16. jan 2026

Yfirlýsing FÍA vegna tilkynningar Icelandair um niðurfellingu flugs til Istanbúl og ummæla forstjóra félagsins þar að lútandi

Í dag 16. janúar birtist frétt í fjölmiðlum þar sem vísað er til tilkynningar Icelandair um að flugfélagið hyggist hætta flugi til Istanbúl í Tyrklandi. Haft er eftir forstjóra félagsins að uppbygging flugleiðarinnar hafi krafist undanþágu frá kjarasamningi FÍA og Icelandair. Ennfremur segir forstjóri Icelandair að ástæðan sé sú að FÍA hafi dregið undanþágu þessa til baka frá og með 1. febrúar 2026.

Icelandair gerði samstarfssamning við Turkish Airlines í júní 2023. Í kjölfarið hófst undirbúningur að flugi Icelandair til Istanbúl sem var svo tilkynnt um í nóvember 2024. Alvarleg mistök voru gerð í þeim undirbúningi af hálfu Icelandair. Við áætlanagerð félagsins gleymdist að gera ráð fyrir lögbundnum hvíldartíma áhafna í Istanbúl. Icelandair hefði þó frá upphafi getað skipulagt þessi flug til Istanbúl innan ramma kjarasamnings og reglugerðar án undanþága.

Þegar mistökin uppgötvast í maí 2025 leitaði Icelandair til FÍA um undanþágu frá kjarasamningi. Sú undanþága var góðfúslega veitt enda er það hagur Icelandair og flugmanna að stuðla að vexti og uppgangi félagsins. Slíkar undanþágur frá kjarasamningum hafa ítrekað verið veittar án ágreinings í áratuga samningssambandi FÍA og Icelandair. Áætlunarflug Icelandair hófst svo haustið 2025 og hefur verið án vandkvæða. Um ástæður þeirrar afturköllunar sem um ræðir er rétt að útskýra nánar:

Kjarasamningur FÍA og Icelandair var undirritaður árið 2020. Síðastliðið haust ákvað Icelandair einhliða að hafna einu ákvæði samningsins. FÍA skaut því máli til Félagsdóms sem úrskurðaði þann 10. des sl. að þáverandi formann samninganefndar Icelandair hafi skort umboð og umrætt ákvæði því ekki hluti kjarasamnings. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð. Þessi málatilbúnaður var hvorki að ósk né frumkvæði FÍA en hefur þær afleiðingar að allar undanþágur eru nú lagalega ógildar, þ.m.t. sú undanþága sem FÍA veitti í góðri trú vegna fluga til Istanbúl.

Ákvörðun um að fella niður flug á Istanbúl er alfarið á ábyrgð stjórnenda félagsins og byggir á mistökum stjórnenda sem nú er gerð tilraun til að varpa yfir á flugmenn. Ekkert í núverandi kjarasamningi kemur í veg fyrir áframhaldandi flug Icelandair til Istanbúl og öll vísan í sök FÍA í því máli eingöngu yfirvarp. Stjórn og félagsmenn FÍA harma ákvörðun Icelandair og hafna alfarið ásökunum um hlut FÍA í þeirri ákvörðun.

Fh. Stjórnar FÍA

Jón Þór Þorvaldsson

Formaður