Fréttir

04. maí 2017

Mikilvægi varaflugvalla á Íslandi

Flugatvik varð á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku og lokaðist völlurinn af þeim sökum um nokkurn tíma. Aðeins hluti annarar af tveimur flugbrautum vallarins var í notkun vegna framkvæmda við viðhald og endurnýjun á flugbrautum og akstursbrautum.

Þegar Keflavíkurflugvöllur lokast skyndilega gegna flugvellirnir í Reykjavík, á Egilsstöðum og Akureyri þýðingarmiklu hlutverki sem varaflugvellir. Með sívaxandi umsvifum á Keflavíkurflugvelli þarf að huga betur að getu þeirra til að sinna því hlutverki. Á Reykjavíkurflugvelli eru flugbrautir stuttar og veðurfar svipað og í Keflavík. Lokist Keflavíkurflugvöllur vegna veðurs á það sama iðulega við um Reykjavíkurflugvöll. Í besta falli er pláss fyrir fjórar farþegaþotur á hvorum stað á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. Það er því orðið mjög brýnt að stækka flughlöðin á þessum völlum til að fyrirbyggja að háskalegt ástand geti skapast. Síðustu ár hefur efni úr Vaðlaheiðargöngum verið flutt á Akureyrarflugvöll til að stækka flughlaðið en ríkið hefur því miður ekki tryggt fjármagn til að ljúka framkvæmdunum.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna FÍA skorar á ríkisvaldið að huga að framkvæmdum við stækkun flughlaða á Akureyri og Egilsstöðum. Flugvél sem lendir á Keflavíkurflugvelli og notar Reykjavíkur-, Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvöll sem varaflugvöll greiðir einungis lendingargjöld í Keflavík. Eðlilegt er að nýta hluta þeirra tekna til framkvæmda og viðhalds á varaflugvöllunum. Þeir eru mikilvægir hlekkir í þeirri keðju flugsamgangna sem íslensku alþjóðaflugvellirnir fjórir eru.

Stjórn FÍA

Öryggisnefnd FÍA

Lesa meira