04. sep 2025

Viðbrögð vegna ummæla forstjóra Play

Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur verið starfrækt í 79 ár og er elsta fag- og stéttarfélag atvinnuflugmanna á Íslandi. Félagsmenn þess eru á níunda hundrað. Viðsemjendur félagsins eru nær allir íslenskir flugrekendur, að Play undanskyldu, þ.m.t. Air Atlanta, Icelandair, Norlandair, Landhelgisgæslan og Flugskólarnir. Formaður FÍA kemur eingöngu fram í umboði FÍA og ræðir hagsmuni félagsins og félagsmanna þess. Sem eina lögmæta stéttarfélag flugmanna hér á landi telur félagið sér skylt að standa vörð um öll málefni stéttarinnar og flugsins sem atvinnugreinar almennt. Hvort sem það varðar félagsmenn þess beint eða samstarfsfélaga utan félags. Öllum dylgjum forstjóra Play um að formaður FÍA tali í umboði annarra er því alfarið vísað á bug og telst sem tilraun til þöggunar á eðlilegri og nauðsynlegri umræðu.

Tilefni viðtalsins á Bylgjunni við undirritaðan var gjaldþrot flugfélagsins Bláfugls en í fimm ár hefur FÍA gengið þrautagöngu með flugmönnum félagsins sem var sagt upp með ólögmætum hætti. Öll dómsmál gagnvart Bláfugli hafa unnist enda hefur framganga Bláfugls gengið harkalega á svig við gildandi reglur, hefðir og kjarasamninga. Síðasti sigur FÍA var bótaskylda Bláfugls vegna þessarar framgöngu en í kjölfarið fór félagið í þrot og sitja kjarasamningsbundnir flugmenn þess eftir með sárt ennið. Í viðtalinu fór undirritaður formaður FÍA yfir áhyggjur félagsins af því að stjórnvöld stæðu ekki vörðinn eins og þeim væri skylt og að fleiri félög fylgdu eftir fordæmi Bláfugls óáreitt, þ.á.m. Play.

Í umræddu viðtali, taldi formaður FÍA líkur til þess að flugfélagið Play gæti á ótilgreindum tíma einnig farið í þrot og byggir sú staðhæfing á eftirfarandi vísbendingum og rökum:

  • Frá stofnun félagsins hefur það glímt við stórkostlegan og samfelldan taprekstur. Ítrekað hafa komið fram fullyrðingar um væntan viðsnúning í rekstri sem aldrei hafa staðist.
  • Nýleg fjármögnun sem forstjórinn segir sýna styrk Play, sýnir líka áhættuna sem fjárfestar telja að felist í rekstri Play. Skv. fréttum eru vextirnir „með þeim hærri sem sést hafa í flugiðnaðinum á síðustu árum“ eða 17,5%.
  • Í árshlutauppgjöri Play fyrir 2. ársfjórðung 2025 var eiginfjárstaða Play neikvæð um nærri 10 ma. króna.
  • Tilkynnt hefur verið um flutning flugrekstrarleyfis til Möltu; störf hafa kerfisbundið verið flutt úr landi, með tilheyrandi uppsögnum á íslensku starfsfólki. Forstjóri félagsins hefur þegar reynt yfirtöku á félaginu með afskráningu á markaði, sem hluthafar og fjárfestar hafa hafnað að sinni.
  • Samkvæmt því sem fram hefur komið verður flugrekstur félagsins fluttur úr landi og íslenskt flugrekstrarleyfi lagt niður.

Auk ofangreinds liggur fyrir að einn af stjórnendum Play er fyrrverandi forstjóri Bláfugls, en í hans tíð var öllum kjarasamningsbundnum flugmönnum félagsins sagt upp starfi, með tilheyrandi tjóni fyrir flugmennina sem litlar sem engar líkur eru á að fáist bætt. Flugfélagið Bláfugl var sett í gjaldþrot þegar kom að skuldbindingum þess hér innanlands. Starfsemi félagsins var áður en til gjaldþrots kom með sambærilegum hætti flutt úr landi. Spár um endalok Play á Íslandi eru því byggðar á heildstæðu mati á atburðarrás sem er þekkt og þegar hafin.

Hvað varðar réttindi farþega og áhættu þeirra sem þegar hafa keypt farmiða fram í tímann, vísar formaður FÍA til þeirra dæma sem þegar hafa átt sér stað, t.d. fyrr á þessu ári þegar viðskiptavinir sem áttu bókað flug til Króatíu, Þýskalands og Madeira, fengu tilkynningu um að flugunum hefði verið aflýst. Það er mat FÍA, byggt á reynslu, að flugfélag sem er í slíkum umbreytingarfasa sé líklegra en ella að gera breytingar með stuttum fyrirvara, sem geta sett ferðaáætlanir farþega í uppnám. Spyrjum að leikslokum. Í sömu andrá má spyrja hvernig viðskiptasambandi farþega verði háttað þegar Play yfirgefur Ísland og starfar eingöngu á maltversku flugrekstrarleyfi. Fara viðskipti fram við flugfélag, ferðaskrifstofu eða miðasölu? Nýlegt dæmi NiceAir sýnir að réttindi farþega geta reynst mjög ótrygg þegar flug er keypt við óljósar aðstæður. NiceAir var kallað flugfélag þó svo að félagið væri ekki með flugrekstrarleyfi. Það var starfrækt með innleigu á erlendum flugrekstraraðila með flugrekstrarleyfi á Möltu og starfrækt sem sýndarflugfélag. Við þrot þess reyndist farþegum ótækt að nálgast bætur og töpuðu þeir bæði fé sínu og ferðaréttindum.

Steininn tekur úr í ummælum forstjóra Play þegar hann ræðir um málefni stéttarfélaga. Aðspurður um hvers vegna flugmenn Play eru ekki félagsmeðlimir FÍA, fullyrðir hann að „FÍA vildi ekki flugmenn WOW á sínum tíma“. Þarna fer forstjórinn með rangt mál og sýnir yfirgripsmikið þekkingarleysi á málinu. Réttilega segir hann að flugmönnum sé frjálst að vera í því stéttarfélagi sem þeir kjósa. Ekki verður gerð athugasemd við þá fullyrðingu. En þá er rétt að rifja upp í hverju það frelsi felst. Í fréttabréfi FÍA í desember 2024 er gerð nákvæm grein fyrir hvernig í þann pott er búið. Þar má telja til:

  • Gerð gervikjarasamninga án vitundar og samþykkis viðkomandi starfsfólks.
  • Gult stéttarfélag sem gengur erinda vinnuveitanda.
  • Félagsleg undirboð, sem nákvæmlega voru útlistuð fyrir fjárfestum. Þar kom beinlínis fram að með nýjum gervikjarasamningum sem gerðir yrðu í stað WOW kjarasamninga myndu laun lækka um 19 -37% auk þess sem önnur réttindi yrðu felld út.
  • Innleiga á erlendu vinnuafli sem ekki var skráð hjá eftirlitsaðilum á Íslandi lögum samkvæmt.
  • Fjárfestakynning sem byggði grímulaust á félagslegum undirboðum.

Sjá nánar: https://fia.overcastcdn.com/documents/fréttabréf_desember.pdf

Engin tilraun hefur verið gerð til að hrekja þá sögu sem rakin er í fréttabréfi FÍA en forstjórinn skautaði haganlega fram hjá þessum staðreyndum.

Forstjóri Play fór mikinn um að formaður FÍA tali af vanþekkingu, en segist sjálfur „ekki hafa lesið kjarasamningana“, en Play bjóði samt „mjög fín kjör“. Einstreymi hefur þó verið af flugmönnum frá Play til viðsemjenda FÍA. Dæmi hver fyrir sig. Rétt er að bæði flugmenn og flugliðar Play hafa nýlega undirritað kjarasamninga, en spurt er: hver er samningsstaða stéttar sem hefur ekki félagslegt skjól og er í þeirri stöðu að störf þeirra eru nú kerfisbundið flutt úr landi? Sá hópur er tilneyddur til að aðstoða við þá vegferð að grafa undan sjálfum sér. Öll þessi sorgarvegferð varðar flugstéttina alla og því fullkomlega eðlilegt og í raun skylt að FÍA hafi afskipti af. Tæpitungulaust.

Virðingarfyllst

Fyrir hönd Félags íslenskra atvinnuflugmanna

Jón Þór Þorvaldsson