Tengdar fréttir
Viðbrögð vegna ummæla forstjóra Play
Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur verið starfrækt í 79 ár og er elsta fag- og stéttarfélag atvinnuflugmanna á Íslandi. Félagsmenn þess eru á níunda hundrað. Viðsemjendur félagsins eru nær allir íslenskir flugrekendur, að Play undanskyldu, þ.m.t. Air Atlanta, Icelandair, Norlandair, Landhelgisgæslan og Flugskólarnir. Formaður FÍA kemur eingöngu fram í umboði FÍA og ræðir hagsmuni félagsins og félagsmanna þess. Sem eina lögmæta stéttarfélag flugmanna hér á landi telur félagið sér skylt að standa vörð um öll málefni stéttarinnar og flugsins sem atvinnugreinar almennt. Hvort sem það varðar félagsmenn þess beint eða samstarfsfélaga utan félags. Öllum dylgjum forstjóra Play um að formaður FÍA tali í umboði annarra er því alfarið vísað á bug og telst sem tilraun til þöggunar á eðlilegri og nauðsynlegri umræðu.
Tilefni viðtalsins á Bylgjunni við undirritaðan var gjaldþrot flugfélagsins Bláfugls en í fimm ár hefur FÍA gengið þrautagöngu með flugmönnum félagsins sem var sagt upp með ólögmætum hætti. Öll dómsmál gagnvart Bláfugli hafa unnist enda hefur framganga Bláfugls gengið harkalega á svig við gildandi reglur, hefðir og kjarasamninga. Síðasti sigur FÍA var bótaskylda Bláfugls vegna þessarar framgöngu en í kjölfarið fór félagið í þrot og sitja kjarasamningsbundnir flugmenn þess eftir með sárt ennið. Í viðtalinu fór undirritaður formaður FÍA yfir áhyggjur félagsins af því að stjórnvöld stæðu ekki vörðinn eins og þeim væri skylt og að fleiri félög fylgdu eftir fordæmi Bláfugls óáreitt, þ.á.m. Play.
Í umræddu viðtali, taldi formaður FÍA líkur til þess að flugfélagið Play gæti á ótilgreindum tíma einnig farið í þrot og byggir sú staðhæfing á eftirfarandi vísbendingum og rökum:
- Frá stofnun félagsins hefur það glímt við stórkostlegan og samfelldan taprekstur. Ítrekað hafa komið fram fullyrðingar um væntan viðsnúning í rekstri sem aldrei hafa staðist.
- Nýleg fjármögnun sem forstjórinn segir sýna styrk Play, sýnir líka áhættuna sem fjárfestar telja að felist í rekstri Play. Skv. fréttum eru vextirnir „með þeim hærri sem sést hafa í flugiðnaðinum á síðustu árum“ eða 17,5%.
- Í árshlutauppgjöri Play fyrir 2. ársfjórðung 2025 var eiginfjárstaða Play neikvæð um nærri 10 ma. króna.
- Tilkynnt hefur verið um flutning flugrekstrarleyfis til Möltu; störf hafa kerfisbundið verið flutt úr landi, með tilheyrandi uppsögnum á íslensku starfsfólki. Forstjóri félagsins hefur þegar reynt yfirtöku á félaginu með afskráningu á markaði, sem hluthafar og fjárfestar hafa hafnað að sinni.
- Samkvæmt því sem fram hefur komið verður flugrekstur félagsins fluttur úr landi og íslenskt flugrekstrarleyfi lagt niður.
Auk ofangreinds liggur fyrir að einn af stjórnendum Play er fyrrverandi forstjóri Bláfugls, en í hans tíð var öllum kjarasamningsbundnum flugmönnum félagsins sagt upp starfi, með tilheyrandi tjóni fyrir flugmennina sem litlar sem engar líkur eru á að fáist bætt. Flugfélagið Bláfugl var sett í gjaldþrot þegar kom að skuldbindingum þess hér innanlands. Starfsemi félagsins var áður en til gjaldþrots kom með sambærilegum hætti flutt úr landi. Spár um endalok Play á Íslandi eru því byggðar á heildstæðu mati á atburðarrás sem er þekkt og þegar hafin.
Hvað varðar réttindi farþega og áhættu þeirra sem þegar hafa keypt farmiða fram í tímann, vísar formaður FÍA til þeirra dæma sem þegar hafa átt sér stað, t.d. fyrr á þessu ári þegar viðskiptavinir sem áttu bókað flug til Króatíu, Þýskalands og Madeira, fengu tilkynningu um að flugunum hefði verið aflýst. Það er mat FÍA, byggt á reynslu, að flugfélag sem er í slíkum umbreytingarfasa sé líklegra en ella að gera breytingar með stuttum fyrirvara, sem geta sett ferðaáætlanir farþega í uppnám. Spyrjum að leikslokum. Í sömu andrá má spyrja hvernig viðskiptasambandi farþega verði háttað þegar Play yfirgefur Ísland og starfar eingöngu á maltversku flugrekstrarleyfi. Fara viðskipti fram við flugfélag, ferðaskrifstofu eða miðasölu? Nýlegt dæmi NiceAir sýnir að réttindi farþega geta reynst mjög ótrygg þegar flug er keypt við óljósar aðstæður. NiceAir var kallað flugfélag þó svo að félagið væri ekki með flugrekstrarleyfi. Það var starfrækt með innleigu á erlendum flugrekstraraðila með flugrekstrarleyfi á Möltu og starfrækt sem sýndarflugfélag. Við þrot þess reyndist farþegum ótækt að nálgast bætur og töpuðu þeir bæði fé sínu og ferðaréttindum.
Steininn tekur úr í ummælum forstjóra Play þegar hann ræðir um málefni stéttarfélaga. Aðspurður um hvers vegna flugmenn Play eru ekki félagsmeðlimir FÍA, fullyrðir hann að „FÍA vildi ekki flugmenn WOW á sínum tíma“. Þarna fer forstjórinn með rangt mál og sýnir yfirgripsmikið þekkingarleysi á málinu. Réttilega segir hann að flugmönnum sé frjálst að vera í því stéttarfélagi sem þeir kjósa. Ekki verður gerð athugasemd við þá fullyrðingu. En þá er rétt að rifja upp í hverju það frelsi felst. Í fréttabréfi FÍA í desember 2024 er gerð nákvæm grein fyrir hvernig í þann pott er búið. Þar má telja til:
- Gerð gervikjarasamninga án vitundar og samþykkis viðkomandi starfsfólks.
- Gult stéttarfélag sem gengur erinda vinnuveitanda.
- Félagsleg undirboð, sem nákvæmlega voru útlistuð fyrir fjárfestum. Þar kom beinlínis fram að með nýjum gervikjarasamningum sem gerðir yrðu í stað WOW kjarasamninga myndu laun lækka um 19 -37% auk þess sem önnur réttindi yrðu felld út.
- Innleiga á erlendu vinnuafli sem ekki var skráð hjá eftirlitsaðilum á Íslandi lögum samkvæmt.
- Fjárfestakynning sem byggði grímulaust á félagslegum undirboðum.
Sjá nánar: https://fia.overcastcdn.com/documents/fréttabréf_desember.pdf
Engin tilraun hefur verið gerð til að hrekja þá sögu sem rakin er í fréttabréfi FÍA en forstjórinn skautaði haganlega fram hjá þessum staðreyndum.
Forstjóri Play fór mikinn um að formaður FÍA tali af vanþekkingu, en segist sjálfur „ekki hafa lesið kjarasamningana“, en Play bjóði samt „mjög fín kjör“. Einstreymi hefur þó verið af flugmönnum frá Play til viðsemjenda FÍA. Dæmi hver fyrir sig. Rétt er að bæði flugmenn og flugliðar Play hafa nýlega undirritað kjarasamninga, en spurt er: hver er samningsstaða stéttar sem hefur ekki félagslegt skjól og er í þeirri stöðu að störf þeirra eru nú kerfisbundið flutt úr landi? Sá hópur er tilneyddur til að aðstoða við þá vegferð að grafa undan sjálfum sér. Öll þessi sorgarvegferð varðar flugstéttina alla og því fullkomlega eðlilegt og í raun skylt að FÍA hafi afskipti af. Tæpitungulaust.
Virðingarfyllst
Fyrir hönd Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Jón Þór Þorvaldsson
Íslenskir flugrekendur brjóta reglur vinnumarkaðar: stjórnvöld máttlaus og launþegar sitja eftir með sárt ennið
Í áratugi hafa stéttarfélag flugmanna og flugrekendur hér á landi átt í farsælu samstarfi og starfað eftir leikreglum íslensks vinnumarkaðar og þannig átt stóran þátt í því að koma á undirstöðum þess sem nú er orðinn stór iðnaður hér á landi. Síðustu ár hafa þó markað ákveðin vatnaskil í starfsumhverfi flugmanna. Í tvennum tilvikum hafa flugfélögin Bláfugl og Play gengið harkalega á svig við gildandi reglur, hefðir og kjarasamninga. Ber þar helst að nefna: ólögmætar uppsagnir launþega; félagsleg undirboð; gerð gervikjarasamninga með tilstuðlan guls stéttarfélags og gerviverktöku flugmanna sem ekki fæst staðist; hvorki gagnvart vinnu- né skattarétti. Nýjustu vendingar í þessum málum er gjaldþrot Bláfugls, sem er kveikjan að þessari tilkynningu og gefur tilefni til umfjöllunar.
Stofnun flugfélagsins Bláfugls
Flugfélagð Bláfugl var stofnað árið 1999 og starfaði í flugfragt til og frá Íslandi, ásamt því að vera með starfsstöðvar í Evrópu. Frá upphafi störfuðu íslenskir flugmenn hjá félaginu, á kjarasamningi við FÍA, en þar störfuðu einnig erlendir flugmenn. Félagið var í upphafi í eigu Íslendinga og starfaði á íslensku flugrekstrarleyfi. Snemma árs 2020 var félagið selt til Avia Solutions Group, sem er stórtækt félag í flugrekstri í mið- og austur Evrópu og í eigu Litháa. Höfuðstöðvar þess eru nú á Írlandi. Fljótlega eftir söluna tók Sigurður Örn Ágústsson við forstjórastólnum.
Ólöglegar uppsagnir, gerviverktaka og félagsleg undirboð
Í lok árs árið 2020 var ellefu kjarasamningsbundnum flugmönnum sagt upp frá Bláfugli fyrirvaralaust. Skarð þeirra var fyllt með erlendum gerviverktökum á helmingi lægri launum, en það er mat FÍA að flugmenn geti í eðli sínu aldrei starfað sem verktakar. Málið var kært til Félagsdóms, sem dæmdi að um ólöglegar uppsagnir hafi verið að ræða, m.a. á þeirri forsendu að með uppsögninni hefði Bláfugl gerst sekur um ólögmæt afskipti af kjarasamningsgerð sem þá stóð yfir. Dómurinn tók ekki afstöðu til bótaréttar vegna atvinnu- og tekjumissis umræddra flugmanna.
Brotaþolum dæmdar skaðabætur
FÍA, fyrir hönd félagmanna sinna, höfðaði í kjölfarið skaðabótamál á hendur Bláfugli vegna þessara ólögmætu uppsagna. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að með háttsemi sinni hefði félagið gerst skaðabótaskylt, m.a. með vísan til niðurstöðu Félagsdóms um ólögmætar uppsagnir. Dæmdar skaðabætur voru að jafngildi þriggja mánaða uppsagnarfresti sem gaf það skaðlega fordæmi að vinnuveitendur mættu segja upp kjarasamningsbundnum starfsmönnum sínum og ráða inn gerviverktaka á helmingi lægri launum, þrátt fyrir skýr ákvæði kjarasamninga um forgangsrétt til starfa. Málinu var áfrýjað til Landsréttar, sem kvað upp sinn dóm í júní 2025 sem bæði tvöfaldaði dæmdar skaðabætur og gaf mun betra fordæmi vinnuréttarlega séð hvað varðar forgangsrétt flugmanna til sinna starfa samkvæmt kjarasamningi. Taldi Landsréttur að Bláfugl hefði brotið samningsskyldur sínar um forgangsrétt með því að ráða inn verktaka í þeirra störf.
Bláfugl leggur niður starfsemi
Í mars árið 2024 var tilkynnt að starfsemi Bláfugls yrði lögð niður. Forstjóri félagsins Sigurður Örn var í apríl sama ár ráðinn sem framkvæmdastjóri hjá flugfélaginu Play. Flugrekstrarleyfi Bláfugls var í kjölfarið skilað inn en félagið varþó áfram til sem lögaðili hér á landi.
Bláfugl lýstur gjaldþrota
Bláfugl var þann 14. ágúst s.l. lýst gjaldþrota fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Það skal tekið fram að Avia Solutions er enn í fullri starfsemi sem fleiri dótturfélög um allan heim og flýgur vélum Bláfugls núna undir öðrum nöfnum. En með gjaldþroti Bláfugls má áætla að afar ólíklega takist að innheimta dæmdar skaðabætur til handa þeim ellefu flugmönnum sem máttu þola ólögmætar uppsagnir. Þrátt fyrir sigur á þremur dómsstigum og réttilega dæmdar skaðabætur, eru vonir um réttlæti nær að engu orðnar. Fimm ára þrautaganga launþega í átt að réttlæti skilar þannig sigri fyrir þann sem brýtur reglurnar.
Meinsemdir og máttleysi stjórnvalda
Í málinu kristallast nokkrar af þeim meinsemdum sem herja á íslenska flugmenn og er ástæða til að rekja frekar. Í aðgerðum sínum fór Bláfugl freklega á svig við kjarasamninga og grundvallarreglur íslensks vinnumarkaðar. Svipuð viðleitni hefur sést með gerð gervikjarasamninga við flugfólk Play. Launþegum er skipt út fyrir gerviverktaka, þrátt fyrir að augljóst sé að flugmaður getur ekki samkvæmt skilgreiningu starfað sem verktaki. Úrræði launþega og stéttarfélaga til að sporna við þessari þróun eru fá og seinvirk. Stjórnvöld hafa ekki spyrnt við fæti með afgerandi hætti. Íslensk flugfélög leigja inn flugmenn í gegnum erlendar starfsmannaleigur en Vinnumálastofnun hefur því miður neitað að skrá þær í samræmi við lög um starfsmannaleigur. Stofnunin hefur heldur ekki tryggt að þessum flugmönnum sé greitt samkvæmt kjarasamningi, eins og lögin kveða á um. Félagslegum undirboðum og gerviverktöku er þannig leyft að viðgangast án nokkurra afskipta með tilheyrandi tjóni fyrir íslenska launþega.
Helstu rök Vinnumálastofnunar hafa verið þau að verið sé að leigja verktaka en ekki launþega. Ekki þarf að kafa djúpt til að sjá að hér er um augljósa gerviverktöku að ræða. Nægir þar að nefna að flugmenn mæta augljóslega ekki með sín tæki og tól til vinnu og stjórna ekki vinnutíma sínum sjálfir.
Sporin hræða
Eins og þekkt er vinnur Play nú að því að flytja starfsemi sína að mestu til Möltu og auglýst er eftir flugmönnum til verktakavinnu þar í landi. Því hefur verið lýst yfir að íslensku flugrekstrarleyfi muni í kjölfarið verða lagt niður. Þar minnir margt á þá atburðarrás sem Bláfugl hrinti af stað og því eðlilegt að spurt sé hvað verði um þá íslensku launþega sem þar starfa og réttindi þeirra? Munu þeir að lokum þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómsstólum og sitja eftir með sárt ennið ef félagið verður lýst gjaldþrota hér á landi?
Ábyrgð og skuldaskil
Að ofangreindu virtu vakna einnig spurningar um réttindi flugfarþega og viðskiptavina sem hafa í góðri trú verslað við fyrirtæki sem starfa með þessum hætti. Stutt er að minnast ævintýra Niceair, Primera Air og fleiri félaga sem hafa skilið bæði starfsfólk og viðskiptavini eftir í sárum. Verður þessari sögu leyft að endurtaka sig? Eða munu eftirlitsaðilar og stjórnvöld s.s. Samgöngustofa, Neytendastofa, Vinnumálastofnun og tengd ráðuneyti axla lögbundna ábyrgð og standa skuldaskil gagnvart launþegum og neytendum, áður en skaðinn er skeður?
Virðingarfyllst
F.h. Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Jón Þór Þorvaldsson, formaður
Flugmenn Landhelgsgæslunnar samþykktu miðlunartillögu
Þann 15. júlí 2025 lauk kosningu um miðlunartillögu milli FÍA og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs vegna Landhelgisgæslu Íslands.
17 voru á kjörskrá og greiddu 16 atkvæði. Kjörsókn var því 94%. 16 flugmenn samþykktu miðlunartillöguna, og er því samþykkt með 100% þeirra sem tóku afstöðu.
Samningurinn hefur nú tekið gildi og gildir til 31. maí 2026.