None
31. okt 2022

Ályktun og áskorun trúnaðarráðs FÍA um félagafrelsisfrumvarp Sjálfstæðisflokksins

Ályktun og áskorun trúnaðarráðs Félags íslenskra atvinnuflugmanna um félagafrelsisfrumvarp Sjálfstæðisflokksins

Á fundi stjórnar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Trúnaðarráðs FÍA þann 27. október 2022 var samhljóða samþykkt að fordæma frumvarp til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði, sbr. þskj. 24, á 153. löggjafarþingi. Um leið er skorað á alla þingmenn, sem lögum samkvæmt sækja umboð sitt til launafólks, að hafna frumvarpinu og verja þannig sjálfsagða hagsmuni launþega.

Að mati FÍA felur frumvarpið í sér alvarlega aðför að stéttarfélögum og um leið gegn réttindum launþega og réttindabaráttu verkalýðsfélaga til fjölda ára. Frumvarpið felur einnig í sér árás á norræna vinnumarkaðsmódelið sem samfélagsleg sátt hefur verið um hér á landi og leitt hefur til þess velferðarsamfélags sem við búum í.

Félagafrelsi er nú þegar afar vel tryggt í stjórnarskrá Íslands. Á íslenskum vinnumarkaði hefur miklu frekar skort á eftirliti með því að farið sé eftir þeim reglum sem þar hafa verið settar auk þess sem skortur er á því að vinnuveitendur fylgi settum reglum og kjarasamningum. Bæði er skortur á vilja vinnuveitenda til að fylgja regluverkinu auk þess sem eftirliti er verulega ábótavant með því að þeir fylgi regluverkinu. Á meðan það ástand ríkir eiga launþegar undir högg að sækja og mikilvægt að staða þeirra verði styrkt en ekki brotin niður líkt og ætlunin er með umræddu frumvarpi. Telur FÍA raunar brýna þörf á að styrkja stoðir stéttarfélaga og efla eftirlitsstofnanir þannig að þær geti betur sinnt hlutverki sínu og bæði fylgst með og hindrað brot á vinnumarkaðslöggjöf. Of mörg dæmi eru um að launþegar hafi átt undir högg að sækja gagnvart bæði atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Sú afstaða sem birtist með frumvarpinu er að veikja stéttarfélög og er það með öllu óásættanlegt fyrir íslenska launþega. Með frumvarpinu er staða vinnuveitanda styrkt á kostnað launþega en einnig er verið að styðja við félagsleg undirboð og gerviverktöku, sem leiðir svo til gífurlegs taps á tekjum hjá ríkissjóði. Verði frumvarpið samþykkt mun það því leiða til gjörbreytts veruleika á íslenskum vinnumarkaði og þeirri samfélagslegu mynd sem við breið sátt hefur verið um. Þrátt fyrir að frumvarpið sé sett fram undir þeim formerkjum að tryggja mannréttindi einstaklinga felur það í raun ekki í sér réttarbót fyrir launþega þegar til lengri tíma er litið heldur er til þess fallið að veikja stöðu og réttindi launafólks.

FÍA gerir einnig alvarlegar athugasemdir við það að með frumvarpinu sé vinnuveitendum heimilt að stofna stéttarfélög. Slík stéttarfélög ganga beinlínis gegn tilgangi stéttarfélaga sem málsvara launamanna gagnvart vinnuveitanda og hafa verið kölluð „gul stéttarfélög“ þar sem þau ganga erinda atvinnurekenda en ekki launamanna. Fer slíkt alfarið gegn leikreglum íslensks vinnumarkaðar og brýtur gegn ákvæðum stjórnarskrár, laga og fjölda alþjóðasamþykkta. Með slíkri breytingu er sett fram lagaheimild til félagslegra undirboða sem getur grafið með öllu undan íslenskum vinnumarkaði.

Kópavogi 31. október 2022,

f.h. Trúnaðarráðs FÍA

Jón Þór Þorvaldsson, formaður