Fyrirlesarar RFSS 2025
Friðfinnur Freyr Guðmundsson

Viðbúnaðarþjónusta ISAVIA ANS
Verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia / Project Manager Emergency and Crisis Preparedness, Isavia
Friðfinnur starfar sem annar af tveimur verkefnastjórum neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og dótturfélögum. Þar vinnur hann að þróun, samhæfingu og prófun á viðbragðsáætlunum ásamt því að hafa umsjón með Neyðarstjórn félagsins. Hann hefur víðtæka reynslu af stjórnun leitar- og björgunaraðgerða ásamt því að vinna með viðbragðsaðilum í aðgerðum og skipulagi málaflokksins hér á landi.
Friðfinnur hefur bakgrunn í leit og björgun og starfaði í 14 ár hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í aðgerðamálum áður en hann hóf störf hjá Isavia árið 2014. Hann hefur jafnframt kennt aðgerðastjórnun hjá Almannavörnum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og við Háskólann á Bifröst. Hann átti þátt í innleiðingu hugmyndafræði um stjórnun leitaraðgerða á Íslandi, kom að þróun SÁBF stjórnkerfisins og hefur tekið virkan þátt í starfi Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar.
Ragnar Guðmundsson

Óstjórnuð lækkun
Ragnar Guðmundsson hefur starfað í yfir 25 ár í fluginu á Íslandi, þar af í 21 ár við rannsóknir flugslysa og alvarlegra flugatvika.
Á árunum 2004-2012 var Ragnar skipaður nefndarmaður hjá Rannsóknarnefnd flugslysa. Frá árinu 2012 hefur Ragnar svo starfað sem stjórnandi rannsókna, fyrst hjá Rannsóknarnefnd flugslysa og síðan á flugsviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Á árunum 2000-2012 starfaði Ragnar á tæknisviði Flugleiða, ITS Technical Services og hjá Icelandair, sem Airframe Engineer, Manager Materials & Technical Purchases, Sr. Airframe Engineer & CVE Structures og síðast sem Chief of Office of Airworthiness, þar sem hann var m.a. ábyrgur fyrir að yfirfara og samþykkja viðgerðir og breytingar á flugvélum fyrir hönd EASA.
Ragnar var skipaður formaður Vaxtarsamnings Suðurnesja á árunum 2012-2015 og sem formaður stjórnar Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja á árunum 2015-2018. Ragnar er með einkaflugmannspróf og kenndi um tíma hjá Keili, bæði í flugrekstrarfræði sem og í flugvirkjun.
Ragnar er með BSc gráðu í flugvélaverkræði (Aerospace Engineering) frá Embry-Riddle Aeronautical University í Bandaríkjunum, með viðbótargráður (minors) í stærðfræði og flugrekstrarhagfræði (Air Transport Economics). Ragnar er með MSc gráðu í þverfaglegri burðarþolsfræði (Structural Engineering & Mechanics) frá háskólunum í Glasgow og Edinburgh, með sérhæfingu í koltréfjaefnum sem notað er víða í flugvélum í dag.
Ragnar hefur setið ótal endurmenntunarnámskeið í flugslysarannsóknum, komið að þjálfun flugslysarannsakenda og er meðlimur í alþjóðasamtökum flugslysarannsakenda (ISASI). Ragnar situr fyrir hönd Íslands í vinnuhóp evrópskra flugslysarannsakenda hjá ECAC.
Birta Líf Kristinsdóttir

Veðrið í tyrkneska atvikinu og hröð þróun flugveðurgagna síðustu árin
Birta Líf byrjaði sem flugmaður en varð ástfangin af veðrinu. Hún hefur flogið í alls kyns veðri, kennt flugmönnum allt sem þeir þurfa að vita um veður og starfar nú sem veðurspámaður með sérhæfingu í flugveðri.
Hún lauk B.S.-gráðu í eðlisefnafræði og M.S.-gráðu í eðlisfræði með áherslu á veðurfræði. Hún starfar nú hjá Veðurstofu Íslands sem almennur veðurspámaður og sérhæfir sig í flugspám. Hún starfar einnig sem sjónvarpsveðurfræðingur hjá Ríkisútvarpinu.
Birta lauk einnig atvinnuflugmannsprófi og starfaði um tíma sem flugmaður hjá Icelandair og hefur starfað sem veðurfræðikennari við Flugskólann í mörg ár.
Dr. Kristinn R. Þórisson

Flugvélar, öryggi og gervigreind: Uppskrift að bjartri framtíð eða forsendubresti?
Dr. Kristinn R. Þórisson er prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands ses. Hann hefur stundað rannsóknir á gervigreind í rúm 30 ár, kennt þau fræði við Columbia University, KTH og Háskólann í Reykjavík. Áður en hann hóf störf hjá HR var hann meðal annars ráðgjafi hjá NASA og Honda Research Institute í BNA, og starfaði hjá LEGO (Danmörku), Interactive Institute (Svíþjóð) og British Telecom (Bretlandi). Kristinn hefur stjórnað fjölda rannsóknarverkefna styrkt af Evrópusambandinu og unnið með fjölda fyrirtækja hérlendis og erlendis í hagnýtingu gervigreindar og sjálfvirknivæðingar. Fyrirtæki Kristins, Radar Networks, var valið eitt af 10 áhugaverðastu sprotafyrirtækjum BNA ársins 2003 af Reuters Venture Captial og hlaut fjárfestingu frá Paul Allen Vulcan Ventures. Þá hefur hann verið ráðgjafi ríkisstjórnar Íslands og Svíþjóðar í gervigreind. Síðustu árin hafa rannsóknir hans snúist um þróun nýrrar tegundar gagnsærrar gervigreindar sem getur lært flókin verk af sjálfsdáðum. Hann hefur þrisvar hlotið Kurzweil verðlaunin fyrir rannsóknir sínar í gervigreind. Kristinn er með doktorsgráðu frá M.I.T.
Elísabet Eggertsdóttir

State Safety Program
Elísabet hóf nýlega störf sem sérfræðingur í flugöryggi á stjórnsýslusviði Samgöngustofu. Hún hefur umsjón með rekstri gagnagrunns um flugatvik auk annarra flugöryggistengdra verkefna í öryggis- og fræðsludeild. Hún er bæði flugmaður og hagfræðingur að mennt og er með um tveggja áratuga starfsreynslu úr fluggeiranum.
Starfsferill hennar hófst árið 2000 í farþegaafgreiðslunni hjá Flugfélagi Íslands á Reykjavíkurflugvelli. Þar vann hún einnig ýmis önnur skrifstofustörf og eitt sumar sem flugfreyja. Meðfram því kenndi hún einkaflug og flugveðurfræði við flugskólann Flugsýn. Árið 2004 var hún ráðin sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands, fyrst á Twin Otter, síðar á Fokker 50 og að lokum á Dash 8, bæði 200 og 400. Árið 2016 hóf hún störf hjá Icelandair þar sem hún flaug Boeing 757 og 767 fram til ársins 2020. Síðustu ár starfaði hún sem stærðfræðikennari og verkefnastjóri kennslukerfis við Menntaskólann við Sund.
Elísabet lærði einkaflug hjá Flugmennt og lauk atvinnuflugmannsprófi frá Flugskóla Íslands árið 2001. Síðar lauk hún bæði BS- og MS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og nýlega APME námi við Opna háskólann með D-vottun í verkefnastjórnun.
Fjölskyldan og útivistin skipa stóran sess í lífi Elísabetar. Hún á fjögur börn og þrjú barnabörn sem færa henni mikla gleði og margskonar skemmtileg verkefni. Þá nýtur hún þess mjög að vera á fjöllum – hvort sem er á skíðum eða í jeppaferð um hálendi Íslands – helst í góðum félagsskap þeirra sem henni eru næstir.
Þorgrímur Sigurðsson
Flugvirkjar - Certifying starff (CRS)
Jóhann Wium

Geðheilbrigði og Flugöryggi - Getur vont skap valdið flugslysum?
Jóhann Wium hefur starfað á sviði flugsálfræði síðastliðin ár, bæði hér á landi og erlendis. Hann situr í stjórn EAAP (European Association for Aviation Psychology) og IPAAC (International Peer Aviation Assist Coalition), leiðir faghópa í geðheilbrigðismálum hjá FAA (Federal Aviation Authority) og hefur starfað sem flugsálfræðiráðgjafi fyrir ICAO (International Civil Aviation Organization), Isavia og fleiri. Jóhann er núna í framhaldsnámi í klínískri sálfræði við HR að rannsaka geðheilbrigisþjónustuforðun í fluggeiranum.