Tengdar fréttir
Íslenskir flugrekendur brjóta reglur vinnumarkaðar: stjórnvöld máttlaus og launþegar sitja eftir með sárt ennið
Í áratugi hafa stéttarfélag flugmanna og flugrekendur hér á landi átt í farsælu samstarfi og starfað eftir leikreglum íslensks vinnumarkaðar og þannig átt stóran þátt í því að koma á undirstöðum þess sem nú er orðinn stór iðnaður hér á landi. Síðustu ár hafa þó markað ákveðin vatnaskil í starfsumhverfi flugmanna. Í tvennum tilvikum hafa flugfélögin Bláfugl og Play gengið harkalega á svig við gildandi reglur, hefðir og kjarasamninga. Ber þar helst að nefna: ólögmætar uppsagnir launþega; félagsleg undirboð; gerð gervikjarasamninga með tilstuðlan guls stéttarfélags og gerviverktöku flugmanna sem ekki fæst staðist; hvorki gagnvart vinnu- né skattarétti. Nýjustu vendingar í þessum málum er gjaldþrot Bláfugls, sem er kveikjan að þessari tilkynningu og gefur tilefni til umfjöllunar.
Stofnun flugfélagsins Bláfugls
Flugfélagð Bláfugl var stofnað árið 1999 og starfaði í flugfragt til og frá Íslandi, ásamt því að vera með starfsstöðvar í Evrópu. Frá upphafi störfuðu íslenskir flugmenn hjá félaginu, á kjarasamningi við FÍA, en þar störfuðu einnig erlendir flugmenn. Félagið var í upphafi í eigu Íslendinga og starfaði á íslensku flugrekstrarleyfi. Snemma árs 2020 var félagið selt til Avia Solutions Group, sem er stórtækt félag í flugrekstri í mið- og austur Evrópu og í eigu Litháa. Höfuðstöðvar þess eru nú á Írlandi. Fljótlega eftir söluna tók Sigurður Örn Ágústsson við forstjórastólnum.
Ólöglegar uppsagnir, gerviverktaka og félagsleg undirboð
Í lok árs árið 2020 var ellefu kjarasamningsbundnum flugmönnum sagt upp frá Bláfugli fyrirvaralaust. Skarð þeirra var fyllt með erlendum gerviverktökum á helmingi lægri launum, en það er mat FÍA að flugmenn geti í eðli sínu aldrei starfað sem verktakar. Málið var kært til Félagsdóms, sem dæmdi að um ólöglegar uppsagnir hafi verið að ræða, m.a. á þeirri forsendu að með uppsögninni hefði Bláfugl gerst sekur um ólögmæt afskipti af kjarasamningsgerð sem þá stóð yfir. Dómurinn tók ekki afstöðu til bótaréttar vegna atvinnu- og tekjumissis umræddra flugmanna.
Brotaþolum dæmdar skaðabætur
FÍA, fyrir hönd félagmanna sinna, höfðaði í kjölfarið skaðabótamál á hendur Bláfugli vegna þessara ólögmætu uppsagna. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að með háttsemi sinni hefði félagið gerst skaðabótaskylt, m.a. með vísan til niðurstöðu Félagsdóms um ólögmætar uppsagnir. Dæmdar skaðabætur voru að jafngildi þriggja mánaða uppsagnarfresti sem gaf það skaðlega fordæmi að vinnuveitendur mættu segja upp kjarasamningsbundnum starfsmönnum sínum og ráða inn gerviverktaka á helmingi lægri launum, þrátt fyrir skýr ákvæði kjarasamninga um forgangsrétt til starfa. Málinu var áfrýjað til Landsréttar, sem kvað upp sinn dóm í júní 2025 sem bæði tvöfaldaði dæmdar skaðabætur og gaf mun betra fordæmi vinnuréttarlega séð hvað varðar forgangsrétt flugmanna til sinna starfa samkvæmt kjarasamningi. Taldi Landsréttur að Bláfugl hefði brotið samningsskyldur sínar um forgangsrétt með því að ráða inn verktaka í þeirra störf.
Bláfugl leggur niður starfsemi
Í mars árið 2024 var tilkynnt að starfsemi Bláfugls yrði lögð niður. Forstjóri félagsins Sigurður Örn var í apríl sama ár ráðinn sem framkvæmdastjóri hjá flugfélaginu Play. Flugrekstrarleyfi Bláfugls var í kjölfarið skilað inn en félagið varþó áfram til sem lögaðili hér á landi.
Bláfugl lýstur gjaldþrota
Bláfugl var þann 14. ágúst s.l. lýst gjaldþrota fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Það skal tekið fram að Avia Solutions er enn í fullri starfsemi sem fleiri dótturfélög um allan heim og flýgur vélum Bláfugls núna undir öðrum nöfnum. En með gjaldþroti Bláfugls má áætla að afar ólíklega takist að innheimta dæmdar skaðabætur til handa þeim ellefu flugmönnum sem máttu þola ólögmætar uppsagnir. Þrátt fyrir sigur á þremur dómsstigum og réttilega dæmdar skaðabætur, eru vonir um réttlæti nær að engu orðnar. Fimm ára þrautaganga launþega í átt að réttlæti skilar þannig sigri fyrir þann sem brýtur reglurnar.
Meinsemdir og máttleysi stjórnvalda
Í málinu kristallast nokkrar af þeim meinsemdum sem herja á íslenska flugmenn og er ástæða til að rekja frekar. Í aðgerðum sínum fór Bláfugl freklega á svig við kjarasamninga og grundvallarreglur íslensks vinnumarkaðar. Svipuð viðleitni hefur sést með gerð gervikjarasamninga við flugfólk Play. Launþegum er skipt út fyrir gerviverktaka, þrátt fyrir að augljóst sé að flugmaður getur ekki samkvæmt skilgreiningu starfað sem verktaki. Úrræði launþega og stéttarfélaga til að sporna við þessari þróun eru fá og seinvirk. Stjórnvöld hafa ekki spyrnt við fæti með afgerandi hætti. Íslensk flugfélög leigja inn flugmenn í gegnum erlendar starfsmannaleigur en Vinnumálastofnun hefur því miður neitað að skrá þær í samræmi við lög um starfsmannaleigur. Stofnunin hefur heldur ekki tryggt að þessum flugmönnum sé greitt samkvæmt kjarasamningi, eins og lögin kveða á um. Félagslegum undirboðum og gerviverktöku er þannig leyft að viðgangast án nokkurra afskipta með tilheyrandi tjóni fyrir íslenska launþega.
Helstu rök Vinnumálastofnunar hafa verið þau að verið sé að leigja verktaka en ekki launþega. Ekki þarf að kafa djúpt til að sjá að hér er um augljósa gerviverktöku að ræða. Nægir þar að nefna að flugmenn mæta augljóslega ekki með sín tæki og tól til vinnu og stjórna ekki vinnutíma sínum sjálfir.
Sporin hræða
Eins og þekkt er vinnur Play nú að því að flytja starfsemi sína að mestu til Möltu og auglýst er eftir flugmönnum til verktakavinnu þar í landi. Því hefur verið lýst yfir að íslensku flugrekstrarleyfi muni í kjölfarið verða lagt niður. Þar minnir margt á þá atburðarrás sem Bláfugl hrinti af stað og því eðlilegt að spurt sé hvað verði um þá íslensku launþega sem þar starfa og réttindi þeirra? Munu þeir að lokum þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómsstólum og sitja eftir með sárt ennið ef félagið verður lýst gjaldþrota hér á landi?
Ábyrgð og skuldaskil
Að ofangreindu virtu vakna einnig spurningar um réttindi flugfarþega og viðskiptavina sem hafa í góðri trú verslað við fyrirtæki sem starfa með þessum hætti. Stutt er að minnast ævintýra Niceair, Primera Air og fleiri félaga sem hafa skilið bæði starfsfólk og viðskiptavini eftir í sárum. Verður þessari sögu leyft að endurtaka sig? Eða munu eftirlitsaðilar og stjórnvöld s.s. Samgöngustofa, Neytendastofa, Vinnumálastofnun og tengd ráðuneyti axla lögbundna ábyrgð og standa skuldaskil gagnvart launþegum og neytendum, áður en skaðinn er skeður?
Virðingarfyllst
F.h. Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Jón Þór Þorvaldsson, formaður
Flugmenn Landhelgsgæslunnar samþykktu miðlunartillögu
Þann 15. júlí 2025 lauk kosningu um miðlunartillögu milli FÍA og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs vegna Landhelgisgæslu Íslands.
17 voru á kjörskrá og greiddu 16 atkvæði. Kjörsókn var því 94%. 16 flugmenn samþykktu miðlunartillöguna, og er því samþykkt með 100% þeirra sem tóku afstöðu.
Samningurinn hefur nú tekið gildi og gildir til 31. maí 2026.
Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar
Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar
Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar (LHG). Flugmenn LHG bíða enn eftir að samið verði um nýjan kjarasamning en unnið hefur verið að slíkum samningi nú í fimm ár. Á sama tíma hafa flugmenn LHG lagt allt sitt undir til að halda uppi háu þjónustustigi þrátt fyrir undirmönnun og hægan samningsvilja af hálfu ríkisins.
Þá liggur fyrir að Landhelgisgæslan þrýstir á flugmenn að standa vaktina þrátt fyrir að vera búnir með hámarks vakttíma og í orlofi og veikindum sem FÍA telur verulega alvarlegt og ganga gegn öllum reglum varðandi flugöryggi og réttindum flugmanna. Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni enda blasir við að fjöldi útkalla er í hámarki yfir sumartímann sem nú stendur yfir. Áhyggjur félagsins varðar almannahagsmuni í landinu og flugöryggi.
Að mati FÍA hafa viðræður fyrst og fremst tafist að tilstuðlan samninganefndar ríkisins (SNR). Unnið hefur verið að nýjum heildstæðum samningi í hartnær tvö ár þar sem unnið hefur verið að lausn á þeim deilumálum sem út af stóðu og boðað hafi verið til vöfflukaffis hjá ríkissáttasemjara í lok júní. Á þeim tímapunkti hafi SNR þó skyndilega dregið alla vinnuna til baka og ekki hefur verið boðað til fundar af hálfu ríkissáttasemjara síðan þá.
Fjármálaráðuneytið ræðst með þessu á verkfallsréttalausa starfsstétt en enn alvarlegra er að flugöryggi Landhelgisgæslunnar er stefnt í hættu með grafalvarlegum afleiðingum fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á þeirri þjónustu að halda. Virðingarleysi stjórnvalda gagnvart þessari mikilvægu framvarðasveit landsins er með öllu óásættanlegt að mati FÍA.
