None
09. okt 2013

Nýjar FTL reglur samþykktar. Ekki til þess fallnar að auka flugöryggi

Evrópuþingið samþykkti í dag 9. október nýjar reglur um flug- vakt og hvíldartíma flugáhafna svokallaðar FTL. Forsvarsmenn flugáhafna í Evrópu hafa margsinnis vakið athygli á alvarlegum göllum í nýju reglum Evrópusambandsins eins og t.d. að leyfa næturvaktir allt að 12 klst og 30 mínútur þegar vísindamenn hafa lagt til að hámarkið væri 10 klst. Einnig geta flugmenn verið á bakvakt og í framhaldi af því verið kallaðir út á flugvakt sem gæti samanlagt verið allt að 22 klst samkvæmt reglunum.  

Þessi niðurstaða Evrópuþingsins kemur á óvart eftir að samgöngunefnd þingsins hafnaði nýju reglunum með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu fyrir um viku síðan. Ástæða sinnaskiptanna er rakin til þess að sá sem fer með málaflokkinn í Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kom fram með lítilsháttar breytingar á orðalagi í gær sem breyta í raun afar litlu. Hann m.a. staðfesti að það sem kallað hefur verið „non regression principle“ sem þýðir að einstaka Evrópuríkjum verður áfram heimilt að hafa strangari reglur en þær sem þarna eru settar.  

Sjá nánar fréttatilkynningu frá ECA hér.