None
28. apr 2020

Tilkynning vegna uppsagna

Í dag bárust slæmar fréttir frá Icelandair Group með uppsögnum á rúmlega 2000 starfsmönnum en þar af var 421 flugmaður. Einnig bárust þær fregnir að 13 flugmönnum verði sagt upp hjá Air Iceland Connect um næstu mánaðarmót. Áður höfðu enn fleiri flugmenn látið af störfum en tæplega 600 flugmenn störfuðu hjá Icelandair þegar mest var. Þá er enn ótalinn sá hópur sem hafði þegar misst flugstjórarstöðu sína og verið færður í sæti flugmanns.

Verkefni Félags íslenskra atvinnuflugmanna er nú að styðja við flugmenn eftir bestu getu og aðstoða þá í þeirri erfiðu stöðu sem þeir kljást nú við.

Flugiðnaðurinn er slagæð í efnahag og hagkerfi þjóðarinnar, iðnaður sem heldur uppi um 72.000 störfum á Íslandi, beint eða óbeint. Ferðaiðnaður, sjávarútvegur og ótal fleiri atvinnugreinar reiða sig á greiðar og reglulegar flugsamgöngur.

Sú mikla umferð sem fer um Keflavíkurflugvöll árlega er afrakstur áratuga vinnu Icelandair til að festa Ísland í sessi sem tengil eða miðpunkt milli heimsálfa (e. hub and spoke system).

Sú mikilvæga staða er nú í hættu ef ekki verður gripið inn í með myndarlegum hætti.

Flugmenn Icelandair hafa staðið með fyrirtækinu í gegnum súrt og sætt og munu halda því áfram. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að gera slíkt hið sama, grípa inn í og tryggja áframhaldandi grundvöll reglulegra flugsamgangna milli Íslands og umheimsins. Icelandair þarf jafnframt að vera tilbúið til að rísa hratt upp þegar aðstæður gefa efni til.

Við viljum leggja áherslu á að þetta er tímabundið ástand og þrátt fyrir höggin sem dynja á okkur flugmönnum og öðrum stéttum, þá munum við standa þetta af okkur.

Sé frekari upplýsinga óskað er velkomið að leita til skrifstofu FÍA.