóknir á fyrirliggjandi gögnum m.a. vindagögnum verði fullunnar og öllum framkvæmdum frestað þar til niðurstöður liggja fyrir.

F.h. Öryggisnefndar FÍA

Jón Hörður Jónsson - Formaður ÖFÍA