Fréttir

12. sep 2013

Yfirlýsing vegna Reykjavíkurflugvallar

Svo virðist vera að stefna borgarstjórnar Reykjavíkur sé að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan, án þess að hafa haldbæra lausn á því vandamáli. Ekki hefur verið tekið tillit til álits fagaðila í þessu umfangsmikla máli þrátt fyrir skýrslur og ráðstefnur um málið.

FÍA undrast þá stefnu borgarstjórnar Reykjavíkur að vega að atvinnustarfsemi og störfum í Reykjavík, bæði vegna félagsmanna sinna, sem og annarra. Á þetta ekki síst við í ljósi þess efnahagsástands sem við búum við. Með fyrirhugaðri lokun flugbrautar eða flugvallarins í heild sinni tapast störf og starfsemi þeirra fyrirtækja er þar starfa. Bein afleiðing þess er aukið atvinnuleysi og minnkandi tekjur.

Hugmyndir um að loka annarri aðalflugbraut Reykjavíkurflugvallar, eins og gert hefur verið ráð fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, þýðir einfaldlega að nýtingarstuðullinn fer niður fyrir þann sem ásættanlegur er til flugreksturs og mun marka endalok flugreksturs í Reykjavík sem við þekkjum í dag. Að loka Reykjavíkurflugvelli án þess að hafa annan sambærilegan flugvöll í hans stað er óábyrgt.

FÍA undrast að enn og aftur beinist umræðan að flugvelli á Hólmsheiði sem fýsilegum kosti, þrátt fyrir að fram hafi komið upplýsingar um að Hólmsheiði uppfylli alls ekki kröfur sem gerðar eru til flugvallarstæðis. Þar má nefna skýrslu Isavia um hugsanlegan flutning vallarins á Hólmsheiði.

Ennfremur bendir FÍA á að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki sem varavöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Að sama skapi gegnir Keflavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki sem varavöllur fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem er forsenda fyrir innanlandsflugi um Reykjavíkurflugvöll.

Ljóst er að ef innanlandsflug og sjúkraflug, eins og við þekkjum í dag, eigi að vera til staðar í framtíðinni, þarf til þess flugvöll og er enginn annar hentugri en sá sem fyrir er í Vatnsmýrinni, enn sem komið er. Einnig vill FÍA minna á að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í almannavörnum Íslands.

FÍA lýsir yfir eindregnum stuðningi við hópinn „Hjartað Í Vatnsmýri" og hvetur alla landsmenn til að kynna sér efnið á síðunni www.lending.is.

Lesa meira
19. ágú 2013

Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri

Félagið Hjartað í Vatnsmýri hefur hafið undirskriftasöfnun á vefslóðinni www.lending.is þar sem skorað er á borgarstjórn Reykjavíkur og Alþingi að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri. Undirskriftir verða afhentar borgarstjórn áður en frestur til að gera athugasemdir við tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur rennur út
þann 20. september nk., en sem kunnugt er gerir skipulagstillagan ráð fyrir að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri
innan skamms.

Stjórn FÍA er einn af þeim sem stofnuðu til þessa átaks og skorar því á félagsmenn sína og landsmenn alla að kynna sér þetta málefni og hvetur alla til að skrifa á undirskriftalistann. Jafnframt eru allir hvattir til að safna sem flestum undirskriftum!

Auk vefsíðunnar verða undirskriftalistar aðgengilegir um land allt, jafnframt því sem miklir hagsmunir landsmanna allra af óbreyttri flugstarfsemi í Vatnsmýri verða kynntir víða um land með áberandi hætti á næstunni.

Mikið hefur verið ritað og rætt um þetta mál á undanförnum árum og flestum ljóst um hvað málið snýst, en skerpt verður á því á næstunni. Í hnotskurn má segja, að nokkur hópur íbúa Reykjavíkur telji það réttlætanlegt að hætta flugstarfsemi í Vatnsmýri til þess að koma þar upp íbúabyggð. Það er mat stjórnar félagsins Hjartað í Vatnsmýri eins og stórs hluta landsmanna að það sjónarmið sé illa ígrundað og ákvörðun í þá veru gengi beinlínis gegn hagsmunum landsmanna flestra, þar á meðal og ekki síst Reykvíkinga sjálfra.

Innanlandsflug yrði tæplega flutt annað en til Keflavíkur. Við það tapast fjöldi starfa í Reykjavík, ferðatími milli Reykjavíkur og landsbyggðar eykst til muna svo og kostnaður flugfarþega, hvort sem eru Reykvíkingar, aðrir landsmenn eða ferðamenn. Sú nokkuð víðtæka sátt sem verið hefur um að byggja upp sérhæfða þjónustu í Reykjavík fyrir landsmenn alla mun bíða hnekki. Þar má nefna stjórnsýsluna, menntastofnanir, fjármálaþjónustu og síðast en ekki síst heilbrigðisþjónustuna og þá sérstaklega bráðamóttöku, sem útilokað er að sé fjarri flugvelli. Í því sambandi er rétt að undirstrika sérstaklega, að rúmlega 600 sjúkraflug fara um Reykjavíkurflugvöll á ári hverju. Það eru um tólf flug í viku hverri árið um kring.

Fjölmörg önnur atriði til stuðnings staðsetningu flugvallar í Vatnsmýri má nefna, en þeim hafa bæði verið gerð góð skil í blaðagreinum, viðtölum og umræðum í borgarstjórn, á Alþingi og víðar og verða jafnframt gerð betri skil síðar.

Um félagið
Félagið Hjartað í Vatnsmýri var stofnað þann 8. júlí 2013 í þeim tilgangi að berjast fyrir því mikilvæga hagsmunamáli landsmanna allra að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri. Í stjórn félagsins eru 14 einstaklingar víða af landinu og formenn eru þeir Friðrik Pálsson, hótelhaldari og Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri.

Vefslóð: http://www.lending.is

Frekari upplýsingar
Allar frekari upplýsingar veita formenn félagsins:

Friðrik Pálsson, hótelhaldari, 892-­‐1464
Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri, 861-­‐9373

Lesa meira
27. nóv 2012

Í flug formi (Fit to fly)

Hilton Nordica 30. nóv. 08:30-12:20 - ATHUGIÐ BREYTTUR FUNDARTÍMI !

Skráning hér

Umhverfi flugliða, hvað getum VIÐ gert til að auka vellíðan í vinnunni?

Fundarstjóri: Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugstjóri og form. heilsu- og vinnuverndarnefnd FÍA

Lesa meira
01. nóv 2012

Blekkingarleikur gerviflugfélaga

Nú fer hátt umræða um hvað er flugrekstraraðili og hvað ekki. Flugmálastjórn Íslands hefur nú loks sent frá sér yfirlýsingu að ekki sé rétt að kalla félög eins og Wow Air flugrekstraraðila enda eru þeir ekki með flugrekstrarleyfi og bera hvorki skyldur né kostnað sem því fylgir.
Skúli Mogensen kemur þá í fjölmiðla og heldur því blákalt fram að þeir séu íslenskt flugfélag og kórónar svo allt með fréttatilkynningu að Wow Air hafi tekið á móti nýrri flugvél, heldur er nú talið ólíklegt að farmiðasala, sem kaupir sína þjónstu af Lettneska flugfélaginu Avion Express, sé að taka á móti flugvélinni til að reka hana, það hlýtur að falla í hlut flugfélagsins en ekki farmiðasölunnar. Allt er þetta gert til þess eins að blekkja neytendur sem ekki átta sig endilega á því að ef eitthvað alvarlegt kemur uppá sem farmiðasalan er ekki tilbúin að bera ábyrgð á þá er eini rétturinn sem farþegar hafa gagnvart flugfélagi í Lettlandi, hvernig ætli gangi að sækja rétt sinn þangað austur?

Norsk yfirvöld hafa bannað gerviflugfélögum að nota orðið flugfélag en íslensk yfirvöld hafa ekki verið tilbúin að stíga það skref þar sem einungis orðið "Flugrekandi" kemur fram í íslenskri löggjöf, ekki orðið "flugfélag". Íslensk flugfélög sem fara eftir settum leikreglum og þurfa að uppfylla skilyrði eins og t.d. að hafa handbært fé til a.m.k. 3ja mánaða reksturs án innkomu, með þeim kostnaði sem því fylgir, standa því berskjölduð fyrir innkomu þessara gerviflugfélaga þangað til stjórnvöld jafna leikreglurnar. Leikreglur í þágu öryggis og viðurværis íslenskra starfsmanna!

Félag Íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA, fordæmir þessi vinnubrögð og lýsir því jafnframt yfir að flugmenn fagna samkeppni á flugmarkaði, svo lengi sem slík samkeppni er á jafnréttisgrundvelli. Það er sorglegt þegar fyrirtæki reyna að bjóða betra verð með því að vera með starfsfólk sem verktaka og brjóta þannig niður réttindi starfsfólks.

Þau íslensku flugfélög sem eru með íslenskan kjarasamning við FÍA og íslenskt flugrekstrarleyfi og skila þar með sköttum og skyldum til íslensks samfélags eru:
• Air Atlanta
• Bláfugl
• Flugfélag Íslands
• Ernir
• Icelandair
• Landhelgisgæslan
• Mýflug
• Norlandair
• Þyrluþjónustan

auk flugskólanna:
• Flugskóli Akureyrar
• Flugskóli Íslands
• Geirfugl
• Keilir flugakademía

Lesa meira