06. des 2018

Ernir tekur nýja flugvél í notkun

Í desember tók Flugfélagið Ernir í notkun flugvél af gerðinni Dornier 328. Vélin rúmar 32 farþega auk þriggja manna áhafnar og mun sinna áætlunarflugi á leiðum félagsins auk tilfallandi verkefna innanlands og utan.

„Við bindum vonir til þess að aukinn sætafjöldi skili hagkvæmni á ákveðnum leiðum og möguleika félagsins til að bjóða hagstæðari fargjöld en hægt hefur verið. Allt fer það þó eftir kaupum, kjörum og aðstæðum á okkar örmarkaði, “ segir Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis en til þessa hefur félagið haft að skipa fjórum 19 farþega flugvélum af Jetstream 31/32 gerð.

Flugfélagið Ernir er elsta starfandi flugfélag hér á landi, og er enn stjórnað af stofnendum þess frá árinu 1970. Ernir heldur úti áætlunarflugi til fimm áfangastaða á landsbyggðinni auk Reykjavíkur. Það eru Vestmannaeyjar, Höfn Hornafirði, Húsavík, Gjögur og Bíldudalur.